13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3693 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. fullyrti áðan að haldið hefði verið uppi mátþófi í stjórnarskrármálinu. Nú hafa nýlega verið birtar upplýsingar um það hvað menn hafa talað mikið hér í þinginu, hversu lengi og hversu oft, og það hlýtur að vekja menn til umhugsunar um það, hvort því megi þá slá föstu, ef ákveðnir þm. Alþb. tali yfir ákveðnum tíma, að þeir séu að halda þar uppi málþófi. Ég vil mótmæla því að haldið hafi verið uppi málþófi í stjórnarskrármálinu. Mér þætti gaman að sjá það, borið saman við ýmsa umr. sem hér hefur farið fram, hvort menn hafi þar ekki rætt málefnalega um hlutina í því sambandi, að þar er verið að breyta stjórnarskránni, sem eru grunnlög, og almennar umr. um ýmis mál. Mætti þá m. a. skoða ýmsar ræður, sem fluttar hafa verið af hv. varamanni 7. þm. Reykv., og kynna sér hvað hefði verið hægt að koma því fyrir í stuttu máli sem þar hefur verið hægt að nota til að eyða tíma Alþingis. Og er ég ekki viss nema það væri þá jafnframt fróðlegt að gera úttekt á því hversu mikill tími hjá Alþingi hefur farið í hv. 5. þm. Austurl. og hvort að það er þá hugmynd hv. 3. þm. Reykv. að það eigi að setja eitthvert kvótakerfi á hér í þinginu. Það er nefnilega óþolandi að vissir stjórnarandstöðuþm. líta svo á að þeir einir eigi að hafa málfrelsi í þinginu. Þeir eigi að tala hér daginn út og daginn inn. Aðrir þm. eigi að sitja í sínum sætum og þegja. Það er svo makalaus frekja og yfirgangur, sem birtist í svona yfirlýsingu, eins og þeirri að halda því fram að það hafi verið haldið uppi málþófi í stjórnarskrármálinu.

Hitt er svo annað mál, að við höfum margir talið eðlilegt það loforð, sem formenn stjórnmálaflokkanna gáfu á sínum tíma, að taka fyrir önnur atriði, sem snertu misjafna lífsafkomu í þessu landi, við höfum talið sjálfsagt að þessi önnur atriði kæmu hér fram á þingskjölum og þau yrðu rædd á sama tíma og hitt málið væri til umfjöllunar hjá þinginu. Er það óeðlilegt? Auðvitað er óeðlilegt að ekki skuli vera þannig að verki staðið. Það er það óeðlilega. En ég vil mótmæla þeirri árás sem mér finnst gerð að eðlilegri málsmeðferð hér í sölum þingsins, þegar menn standa upp utan dagskrár til að halda því fram að það sé verið að halda uppi málþófi um ákveðið mál, sem búið er að afgreiða til n. Það er alveg furðulegt að þetta skuli eiga sér stað. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér hvernig staðið er að breytingum í menntmrn. Mér þykir trúlegt að það mál komi inn til þingsins í skriflegri fsp. miðað við þær umr. sem hér hafa farið fram. Aftur á móti fullyrti fjmrh. að þarna hefði verið um að ræða hreiður Alþb. og þótti mér það nú satt að segja nokkuð djörf fullyrðing. Ég hefði þá gjarnan viljað fá að vita hvað hefði verið gert við eggin eða ungana í því hreiðri, því það skiptir náttúrlega nokkru máli að við þm. höfum það á hreinu að ekki sé um pólitískar ofsóknir að ræða á neinum vinnustað í þessu landi.