13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefði verið sjálfsagt að verða við ósk hæstv. forseta um að hafa þessar umr. stuttar og halda sér við þingsköp, en tveir ráðh. sem talað hafa í þessum umr., hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., hafa vikið af þeirri braut og tekið til umr. efnisatriði málsins með mjög afgerandi hætti. Fyrst hæstv. menntmrh. með því að flytja ræðu um hagræðingarstefnu sína og önnur atriði í stjórnsýslu landsins, sem hafði ekkert með umr. utan dagskrár um þingsköp að gera. Síðan hæstv. fjmrh. sem gaf einstæða yfirlýsingu í þingsögunni. Hann lýsti því yfir að þessi gjörningur menntmrh. væri liður í þeirri stefnu, sem helst var á ráðh. að skilja að væri nú orðin stjórnarstefna, að hefja pólitískar ofsóknir gegn tilteknum embættismönnum í rn. landsins og hreinsa þar til, eins og hæstv. fjmrh. tilkynnti þingheimi orðrétt.

Þegar slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar, herra forseti, er erfitt að halda sér við umr. um þingsköpin ein og sér, hvað þá heldur að hemja þær umr. allar við þann hálftíma sem hér hefur verið tilgreindur. Það eru því eingöngu þeir tveir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, sem hafa fært þessa umr. svo langt út fyrir umr. um þingsköp að yfirlýsingar þeirra beggja hljóta að teljast til slíkra stórtíðinda í stefnumálum og öllum málflutningi stjórnarinnar gagnvart þinginu að full ástæða væri til að ræða þær lengi dags og jafnvel lengi nætur.

Ég vil hins vegar geta þess varðandi þingsköp, vegna þess að ég hef séð þær spurningar sem átti að bera fram til hæstv. menntmrh., að þær eru þess eðlis — og væri fróðlegt fyrir þingheim að kynna sér þær — að þeim hefði öllum mátt svara mjög skýrt og skorinort á innan við einni mínútu. Nánast allar spurningarnar krefjast eingöngu svars já eða nei. Þær eru skýrar og afdráttarlausar. Ef hæstv. menntmrh. — (Menntmrh.: Það er bara eins og á krossaprófi.) Það hefði nefnilega verið hægt með krossaprófi, hæstv. ráðh. Akkúrat. Það er alveg rétt. Ég hef séð spurningarnar og veit að ráðh. er fær um að gangast undir krossapróf þótt sumir hafi fallið á stafsetningarprófi. Ef hæstv. ráðh. hefði verið umhugað að spara tíma þingsins hefði ráðh. getað svarað þessum spurningum á hálfri mínútu eða svo, kannske í hæsta lagi einni mínútu, öllum spurningunum 5 eða 6 með jái eða neii. Það er þess vegna hæstv. menntmrh. sem ber algjörlega ábyrgð á þeim tíma sem fer í þinginu nú og næstu daga í þessa umr.

Hæstv. ráðh. hlær. En hvað er hæstv. ráðh. að gera? Við skulum fara aðeins í gegnum það. Hér hefur verið borin upp spurning frá fyrrv. menntmrh. — (Gripið fram í.) Já, það er það sem ég ætla að koma að. Í gær einnig studd af fyrrv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni. Það sýnir best þær útúrsnúningsaðferðir, sem núv. hæstv. menntmrh. telur sér nauðsyn að stunda í þessu máli, að hún kom hér upp í ræðustólinn áðan til þess að gera sér mat úr því að hv. þm. Ingvar Gíslason hefði orðið veikur síðan hann fór fram á það í gær að þetta mál yrði tekið upp. Hún varð að notfæra sér veikindi hv. þm. Ingvars Gíslasonar til þess að bera í bætifláka fyrir sig.

En málið er þess eðlis, að þeir tveir þm. hér á Alþingi, sem gegnt hafa embættum menntmrh., telja báðir, eftir því sem mér er tjáð og hefur þegar komið fram hér frá öðrum þeirra í þinginu, að hér sé á ferðinni tilraun til að brjóta lög um Stjórnarráð Íslands. Hæstv. menntmrh. er lögfræðingur og ég spyr hæstv. menntmrh. hér og nú — og það væri mjög einfalt að svara því bara með jái eða neii, þá þarf ekki að tefja tímann mikið til þess fyrst ráðh. hefur beðið um orðið: Telur ráðh. að þessi embættaveiting og auglýsing eigi sér stoð í lögum um Stjórnarráð Íslands?

Í lögum um Stjórnarráð Íslands er skýrt tekið fram að skrifstofustjóri í rn. skuli aðeins vera einn. Hér hefur ráðh. farið inn á þá braut að auglýsa þrjár stöður skrifstofustjóra. segist hér gera það í nafni hagræðingar. Þess vegna liggur ljóst fyrir að í fyrsta lagi telur hæstv. menntmrh. nauðsynlegt að fremja lögbrot til að koma á hagræðingu. Í öðru lagi treystir hæstv. ráðh. sér ekki einu orði, þrátt fyrir ítrekaðar fsp. og ummæli hér í ræðustól, til að bera það af sér að hún sé á leiðinni að fremja lögbrot.

Ég spyr hæstv. ráðh. fyrst hún hóf sjálf umr. um hagræðingu þess máls hér í ræðustól: Hvaða hagræðing felst í því að ráða þrjá skrifstofustjóra í staðinn fyrir einn? Er það eftir nýju hagræðingarlögmáli, sem Sjálfstfl. hefur uppgötvað, að nú skuli vera þrír skrifstofustjórar í menntmrn. í staðinn fyrir einn?

Fyrst við erum að ræða um núv. skrifstofustjóra rn., Árna Gunnarsson, sem er einn af virtustu embættismönnum þessa lands, er það merkileg yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. að Árni Gunnarsson tilheyri einhverju sem er „hreiður Alþb. í menntmrn.“ og nauðsynlegt sé „að hreinsa til“ með þessum hætti. Hvað hefur Árni Gunnarsson, skrifstofustjóri í menntmrn., unnið til saka til að gefa hæstv. fjmrh. tilefni til að gefa þessa yfirlýsingu hér? Vill ekki hæstv. ráðh. svara því? Öll þessi skipulagsbreyting snýst um það að setja nú tvo menn ásamt Árna Gunnarssyni til þess að gegna skrifstofustjórastörfum í menntmrn. Þess vegna hlýtur höfuðsökudólgurinn í öllu þessu hreiðurstali hæstv. fjmrh. að vera núv. skrifstofustjóri rn., Árni Gunnarsson.

Herra forseti. Í raun og veru væri hægt fyrir hæstv. menntmrh., sem virðist vera svo umhugað um að spara tíma þingsins, að gefa mjög einfalda yfirlýsingu sem ég reikna með að þingið mundi sætta sig við. Það er sú yfirlýsing að hæstv. ráðh. muni ekki ráðstafa þeim stöðum sem hér er um að ræða fyrr en Alþingi hefur fengið tíma til að fjalla um málið. Ég spyr hæstv. ráðh.: Er hæstv. ráðh. reiðubúinn til að bíða með ráðstöfun á þessum embættum þar til Alþingi hefur gefist tækifæri til að fjalla um málið? Ef ráðh. er ekki reiðubúinn til þess er það alveg ljóst að ráðh. þolir ekki umr. á Alþingi um það lögbrot sem hún ætlar að fara að fremja. Hún er að reyna að skáka í skjóli formlegrar túlkunar á þingsköpum til að koma í veg fyrir að Alþingi geti fengið að ræða um brot á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það er mjög alvarlegur hlutur því það er ekki aðeins verið að koma í veg fyrir umr. Verið er að koma í veg fyrir umr. um það hvort hæstv. ráðh. sé að fremja brot á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Ég veit ekki hvað er brýnt til umfjöllunar hér á Alþingi ef ekki slík ásökun sem ráðh. hefur ekki skotið sér undan. Mér er kunnugt um að færustu lögfræðingar landsins eru þeirrar skoðunar að hér sé um brot á lögum um Stjórnarráð Íslands að ræða. Fyrir utan það að í þessu fræga fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. var því lýst yfir sem einni af meginforsendunum að ekki skyldu myndaðar neinar nýjar stöður hjá ráðuneytum. Nú er þessi forsenda fjárlaganna allt í einu fokin út í veður og vind og talið mikið nauðsynjamál að setja tvo skrifstofustjóra til viðbótar við þennan eina. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað er með þessa forsendu í fjárlögunum um engar nýjar stöður? Getur nú allt í einu sérhver ráðh. búið til fram hjá öllum lögum og jafnvel með því að brjóta lög nýjar stöður inn í fjárlögin og inn í ríkiskerfið án þess að Alþingi hafi þar nokkuð um fjallað þótt fjárlagafrv. sjálft byggist algjörlega á öðrum grunni?

Það liggur ljóst fyrir, herra forseti, að ýmsir af færustu lögfræðingum landsins telja að hér ætli menntmrh. að fara að brjóta lög um Stjórnarráð Íslands. Í öðru lagi hefur hæstv. menntmrh. neitað Alþingi um að fá að ræða þetta væntanlega lögbrot hennar á einfaldan hátt. Hæstv. ráðh. á enn kost á því að bæta ráð sitt með því að gefa hér og nú yfirlýsingu um að hún muni ekki ráðstafa þeim stöðum sem hér er um að ræða fyrr en Alþingi hefur fengið tækifæri til að fjalla um málið. Þá er ég viss um að þingheimur væri reiðubúinn að bíða með þessa umr. þar til hún getur fengið eðlilegan farveg. Ef hæstv. menntmrh. ætlar síðan að ráðstafa þessum stöðum á næstu dögum áður en þingið hefur fengið að fjalla um málið undir þeim ásökunum, sem hér hafa komið fram rökstuddar, að um lögbrot sé að ræða er hér vissulega á ferðinni mjög alvarlegt mái. Það verður enn alvarlegra í ljósi þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf áðan, að þessi stefna hefði verið kynnt í ríkisstj. sem liður í því að hreinsa til pólitískt í rn. (Fjmrh.: Það er ekki rétt.) Það er víst rétt. Hæstv. fjmrh. var hér í hlutverki litla putta sem kjaftaði frá.

Hæstv. fjmrh. skipti ræðu sinni í tvennt. Fyrri hlutinn var ágætt dæmi um það hvernig ráðh. getur svarað spurningum á stuttan, skýran og einfaldan hátt og þannig sparað tíma þingsins. Ber að þakka hæstv. fjmrh. fyrir það. Ef hæstv. menntmrh. hefði farið að dæmi hans hvað það snertir væri þessari umr. væntanlega fyrir löngu lokið.

Í seinni kafla ræðu sinnar greindi hæstv. fjmrh. frá því að þegar þetta mál kom til umr. í ríkisstj. hefði hann samþykkt þessa ráðstöfun vegna þess að hann væri sérstaklega ánægður með að tekið væri til við að hreinsa til í menntmrn., sem hann sagði orðrétt að væri hreiður Alþb. Sagðist hæstv. fjmrh. fagna því að nú væri verið að hreinsa til í þessu hreiðri Alþb. Hann bætti síðan við að þessi ráðning á þremur skrifstofustjórum menntmrn. væri liður í þeirri stefnu fjmrh. að afsósíalísera þjóðfélagið, eins og hæstv. fjmrh. sagði hér orðrétt.

Þar með liggur ljóst fyrir að hæstv. menntmrh., hæstv. fjmrh. og ríkisstj. öll hefur tekið þá ákvörðun að starf Árna Gunnarssonar, núverandi skrifstofustjóra í menntmrn., feli í sér slík brot í starfi og slík pólitísk afskipti í þágu Alþb. af menntamálum í landinu að nauðsynlegt sé að hreinsa til í þessu hreiðri og bæta við tveimur mönnum við hliðina á honum enda þótt lög um Stjórnarráð Íslands kveði skýrt á um að það skuli bara vera einn skrifstofustjóri í viðkomandi rn. Það eru vissulega fréttir fyrir þá sem kynnst hafa embættisferli Árna Gunnarssonar að hér komi fram yfirlýsingar með þessum hætti. Ef hæstv. fjmrh. vill standa við þær yfirlýsingar sem hann hefur hér gefið ber honum að gera skýra grein fyrir því hverjir þessir einstaklingar eru sem valda því að hann telur nauðsynlegt að hreinsa til í menntmrn.

Ég vil að lokum vekja athygli á því hverjir það eru sem hafa stýrt menntmrn. á undanförnum áratugum. Gylfi Þ. Gíslason í 15 ár, síðan Magnús Torfi Ólafsson í rúm þrjú.ár, síðan Vilhjálmur Hjálmarsson í fjögur ár, síðan Ragnar Arnalds í rúmt ár og voru þá mér vitanlega mjög fáir ef nokkrir nýir embættismenn ráðnir í menntmrn. Mér er til efs að nokkrir nýir embættismenn hafi verið ráðnir inn á menntmrn. á þeim tíma. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. Síðan Vilmundur Gylfason í fáeina mánuði og síðan Ingvar Gíslason, framsóknarmaður og aðstandandi þessarar fsp. í rúm þrjú ár. En hér kemur hæstv. fjmrh. upp og segir að eftir stjórn þessara manna, sem ég hef nefnt í menntmrn., sé meginröksemd þessarar skipulagsbreytingar að hreinsa til í þessu hreiðri Alþb. Ég vil að lokum spyrja hæstv. menntmrh.: Er hún sammála þeirri yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. gaf hér áðan?