13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það voru ný tíðindi í þessu máli að hæstv. iðnrh. hefði eiginlega gert þetta fyrir Framsfl. svo að hann tylldi á stefnunni sinni, sem hann hefði týnt niður um hríð. Það virtist vera kjarni málsins í ræðu hæstv. iðnrh. að þetta væri upprunaleg stefna Framsfl., hún hefði bara glatast um hríð, en síðan hefði hann tekið að sér að koma Framsfl. inn á stefnuna aftur. Ég veit þó ekki hvort hugmyndin er að hæstv. iðnrh. taki að sér forræði í Framsfl. ofan á allt annað forræði sem hann hefur.

Menn geta í rauninni einungis haft þrenns konar rök fyrir því að gera þá breytingu sem hér hefur verið ákveðið að gera af hálfu ríkisstj. Menn geta haft þau rök að ódýrara sé að Vinnuveitendasambandið geri þetta en ríkið geri það. Menn geta haft þau rök að aðrir, þ. e. Vinnuveitendasambandið, kunni betur til verka en samningamenn ríkisins. Það hefur ekki verið sýnt fram á að þetta væri ódýrara. Það getur vel verið að ríkisstj. treysti sér ekki lengur til að fara með svona samninga sjálf, hún kunni ekki nógu vel til verka. Þá væri hreinskilnislegast af ríkisstj. að játa hreint út sagt að hún treysti sér ekki til að fara með samningsumboð af þessu tagi. — Þriðji möguleikinn væri sá, að það lægi hér undir að ná auknum áhrifum innan Vinnuveitendasambandsins vegna þess að Vinnuveitendasambandið væri ekki nógu snjallt sjálft og þyrfti að fá eitthvert vitsmunalegt tillegg af hálfu ríkisvaldsins. Þetta gæti auðvitað legið að baki líka. Ef það væri tilfellið væri rétt að ráðherrar ríkisstj. upplýstu að það væru rökin sem lægju hér að baki.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hér sé rangt að farið og það hafi líka verið rangt af hálfu hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir því að ÍSAL gegni í Vinnuveitendasambandið. Það stóðu ágætir menn að því á sínum tíma, eins og t. d. ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein, að koma málum þannig fyrir að ÍSAL væri ekki hluti af Vinnuveitendasambandinu. Það var bréfað og frá því gengið og það var forsenda undir þeim samningi sem gerður var við eigendur fyrirtækisins. Síðan hafa menn vitnað í það þráfaldlega að þarna hafi komist á samningsform sem hafi gefist vel og hafi orðið til þess að jafna kjörin innan fyrirtækisins. Ég held þess vegna að það hafi verið vitlaust og rangt frá þjóðhagslegum sjónarhóli að stíga þetta spor að því er varðar ÍSAL og ég held að það hafi verið rangt af fyrirtækisins hálfu líka að sækjast eftir því og sigla þannig út á ólgusjó sem það hefur ekki þurft að berjast við hingað til. Það skyldi þó ekki vera að sami agnúi væri á aðild ríkisfyrirtækjanna að Vinnuveitendasambandinu eins og því að ÍSAL gangi í það samfélag, nefnilega að þau njóti ekki þess vinnufriðar sem þar hefur verið til þessa? Þar fyrir utan sé ég engin rök til þess að ríkið greiði hærri fjárhæðir til annarra til að fara með þessi samningamál en það hefur kostað það sjálft hingað til.