13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil taka það fram hér að ég kenni ekki Siglingamálastofnun um slys. Ég get deilt á Siglingamálastofnun fyrir verkstýringu í ákveðnum málum, en að sjálfsögðu eru þau mun fleiri málin sem Siglingamálastofnun hefur unnið vel. En það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gagnrýna og eigi ekki að gagnrýna hana.

Ég ætla ekki að fjalla mjög nákvæmlega um slíka þætti, en ég vil minna á eitt atriði sem var ótrúlega lengi að velkjast í kerfinu. Það var tæki sem einnig Sigmund Jóhannsson fann upp, öryggisloki á spil. Slys, dauðaslys, slys með örkuml, lífstíðarörkuml, voru mjög tíð í spilum skipa þar til þessi öryggisloki Sigmunds kom til sögunnar. En það tók 9 ár að fá hann löggiltan og þó var þetta lítið tæki og kostaði lítið. En síðan hann var löggiltur hefur þessum slysum fækkað úr að meðaltali 25 á ári niður í 2–3 og þá yfirleitt smærri slys. Það er á þessum nótum sem ég gagnrýni Siglingamálastofnun að taka ekki af skarið. Auðvitað er endalaust hægt að endurskoða og endurnýja björgunarbúnað sem önnur tæki er varða mannslíf. En það verður að taka af skarið og hvert það tækifæri, sem gefst til þess að ná árangri, á að nýta. Það hefur þessi búnaður boðað og það hafa talsmenn sjóslysanefndar og annarra aðila tekið undir frá upphafi, en samt eru liðin þrjú ár. Þess vegna er ástæða til að hafa nokkuð hörð orð svo þau verði ekki sex í viðbót a. m. k.

Ég vil einnig benda á að þessi búnaður sem hér um ræðir er nú til athugunar hjá erlendum aðilum og til stendur að hefja framleiðslu á honum í Noregi. Ég vil einnig taka það fram að við erum ekki aftastir manna í röðinni við þróun tækjabúnaðar. Nú stendur yfir undirbúningur í Danmörku hjá hinum þekktu björgunartækjaverksmiðjum Viking að framleiða nýtt tæki sem Sigmund Jóhannsson hefur hannað, svokallaðan Sigmundsrana sem varð til í kjölfarið á Fjallfossslysinu við Cornwall á Englandi. Þar á að gjörbreytast aðstaða manna á borðháum skipum til að komast frá borði.

Þannig er að mörgu að hyggja og við eigum að vera í fararbroddi í þessum málum. Það er mjög mismunandi eftir byggðarlögum hér á landi, því miður, en allmargir eru vel á verði og þetta er mál þar sem við eigum aldrei að sofna á verðinum.

Spurt var hvers vegna ekki væri kominn búnaður á þrjú skip af nær 80 skipa flota Eyjamanna. Ástæðan er einfaldlega sú að þar er um að ræða skip sem eru nýlega komin til Eyja úr verstöðvum sem hafa ekki tekið þetta sömu tökum vegna þess að ekki er fylgt eftir reglugerð um framkvæmd málsins. Það er þar sem ég gagnrýni Siglingamálastofnun. Búið var að smíða tækið á þennan bát, Hellisey, en það var því miður ekki komið um borð í skipið.

Einnig má vekja athygli á því að á þremur árum frá því að þessi búnaður er tilbúinn er hann kominn í 130 skip landsmanna. Ég hef deilt á tortryggni í málinu og vék þar einnig að Siglingamálastofnun. Ég á þar m. a. við það að í kjölfarið á framleiðslu Sigmundsbúnaðar var hafin framleiðsla á tæki sem var nær spegilmynd af tæki sigmundar, nema að notaður var gormur í staðinn fyrir loftþrýstibelg. Það getur verið álitamál og mál tæknimanna að meta þarna og velja en eini búnaðurinn á landinu sem hefur sjálfvirkan losunarbúnað, sem ég lagði megináherslu á í mínu máli, það er Sigmundsbúnaðurinn. Enginn annar búnaður hefur þann möguleika. Enginn annar búnaður getur komið til sögunnar ef mannshöndin kemst hvergi nærri. Það er þar sem ástæða er til að taka til hendinni.

Ég vil taka undir hugmynd hv. 3. þm. Reykv. um skipun nefndar alþm. til að fjalla um þetta mál, það er verðugt verkefni. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir jákvæðar undirtektir varðandi mikilvægi mátsins, þá brýnu nauðsyn sem ber til að flýta uppsetningu sleppibúnaðar björgunarbáta og tryggja að fullkomnasta tækið verið valið.