13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3692 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

Um þingsköp

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ekki gerði ég mér grein fyrir því að við værum gengnir það langt áleiðis til annarra menningarþjóða að við værum komnir út í þá tegund af titlatogi þar sem það er orðið málsatriði hvort einhver maður er fyrrv. menntmrh. eður ei. Að vísu þarf það ekki að koma manni á óvart eftir að hafa fylgst með umr. hér á þingi í vetur, en óneitanlega hljómar þetta þó nokkuð ankannalega. Ég kem hér upp vegna þeirra orða sem fóru milli hv. 5. landsk. þm. og hæstv. forseta. Ég vildi eiginlega bara fá skýringu hjá forseta hvort ég hafi ekki skilið þingsköp á þann veg rétt, að það sem ekki er beinlínis bannað í þingsköpum hljóti að vera á valdi forseta að leyfa, og hvort það er þá endilega nauðsynlegt að tveir aðilar deili, þegar um umr. utan dagskrár er að ræða, eða hvort þm. er ekki leyft að fara upp utan dagskrár án þess að krefjast svara af ráðh. eða öðrum þm.