13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

423. mál, íslenskt efni á myndsnældum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Eftir að þáltill. sú sem hv. fyrirspyrjandi ræddi um var samþykkt var hún send Ríkisútvarpinu og fleiri aðilum til athugunar og umsagnar, m. a. ýmsum samtökum rétthafa að höfundarrétti. Þetta var gert í júní 1982. Í júlí 1983 var þeim tilmælum beint til útvarpsstjóra að gerð yrði könnun á þeim möguleika að framleiða og fjölfalda hljóðbönd og myndbönd. Það var gert með bréfi frá mér á þeim tíma og benti ég sérstaklega í því sambandi á barnatíma og barnaefni úr útvarpi og sjónvarpi.

Könnun var gerð á framkvæmdaþáttum þessa máls. Skv. bréfi, sem dags. er 27. sept. s. l., leiddi könnunin m. a. eftirfarandi í ljós:

1. Fjölföldun á myndefni. „Ef gefa ætti öllum notendum kost á myndefninu yrði að fjölfalda það á þrjár gerðir snældu, VHS, Beta og V 2000, þar sem ekki er hægt að nota snældu úr einu kerfi í annað. Þarf sjónvarpið því minnst eitt tæki af hverri gerð til upptöku. Slíkur búnaður mun kosta 500–700 þús. kr. Starfsmenn myndbandadeildar yrðu að annast fjölföldunina utan venjulegs vinnútíma þar eð miklar annir eru ætíð hjá deildinni. Mikil þrengsli eru í myndbandadeild nú og erfitt að koma tækjum sem til þarf fyrir þar. Þetta hefði og í för með sér mikið álag á viðhaldsverkstæði sjónvarpsins sem nú þegar á erfitt með að hafa undan með nauðsynlegt viðhald og uppsetningu á nýjum búnaði. Kannaður var möguleiki á að fela öðrum aðila að fjölfalda efni frá sjónvarpinu. Fyrirtæki sem ræður yfir búnaði til fjölföldunar í stórum stíl gat í sept. 1983 boðið fjölföldun á 100 eintökum af spólum með 60 mínútna efni fyrir 400–500 kr. á spólu ef frumeintak væri afhent þeim á myndbandi sem passaði í þeirra tæki. Til viðbótar kæmi þá kostnaður við að flytja efni sjónvarpsins yfir á myndband sem hentaði í viðkomandi tæki. Þess skal getið að fyrrgreint verð, 400–500 kr. á spólu, er fengið eftir mjög lauslegar viðræður milli sjónvarps og fjölföldunarfyrirtækisins.“

2. Um fjölföldun á hljóðsnældum. Um það er raunar ekki spurt sérstaklega heldur myndsnældur þannig að ég hygg e. t. v. ekki ástæðu til að rekja það atriði sérstaklega. En í dæmum þeim, sem getið var um kostnað, er ekki gert ráð fyrir höfundagreiðslum, eða markaðsfærslu sem mun þýða að koma snældunum á markað.

Ríkisútvarpið hefur enn ekki hafið neinar viðræður við höfunda eða samtök þeirra um samninga sem gætu gert stofnuninni kleift að framleiða í stórum stíl eða í miklum fjölda útvarps- eða sjónvarpsefni. En menntmrn. mun fyrir sitt leyti ítreka þessar óskir sínar. Það hefur áður verið gert munnlega og ég mun fyrir mitt leyti halda því áfram þar eð ég tel hér um efni að ræða sem er mjög þýðingarmikið, bæði menningarlega fyrir almenning í landinu og fyrir nýjar kynslóðir barna. Það er mikið efni og oft og tíðum ágæt listaverk sem liggja fyrir í geymslum útvarpsins með þessum hætti sem vissulega er ástæða til að láta menn fá aðgang að eftir að svo margir eiga myndbandatæki.

Benda má á það að í 2. mgr. 11. gr. frv. til útvarpslaga sem nú liggur fyrir Alþingi er ákvæði um að Ríkisútvarpinu sé heimilt, takist samningar við rétthafa efnis, að hafa til útlána eða sölu dagskrárefni sem flutt hefur verið. Þetta ákvæði var tekið upp í frv. í beinu framhaldi af samþykkt þáltill. sem hv. 5. landsk. þm. gat um.