31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja hv. þingheim lengi.

Nú um helgina var svohljóðandi auglýsing lesin í útvarpi:

„Bændur. Ríkisstjórnin áformar að leggja fram frv. til l. um breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán. Þeir sem vilja notfæra sér þá heimild sem lögin kunna að veita, verði frv. samþykkt, sendi umsóknir til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands, Laugavegi 120, Rvík, fyrir 15. nóv. Umsókninni fylgi veðbókarvottorð og afrit af síðasta skattframtali þeirra sem ekki hafa þegar sent það til Stéttarsambands bænda.

Veðdeild Búnaðarbanka Íslands.“

Nú vil ég taka það fram að ég er alls ekki að efast um að lausafjárstaða bænda sé erfið. Aðrir þjóðfélagshópar hafa fengið eða munu fá hjálp vegna erfiðra kringumstæðna og bændur hljóta að eiga þar sama rétt og aðrir. Ég tek þetta fram til þess að tilgangur minn sé ljós.

En erindi mitt er hins vegar að spyrjast fyrir um framkvæmdina. Hérna tilkynnir veðdeild Búnaðarbankans í útvarpi þann ásetning ríkisstj. að leggja fram frv., og jafnvel þótt þessi ásetningur hafi komið fram áður og ýmsir vitað að þetta stæði til, þá kemur mér það svolítið spánskt fyrir sjónir. Mér finnst eiginlega einum of langt gengið að auglýsa eftir umsóknum áður en dregið hefur verið til stafs um sjálft frv.

Hérna vakna ýmsar spurningar, ekki síst þar sem nýlega eru afstaðnar umr. um þingræði, stöðu þingsins o.fl. Menn geta spurt hvort þetta sé í raun ekki bráðabirgðalagahegðunin frá í sumar. Nú situr þing að vísu, þannig að ekki er hægt að setja bráðabirgðalög, en í staðinn er hafist handa um fyrstu stig framkvæmdarinnar í þeirri vissu að lögin verði samþykkt þótt alþm. hafi ekki séð þau. Það má líka spyrja hvort þingflokkar stjórnarinnar hafi fjallað um þetta. Það má líka spyrja á grundvelli hvaða upplýsinga þessi lög verði ákveðin. Ég veit að flokkum utan stjórnar hefur alla vega ekki verið sýnt neitt um þessi mál. Kannske verða upplýsingarnar sem berast í umsóknum notaðar til að ganga frá þessu.

Ég lofaði að verða stuttorður og ég mun ekki æskja svara við þessum spurningum öllum. Mig langar einungis að fá svar við þessari spurningu: Telur hæstv. landbrh. eðlilegt að auglýst sé eftir umsóknum um lán sem eiga að byggjast á frv. sem ekki hefur verið samið, lagt fram eða rætt á hinu háa Alþingi og í ofanálag eru forsendur þess líklega svo óljósar að niðurstöður úr umsóknunum sjálfum verða notaðar til að skrifa lögin?

Það hefur verið brýnt fyrir okkur ungum þm. að virða reglur þingsins um klæðaburð, ávarpsorð og annað sem á sér fornar rætur, og það er mér sönn gleði að verða við þeirri ósk, herra forseti, en um leið óska ég þess, jakkaklæddur og bindi skrýddur, að ríkisstj. og veðdeildir bankanna umgangist Alþingi með það í huga að samkvæmt hefð sem er eldri en Kórónaföt fer Alþingi með löggjafarvaldið.