13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3683 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held að eftir þær umr. sem hafa orðið um þetta mál hér í dag sé meginniðurstaða mín sú, að hv. síðasti ræðumaður hefði ekki átt að minnast á það sem hann dró fram í sinni ræðu, fyrri stöðu Landssambands ísl. verslunarmanna þegar Sverrir Hermannsson kom þeim samtökum á fót og kom þeim inn í Alþýðusamband Íslands gegn vilja flokksbræðra þessa hv. þm. Það þurfti að fá þessi samtök dæmd inn í Alþýðusambandið til þess að þau fengju notið þeirra réttinda sem önnur launþegasamtök þá höfðu og hafa nú í landinu. Það var ekki eðlilegt að þau gætu náð sama árangri og önnur samtök á þeim tíma, m. a. vegna þess að flokksbræður Svavars Gestssonar og þeirra félaga stóðu gegn því að þessi fjölmennu launþegasamtök nytu þess réttar sem önnur launþegasamtök njóta í landinu. Og má ég benda hv. þm. á það, að í þau fimm ár sem hann sat í ráðherrastól og sú regla gilti að ríkisfyrirtæki og önnur opinber fyrirtæki væru utan Vinnuveitendasambandsins tókst ráðh. samt sem áður og þar á meðal þessum hv. þm. að svíkja samninga við verkalýðinn a. m. k. 15 sinnum.