13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

423. mál, íslenskt efni á myndsnældum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil skýra örfá atriði sem fram komu í ræðu hv. þm. um leið og ég segi að ég er efnislega sammála honum í velllestum þeim greinum sem hann nefndi. Það sem ég vil nefna er í fyrsta lagi þetta, um að senda þál. til umsagnar eins og segir í svari mínu: Það er gert til þess að koma viðræðum í gang. Það er aðferð, ein af þeim aðferðum sem hægt er að nota, til þess að ýta á það að viðræður milli rétthafanna og útvarpsins fari í gang. Þetta er skýringin á því atriði. Það er ekki verið að spyrja um hvort samþykkja eigi eða ekki. Það liggur fyrir vilji Alþingis, það er auðvitað rétt en þetta er til þess að knýja á um að málið sé framkvæmt.

Í öðru lagi vil ég geta þess að eitt af því sem valdið hefur erfiðleikum í því að koma slíkum viðræðum á er að menn hafa talið nokkra óvissu um höfundarréttinn sjálfan og höfundalagafrv. það, sem liggur fyrir Alþingi nú, skiptir einmitt miklu máli í þessu sambandi. Á þetta vil ég benda.

Að því er varðar það atriði, sem hv. þm. vék að, að ótrúlegt væri að þetta þyrfti að kosta svo mikið vil ég geta þess að ég hef einnig verið þeirrar skoðunar svo sem fram kemur í bréfi mínu til útvarpsins nú í sumar. Það er örstutt en þar kemur fram skoðun mín á þessu máli þó að það fjalli að vísu einungis um barnaefni. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið beinir hér með þeim tilmælum til yðar, herra útvarpsstjóri, að þér látið fara fram könnun á þeim möguleika að framleiða og fjölfalda hljóðbönd og myndbönd með gömlum barnatímum. Könnunin taki m. a. til hins höfundarréttarlega þáttar málsins. Böndin yrðu seld á almennum markaði til fjáröflunar fyrir Ríkisútvarpið, ef hagkvæmt þætti, þannig að ég hef von um það að þetta þyrfti ekki að vera fjárhagslegur baggi ef rétt væri að málinu staðið, en það á vitanlega eftir að koma betur í ljós.“