13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Suðurl. fyrir þá leiðréttingu sem hann gerði á orðum sínum úr fyrri ræðu sinni og snertu Siglingamálastofnunina. Ég sé ástæðu til að þakka fyrir þessar umræður. Þær eru mikilsverðar og mikilvægar þótt tilefnið sé sorglegt.

Það er ástæða til að menn leggi við hlustir þegar maður eins og hv. 12. þm. Reykv. ræðir þessi mál og ég vona að framkvæmdavaldið láti ekki deigan síga. Ég mun einnegin taka og skila óformlegri tillögu hv. 3. þm. Reykv. um þetta mál til samgrh. Mér líst vel á hugmyndina, að við látum ekki við þessa umr. sitja heldur að þm. ræði þetta áfram og leggi sitt af mörkum ásamt því sem framkvæmdavaldið er tilbúið að gera.