13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3681 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get huggað gamlan flokksbróður minn, hv. 7. þm. Reykv., með því að það stendur alls ekki til að hæstv. iðnrh. taki við einhverri stjórn á Framsfl. eða umsjón með honum. Hæstv. iðnrh. hefur alveg nóg með sitt, það sem hann hefur nú þegar tekið að sér, og ég vona að honum lánist að stjórna því myndarlega. Við erum einfærir með Framsfl.

Ég mun ekki beita mér fyrir því að Vinnumálasamband samvinnufélaganna gangi í VSÍ. Hvað varðar þau samtök í eigu bænda sem gengið hafa í VSÍ, þá voru þau eiginlega til þess knúin í mjög harðri og óbilgjarnri kjaradeilu að ganga þar inn. Þau áttu ekki leið inn í Vinnumálasamband samvinnufélaganna því að þau voru ekki í SÍS og því var VSÍ þrautalending. Kjarasamningar t. d. í Áburðarverksmiðjunni hafa gjarnan markast af kjarasamningum í álverinu og í kjarasamningum í ríkisverksmiðjunum yfirleitt. Menn hafa verið að miða við það sem samið hefur verið um í álverinu. Það er alveg ástæðulaust að láta auðhringinn í Sviss ráða því hver eru kjör í ríkisverksmiðjum á Íslandi. Álverið passar að ýmsu leyti mjög illa inn í okkar þjóðfélag, bæði að stærð og gerð. Launaþáttur í framleiðslukostnaði álversins er t. d. allt annar en flestra annarra fyrirtækja á Íslandi. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að una því að láta þennan auðhring marka kjaramálastefnu hér á landi.

Formaður Alþb. er töluvert ergilegur hér í ræðustólnum og hæstv. iðnrh. rifjaði upp að svona hefði Einar Olgeirsson látið fyrrum. Það er kannske von að hv. 3. þm. Reykv. sé dálítið ergilegur þessa dagana því að þó að hann hafi barist um á hæl og hnakka með flokknum sínum við að reyna að koma kjaramálunum í hnút hefur það ekki tekist nema þá að litlu leyti og hann hefur ekki haft erindi sem erfiði. Og enn tapar Alþb. samkv. skoðanakönnunum. Er þó búið að sækja hv. þm. Ólaf Ragnar út í bæ og dubba hann hér upp svo að Guðmundur J. Guðmundsson, sem ætti nú að vera 7. þm. Reykv., geti sinnt mjög brýnum félagsmálum, eins og hann orðaði það í bréfi sínu til forseta.