13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. gat ekki verið viðstaddur þessa umr. og bað mig um að hlaupa í sitt skarð.

Á Alþingi fór fyrir skemmstu fram umr. um þessi mál, þegar hæstv. samgrh. svaraði fsp. frá málshefjandi, hv. 3. þm. Suðurl., um sleppibúnað björgunarbáta. Samgrh. bað mig að lýsa því yfir fyrir sína hönd að hann ítrekaði þau ummæli sem hann viðhafði þá um að hann mundi beita sér fyrir því að hraðað yrði framkvæmdum að þessu leyti og í því skyni að gera þessi öryggistæki sem fullkomnust úr garði.

Á þessari stundu get ég ekki annað en haft fyrirvara á um ásakanir í garð Siglingamálastofnunar í þessu skyni, án þess þó að ég sé í neinum færum um að tefla fram rökum gegn þeim, en hlýt þó í fyrirsvari fyrir ríkisstj. í þessu falli að hafa sterkan fyrirvara á um svo harkalegar ásakanir. Við megum ekki láta það heldur trufla okkur í því mikla nauðsynjaverki sem við verðum að vinna, og til viðbótar því að lýsa yfir eindregnum vilja hæstv. samgrh. að styðja með ráðum og dáð og fullri einurð og hörku við hraðar framkvæmdir í þessu skyni, þá leyfi ég mér að lýsa því yfir að ríkisstj. mun öll styrkja hann til þeirra góðu verka og nauðsynlegu.