13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3694 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

Um þingsköp

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í þessum umr., sem eru nú farnar að fjalla um málþóf eða ekki málþóf, veit ég að mér er sæmst sem öðrum konum — eða mönnum þótti hér forðum að konum væri sæmst að þegja á safnaðarsamkundum. En ég ætla nú samt að spyrja hæstv. forseta og það tekur mjög skamman tíma: Hvernig má það bera til að þm. sem er fjarverandi, og hann er svo fjarverandi að hann hefur fjarvistarleyfi, geti borið fram fsp. utan dagskrár? Þessar umr. eru um margt nýstárlegar og ekki síst það, að ég hygg að þetta sé í fyrsta sinn í þingsögunni sem það er sagt að fram sé borin fsp. utan dagskrár frá þm. sem er alls ekki á þinginu í dag og hefur fjarvistarleyfi. Ég vildi æskja þess að hæstv. forseti svaraði því hvort upp hafi verið tekin ný þingvenja að þessu leyti.