13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Forseti vill að gefnu tilefni vegna orða hv. 3. þm. Norðurl. v. vekja athygli á því, að það hefur verið föst venja að leyfa fsp. utan dagskrár því aðeins að viðkomandi ráðh. hafi samþykkt að svara fsp. Þetta hefur verið föst venja. Nú liggur ekki fyrir samþykki ráðh. þess sem hér um ræðir. Þess vegna er nú ekki leyfð fsp. hv. 3. þm. Norðurl. v. utan dagskrár.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur lagt áherslu á að hraða því að hægt sé að ræða efnislega um þetta mál hér í þinginu. Forseti hefur ekki vald til að gefa einstökum ráðherrum fyrirmæli um að svara spurningum utan dagskrár. Hins vegar er vert að benda á það, að skv. lögum um þingsköp Alþingis, 32. gr., er gert ráð fyrir að ráðherra svari þeim spurningum sem lagðar eru fram skv. þeirri grein, formlegum spurningum.

Ef hv. 3. þm. Norðurl. v. fer að því ráði að bera fram formlega fsp. skv. 32. gr. þingskapalaga, þá mun þess gætt að hafa þá fsp. á dagskrá á næsta fyrirspurnafundi Sþ.