13.03.1984
Efri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3661 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera mjög stuttorður. Afstaða mín til vísitölugrundvallar er í einföldustum dráttum sú, að það sé ekki Alþingis eða ríkisstj. að hlutast til um ákvörðun hans eða útreikning. Þetta sé atriði sem fyrst og fremst lýtur að hagsmunum launþegasamtaka og vinnuveitenda og það sé brýnt hagsmunamál þessara aðila að halda vísitölugrundvellinum og útreikningi hans alltaf í sem nánustu samhengi við raunveruleikann í ríkisbúinu.

Ég horfi því sérstaklega til tveggja atriða í þessu frv. Annars vegar í 2. gr. þar sem segir: „Nú óskar ríkisstj., Alþýðusamband Íslands eða Vinnuveitendasamband Íslands eftir því, að vísitala framfærslukostnaðar verði reiknuð aukalega í byrjun annars mánaðar en skylt er að reikna hana skv. fyrri mgr. þessarar gr., og skal þá Kauplagsnefnd verða við þeirri ósk, enda sé hún borin fram með minnst tveggja vikna fyrirvara.“ Þar með er inni varnagli fyrir þá aðila sem telja sig hafa beina hagsmuni af því að reikna upp vísitöluna hvenær sem nauðsyn krefur til að fara fram á það með tveggja vikna fyrirvara. Og sinni menn ekki þessu beina hagsmunamáli sínu þá geta þeir sjálfum sér um kennt.

Hitt atriðið er í 3. gr. þar sem segir: „Að fengnum niðurstöðum er nefndinni — sé hún sammála — heimilt að ákveða framfærsluvísitölunni nýjan grundvöll án þess að koma þurfi til lagasetningar.“

Ég tel mjög gagnlegt og heilbrigt að aðilar vinnumarkaðarins hafi þarna sjálfsákvörðunarrétt því að þó að ekki sé að vísu verið að binda laun við vísitölu hér í dag þá fer það náttúrlega ekkert á milli mála að vísitalan er skoðuð og launaákvarðarnir teknar í samræmi við hana þegar laun eru ákveðin. Þess vegna ætla ég mér að greiða atkv. með þessu frv.