31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á þau vinnubrögð sem um er rætt. En mér finnst ástæða til þess að spyrjast fyrir um hvort það liggi fyrir samþykki allrar ríkisstj. við þessari málsmeðferð og við þessari auglýsingu. Við höfum heyrt að hæstv. landbrh. telur ekkert við hana að athuga, en hvað með hina hæstv. ráðh.? Hvað með okkar ágæta fyrrv. forseta deildarinnar t.d., hæstv. iðnrh.? Ég hef litla trú á öðru en að honum þyki hér ærið misfarið með valdið og að honum þyki að Alþingi hafi sett niður með vinnubrögðum af þessu tagi. Ég vildi því gjarnan fá um það vitneskju og líklega getur hæstv. landbrh. svarað því: Var þessi auglýsing frá veðdeild Búnaðarbankans sett í fjölmiðla með samþykki allrar ríkisstj. eða er það einvörðungu hæstv. landbrh. sem hefur haft hér hönd í bagga?