13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3687 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

Um þingsköp

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að átelja þá einstæðu frekju sem mér finnst koma fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds að telja það mál sem hann vildi koma hér að eitthvað frambærilegra en þau 13 mál sem eru borin fram á þinglegan hátt og liggja fyrir á dagskránni og ekki hefur verið hægt að afgreiða. Ég er t. d. búinn að bíða núna tvo fundi og ráðh. reiðubúinn til þess að svara fsp. um kafara Landhelgisgæslunnar, sem varðar kannske ekki minna máli en það sem hv. þm. vildi hreyfa, en það snertir þau skelfilegu sjóslys sem hafa dunið yfir þjóðina að undanförnu. Mér hefur ekki komið til hugar að gerast svo frekur gagnvart mínum meðþingmönnum að troða mér fram fyrir þá með þessa fsp. mína og aðrar sem eru á dagskránni. En þessi hv. þm. telur sjálfsagt að hann hafi meiri rétt til þess en aðrir. Ég leyfi mér að mótmæla því við hæstv. forseta ef sá háttur verður hafður á að taka slíkar fsp. fram yfir þær sem löglega eru fram bornar í þinginu.