13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið mikil mistök af ríkisstj. að taka þá ákvörðun að setja þessi ríkisfyrirtæki í Vinnuveitendasamband Íslands. Ég vil benda á að Alþýðusambandið hefur mjög harkalega mótmælt þessari gjörð og þau mótmæli byggjast á því að með inngöngu þessara fyrirtækja er ljóst að vægi er raskað, herkostnaður Vinnuveitendasambandsins verður greiddur af ríkinu meira og minna og verkalýðshreyfingunni gert erfitt fyrir. Það er líka spá mín að þetta muni hafa þær afleiðingar að sú sameiginlega samningsgerð, sem átt hefur sér stað í þessum verksmiðjum, muni tilheyra sögunni innan tíðar. Ég á von á því að hin einstöku verkalýðsfélög muni semja sjálfstætt hvert fyrir sig en ekki saman, það muni verða afleiðingar þessarar gerðar. Ég hef líka trú á því að þau undanþáguákvæði, sem samið hefur verið um við ríkisverksmiðjurnar varðandi verkföll og vinnustöðvanir, falli burt, beitt verði öðrum aðferðum en nokkru sinni fyrr til þess að framkalla kjarabætur fyrir launþega þá er þar vinna.

Ég lýsi furðu minni á þeim framsóknarmönnum að samþykkja þetta og tel að annaðhvort sé þetta af misskilningi gert eða aumingjaskap nema hvort tveggja sé. Enda kannske ekki furða eftir lýsingu hæstv. iðnrh. að dæma því það mátti á honum heyra að þeir framsóknarmenn væru sem örkumla menn eftir samstarfið við Alþb. í síðustu ríkisstj. Ég veit að þegar þessi ríkisstj. er farin frá, sem auðvitað verður, og næsta tekur við muni sú ríkisstj. sjá að þetta hafi verið ógæfuspor. Þessu verður breytt, hvort sem það verður með átökum eða á annan hátt.