13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3690 í B-deild Alþingistíðinda. (3109)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég tel mig tilknúna að ræða hér um þingsköp. Hér er fjöldi fsp. á dagskrá sem hafa beðið langan tíma. Ég vil geta þess að það er mikilvægur réttur þm. sem tryggður er með lögum, en þeim eru þröngar skorður settar í sambandi við ræðutíma er þeir bera fram þinglegar fsp. Þess eru ótal dæmi úr þingsögunni að ráðh. færist undan því að svara utan dagskrár málum sem eru ekki bráðaðkallandi og ekki hafa stórfellda þýðingu. Það er vissulega verkefni þeirra sem stjórna þinginu að reyna að sjá til þess að þau mál, sem eru þinglega fram borin, hafi forgang. Það er óþolandi fyrir þm., er hlíta öllum reglum sem settar eru í þingsköpum, að sífellt sé hægt að hlaupa fram fyrir með mál sem alls ekki eru á dagskrá. Þetta setur auðvitað allt þinghaldið í hnút og það er engin ný saga að komið hafi fyrir að menn misnoti þann rétt sem er til umræðna utan dagskrár.

Við vitum það öll, sem annaðhvort erum í stjórnarandstöðu eða höfum verið í stjórnarandstöðu, að vissulega reynum við mjög að nota okkur þann tíma sem hægt er til þess að tala utan dagskrár. Oft og tíðum eru ýmsar pólitískar ástæður til þess og það skiljum við frá mannlegu, þinglegu, stjórnmálalegu sjónarmiði. (ÓRG: Er ráðh. reiðubúinn að bíða með veitingu embættisins þangað til þingið hefur rætt málið?) Ráðh. telur sig hafa rétt til að ræða um þingsköp rétt eins og hver annar þm. hefur. Það mun ég gera því að mér finnst fyllsta ástæða til þess að gera athugasemd við það hve afgreiðsla mála í þinginu fer úr skorðum, ekki vegna þess að þingið sé stjórnlaust á neinn hátt því að forsetar reyna sitt ýtrasta til þess að stjórna þinginu vel og eftir fyllstu lögum, en það er ekki hægt að segja að reglurnar séu að sama skapi notaðar á þann veg að hægt sé að hafa gott samstarf um að greiða fyrir hraðri afgreiðslu mála. Ekki er hægt að segja að allir þm. taki þátt í því með hæstv. forsetum.

Hér eru á dagskránni fsp. sem hafa verið fram bornar fyrir mörgum vikum og ekki gefist tækifæri til að svara. Ég ítreka það, herra forseti, að ég tel enga ástæðu til að svara málum sem eftir atvikum er alveg hægt að bera fram með þinglegum hætti. Ég tel enga ástæðu til að svara fsp. utan dagskrár um þetta og taka til þess eftir atvikum miklu lengri tíma en hinar þinglegu fyrirspurnir þurfa að hlíta.

Þetta sýnir okkur rétt einu sinni hver þörf er á því að endurskoða ákvæði þingskapalaga um umr. utan dagskrár. Á þessu hefur oft verið vakin athygli í mörg ár og að þessu hefur jafnan verið stefnt en það hefur ekki enn þá tekist. Það hefur hins vegar tekist í sambandi við hinar þinglegu fsp. þegar menn fara í einu og öllu að þeim reglum sem þingsköp setja um það efni. Tekist hefur að skerða og ákveða þar mjög takmarkaðan ræðutíma og það svo að oft og tíðum veldur það því að ekki er unnt að gefa viðhlítandi svör við fsp. sem þinglega eru fram bornar. Í þessu felst mikill galli á þingsköpum að þessu leyti.

Mjög mikilvægt er að þm. notfæri sér rétt sinn til þess að fylgja eftir ályktunum Alþingis eins og t. d. hefur verið gert í fjölmörgum málum hér í dag. Mikill stuðningur er að því fyrir framkvæmdavaldið að hafa slíkt eftirlit, að fá slíka aðstoð til þess að framkvæma ályktanir Alþingis því að það er fyrsta skylda framkvæmdavaldsins að framkvæma ályktanir Alþingis. Það er ekki alltaf sem það tekst en það er ómetanlegt að fá aðhald frá Alþingi í því skyni. Hinar þinglegu fsp. eru máttugasta tækið í því sambandi og ef ástæða þykir til í svari við þinglegri fsp. er reynt að fylgja málinu enn fram með þál.

Þetta eru þær aðferðir sem þingið hefur. Ég tel enga ástæðu til þess að sleppa málum lausum á þann veg að ævinlega hafi forgang einhver atriði sem mönnum dettur í hug að spyrja um þegar þau þjóna í sjálfu sér engum tilgangi til þess að varpa ljósi á mál.

Hér ætlaði hv. þm. að spyrja um mál sem fyrir lifandi löngu er búið að gera opinbert og gera grein fyrir. Það er algerlega ljóst að hér er einungis um að ræða tilraun til þess að koma í veg fyrir hagræðingaraðgerðir í ríkiskerfinu. Það er alveg ljóst að þeir sem ekki vilja hagræðingu í ríkiskerfinu reyna að spyrna fæti við eins og þeir frekast geta þegar á að taka á því að koma á greiðari vinnubrögðum og hagræðingu í sjálfum ráðuneytunum. Þykir mér eins og ég hafi oft heyrt ýmsa þm. tala um að ríkinu væri nær að byrja hjá sjálfu sér. Verið er að reyna að gera það, en þegar það er gert, sýnt fram á með faglegum vinnubrögðum hvernig eigi að gera það, bregðast þeir sem hagsmuni hafa af óbreyttu ástandi, þá bregðast kerfiskarlarnir ókvæða við.