13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Svona ræðu eins og hv. 3. þm. Reykv. flutti hér áðan hefði Einar Olgeirsson getað flutt á árunum 1930–1940. Menn hættu að flytja svona ræður um það bil sem hv. þm. skaust í heiminn. Til að mynda eru lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938, sem mun vera eitthvað um líkt leyti og sá merkisatburður átti sér stað að hv. þm. leit dagsins ljós. (SvG: Sex árum fyrr, hæstv. ráðh.) Þess þá heldur, þá voru menn löngu hættir þessu.

Það er að segja um Framsfl. að hann hafði forustu um það árið 1952 að ríkisfyrirtæki gengju í samtök vinnuveitenda. Með bréfum, sem þáv. forsrh. og félmrh. Steingrímur Steinþórsson skrifaði fyrirtækjunum árið 1952, var tekin um þetta ákvörðun, að þau gengju í samtök vinnuveitenda. Þessi afstaða Framsfl. er því ekki ný. Og þegar Lúðvík Jósepsson, sem vit hefur á rekstri, sá eini í Alþb. fyrr og síðar sem hefur eitthvert vit á rekstri fyrirtækja, var sjútvrh. í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar 1956–1958 datt honum ekki í hug að hrófla við þessu fyrirkomulagi. Það er fyrst þegar menn af skóla hv. þm. Svavars Gestssonar koma að ríkisstjórn 1971 að sú krafa var gerð af hálfu Alþb. að þessu yrði breytt. Það var þá sem Framsfl. var svínbeygður — af Alþb. Þannig víkur þessu við. Og það er ekki fyrsta skiptið og hann ber örin enn.

Ég þarf ekki að rekja þessa sögu frekar. Þetta eru löngu úrelt viðhorf. Menn geta tekið hina afstöðuna, hvort það mundi vera líklegt til ávinnings fyrir verkalýðshreyfinguna að hún væri sundruð, fyrir þjóðfélagið í heild, að sundraðar Væru aðalfylkingar vinnuveitenda og launþega. Ég var launþegaforingi í 15 ár og þekki þessi mál. En hv. 3. þm. Reykv. hefur ekki verið það í 15 daga. Þess vegna þekki ég það af reynslu hvernig var að snefla upp fyrirtæki, sem utan vinnuveitendasamtakanna stóðu, eftir að heildarkjarasamningar höfðu verið gerðir. Ég þekki það stríð. En það er ekkert undarlegt þó að viðhorf þessa hv. þm. og hans kumpána, sem birst hefur hér á Alþingi og í Þjóðviljanum, sé furðulegt að þessu leyti þar sem þeir börðust um á hæl og hnakka fyrir því að Alusuisse hefði forræði á íslenskum vinnumarkaði. Það hafa þeir gert í mörgum maraþonræðum á Alþingi og í Þjóðviljanum, barist fyrir því heilagri baráttu að Alusuisse-auðhringurinn hefði áfram stórfellt forræði á íslenskum vinnumarkaði. Þetta geta menn lesið, þetta geta menn rifjað upp fyrir sér frá því fyrir skemmstu hér á hinu háa Alþingi.

En auðvitað, eins og ég segi, er það ekkert síður verkalýðshreyfingunni til góðs að hún hafi um sín mál að semja, hagsmunamál á einum stað. Það er löngu úrelt, ef menn hugsa til þess, að hægt sé að notfæra sér sundraða hreyfingu vinnuveitenda til þess að ota sínum tota eða ná fram einhverjum sérstökum smáhagsmunum í það og það skiptið. Það borgar sig ekki þegar til lengri tíma er lítið. Þess vegna er það, að þetta er ekkert annað en eðlileg framkvæmd sem löngu hafði verið komin fram undir forustu Framsfl.