13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þetta eru harla kyndugar umr. sem hafa farið hér fram í dag og hafa sýnt að full ástæða var til að fara með þetta mál hér upp utan dagskrár. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að lög um Stjórnarráð Íslands mæli svo fyrir að í rn. skuli vera einn skrifstofustjóri, þannig að ég held að lítill vandi sé að komast að niðurstöðu um hvaða leyfi hæstv. ráðh. hefur til að gera hann allt í einu að heilu þríeyki. En það sem ég ætlaði að tala um fyrst og fremst er almennur valdhroki þessarar ríkisstj. og ráðh. hennar. Það er ekkert nýtt og það kemur mér ekkert á óvart að ráðh. skuli neita að svara einföldum fsp. Það er alveg í takt við aðra framkomu hæstv. ráðh. í garð hv. þm. Um þetta eru dæmi í nefndarstörfum þingsins í vetur. Ég hef áður gert það hér að umræðuefni og ætla að leyfa mér að gera það einu sinni enn.

Efnisatriði þessarar umr. liggja alveg ljós fyrir. Og þó er það vissulega nýmæli að fjmrh. þjóðarinnar lýsi því yfir að hann sé búinn að afgreiða aukafjárlög þrátt fyrir að hann hefur margsagt að slík fjárlög geri hann ekki. Hann hefur gert það nú til að aðstoða hæstv. menntmrh. við að brjóta stjórnarskrárlög. Maður veit þá hvað mikið er að marka það sem hann segir.

Ég ætla að víkja aðeins aftur að nefndum þingsins. Hér liggur fyrir á dagskrá í dag annað málið af tveimur sem afgreidd hafa verið frá allshn. Sþ. Það er þáltill. hv. þm. Eiðs Guðnasonar um könnun á orsökum hás verðs á raforku. Ég bíð með óþreyju eftir hvernig afgreiðslu þetta mál hlýtur hér í dag, vegna þess að það var afgreitt einróma úr n. af fulltrúum allra flokka. Sú frétt hefur hins vegar borist að hæstv. iðnrh. muni leggja til að málið verði fellt. Það er eftir öðru.

Í heilbr.- og trn. Nd. lá eitt mál fyrir fram að jólum. Það var frv. mitt um mánaðaraukningu á greiðslu á fæðingarorlofi þegar um fleirbura væri að ræða. Allir voru sammála um frv. en þau fyrirmæli komu frá m. að ekki ætti að samþykkja það því að frv. mundi koma frá hæstv. ráðh. Það er ekki komið enn. Einasta frv. sem hefur komið frá honum síðan er frv. um tóbaksvarnir og það var ekkert að finna um fæðingarorlof þar.

Í hv. allshn. Nd. hafa verið haldnir alls fimm fundir, einn frá áramótum. Þar liggur fyrir fjöldi mála. Ekkert hefur hlotið afgreiðslu. Ég fæ ekki betur séð en ríkisstj. sé ákveðin í því að hér verði engin mál afgreidd frá stjórnarandstöðu. Ég held þess vegna að þessi umr. hefði ekki átt að heita umr. um þingsköp heldur umr. um lýðræði. Það skiptir ekki lengur máli þó að fimm af sex stjórnmálaflokkum, sem eiga hér fulltrúa, skrifi upp á þingmál. Þau fá samt ekki afgreiðstu vegna þess að einhverjum af hæstv. ráðh. þóknast ekki —eins og það hefur hvað eftir annað verið orðað í einkaviðræðum — að þm. séu að fá rós í hnappagötin fyrir slík mál. Hvernig á nokkur þm. að sætta sig við þetta? Ég vil lýsa því yfir hér og nú að verði ekki gjörbreyting á þessum vinnubrögðum Alþingis mun ég ekki sitja hér dag eftir dag — og hvern einasta dag — á meðan stjórnarliðar eru fjarverandi og hjálpa til að koma málum stjórnarinnar í gegn. Ég mun láta af því háttalagi. Ég skulda þessari ríkisstj. ekki neitt miðað við þá afgreiðslu sem mál stjórnarandstöðunnar hafa fengið.