13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3670 í B-deild Alþingistíðinda. (3078)

424. mál, notkun sjónvarpsefnis í skólum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka tveimur síðustu fyrirspyrjendum, hv. þm. Eiði Guðnasyni og Karli Steinari Guðnasyni, fyrir að hreyfa þessum málum hér. Ég vil einnig taka undir það að það er meira en þreytandi hve oft menn verða að standa hér og ganga eftir að þær þáltill., sem Alþingi samþykkir, séu framkvæmdar. Mér finnst líka ögn óviðkunnanlegt að menn orði það svo hér, hæstv. ráðh. að hin og þessi mál séu send til umsagnar eftir að þau eru samþykkt hér. Þau eiga auðvitað að sendast til framkvæmdar og þarf ekki að fara fleiri orðum um það.

Jafnframt liggur í augum uppi að um höfundarrétt fer eftir þeim lögum sem eru í gildi á hverjum tíma. Þess vegna ætti hann í raun og veru ekki að koma í veg fyrir að aðilar, hvort sem það er sjónvarp, útvarp eða aðrir aðilar, framkvæmi það sem ráðh. skipar eftir þeim lögum. Hins vegar er hárrétt hjá hæstv. menntmrh. að verið er að endurskoða þessi mál með hliðsjón af nýrri tækni. En ég get ekki betur séð en að hann hljóti að fara að þeim lögum sem í gildi eru í landinu hverju sinni. Ef engin lög ná yfir ákveðna þætti í dreifingu verka ber að semja við viðkomandi listamann, framleiðanda eða hvern þann sem hlut kann að eiga að máli sérstaklega.

Ég stóð hins vegar aðallega upp til að leggja á það mikla áherslu að hæstv. menntmrh. gangi nú fram fyrir skjöldu og marki loksins einhverja stefnu í meðferð barnaefnis í fjölmiðlum. Það er satt að segja til háborinnar skammar hvílík hornreka það efni er í öllum fjölmiðlum landsins. Það er t. d. nágrönnum okkar Færeyingum til sóma að þegar þeir stofna sitt sjónvarp er annar af tveim meginþáttum, sem þeir leggja áherslu á, einmitt barnaefni. Ég vil mælast til þess að ríkisútvarpinu og sjónvarpinu verði beinlínis gert að sinna þessum málum betur. Til þess þarf auðvitað peninga, — við skulum aldrei gleyma því að sjónvarp og ríkisútvarp getur sáralítið gert vegna þess að þeim hafa ekki verið ætlaðir neinir peningar til þess. Þarna þarf beinlínis að marka stefnu.

Ég nenni varla að fara út í málefni Námsgagnastofnunar. Ég held að hún sé ekki aflögufær um eitt eða neitt. Við vitum öll hvernig hennar fjárhag er farið, svo að það er hálfgerð tvíhyggja að leggja henni eitthvað meira á herðar en hún hefur nú við að stríða. En ég vil ítreka þá beiðni mína til hæstv. ráðh. að menntmrn. hlutist nú til um að aukinn verði verulega vegur barnaefnis í fjölmiðlum. Ég held að það sé nokkuð sem borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Þess vegna held ég að það sé ákaflega mikilvægt að gott efni sé fjölfaldað þannig að börnin hafi það til að horfa á fremur en útþynntar glæpamyndir frá einhverjum lélegum sjónvarpsstöðvum um heim allan. Ég tel að það væri verðugt verkefni.