13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég held að satt að segja sé alveg útilokað að líða svona vinnubrögð. Þannig er að ríkisstj. hefur lagt á það mikið kapp að fá ýmis mál afgreidd undanfarna daga. Þar inni er t. d. frv. til lánsfjárlaga sem okkur er sagt fund eftir fund í fjh.- og viðskn. Nd. að liggi lífið á að fá afgreitt. Jafnvel þó að rækilega sé farið yfir það mál er það í rauninni mjög vanbúið til afgreiðslu, en engu að síður vill stjórnarliðið keyra málið áfram af miklu offorsi. Beðið er um að það mál sé rætt og afgreitt hér á morgun. Svo kemur hæstv. viðskrh. og biður um að vísitölumál séu afgreidd hér á morgun. Verið er að ræða hér um kjördæmamál og annar stjórnarflokkurinn heldur uppi stanslausu málþófi í því máli dag eftir dag. Þrátt fyrir ábendingar frá hendi stjórnarandstöðunnar um að halda kvöldfundi hefur ekki verið orðið við þeim beiðnum til þessa. Þegar stjórnarandstaðan leggur sig þannig fram um að reyna að greiða fyrir afgreiðslu þingmála og hleypur undir bagga, þegar stjórnarþm. nenna ekki að mæta hingað í salina af einhverjum ástæðum í ýmsum atkvgr. um ýmis mál, þá er neitað að svara fsp. utan dagskrár frá einum hv. þm. Þetta er óþolandi. Ég bið hæstv. forseta að nefna mér eitt dæmi um að ráðh. hafi með þessum hætti neitað að svara fsp. frá þm. utan dagskrár frá síðustu 5 árum.

Ég tel, herra forseti, að hér sé komin upp svo alvarleg staða að útilokað sé með öllu að una við þessi vinnubrögð ríkisstj. Ég tel að þess vegna sé nauðsynlegt að þessi mál verði rædd sérstaklega. Ég vil leyfa mér að fara fram á það af hálfu þingflokks Alþb. að nú verði gert 10 mínútna hlé á þinghaldinu þannig að þingflokkarnir, a. m. k. þingflokkur Alþb., geti rætt um þessi vinnubrögð og hversu bregðast eigi við þessari framkomu af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég óska eftir því, herra forseti, að það hlé verði gefið.

Á hitt vil ég og benda að ég veit ekki til að þær stöður, sem hér er um að ræða, hafi verið samþykktar. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur ráðninganefnd ríkisins samþykkt þetta? Er hæstv. fjmrh. þannig tilbúinn til þess að ganga í það verk sem hæstv. menntmrh. hefur neitað þingheimi um að fá að ræða á þessu stigi málsins? En aðalóskin af okkar hálfu í þingflokki Alþb. er sú að nú verði gert hlé á þinghaldinu þannig að við megum bera saman bækur okkar um það hvernig eigi að bregðast við vinnubrögðum af þessum toga, sem eru, hygg ég, algerlega einsdæmi.