13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3670 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

424. mál, notkun sjónvarpsefnis í skólum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna athugasemda hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, 5. þm. Vestf. Það var á honum að skilja að þegar einhver aðili seldi Ríkisútvarpinu efni ætti Ríkisútvarpið það efni til alls konar ráðstöfunar um aldur og ævi. Þetta er bara ekki í samræmi við þá löggjöf sem gildir hér á landi og þá alþjóðasamninga um höfundarrétt sem Íslendingar eru aðilar að. Skoðun hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar breytir engu þar um. Þó að flytjandi og höfundur geri samning um flutning í útvarpi eða sjónvarpi er það eðli máls samkvæmt að það er til einnar sýningar nema um annað sé samið. Það gefur ekki Ríkisútvarpinu ótakmarkaðan rétt til útgáfu og notkunar á efni. Þetta er alþjóðleg regla og íslensk regla í þessum samskiptum. En það þarf að semja um aðra hluti.

Þessi mál hafa verið mjög erfið, flókin og torleyst en á Norðurlöndunum hefur m. a. tekist að leysa þessi mál vegna þess að það eru fleiri en höfundur og flytjendur sem eiga höfundarrétt. Hann eiga t. d. líka þeir fjölmörgu starfsmenn sem vinna að hinni tæknilegu upptöku. Þau mál hafa verið í deiglunni á Norðurlöndum lengi. Ég veit að sums staðar a. m. k. er búið að leysa þau en við skulum ekkert vera að einfalda þessi mál fyrir okkur eða slá því þannig upp að um leið og einhver maður flytur efni í útvarp eða sjónvarp eigi sjónvarpið það til ráðstöfunar með hvaða hætti sem er. Þetta er bara misskilningur og við skulum ekki vaða í villu og reyk um það. Þetta eru flókin mál en vel er hægt að semja um þau. Það hefur tekist á Norðurlöndunum og við eigum alveg eins að geta gert það hér og mjög brýnt er að það verði gert sem fyrst.