13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3710 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Nauðsyn þess að hagstjórnartæki á borð við afurðalánakerfi atvinnuveganna sé í stöðugri endurskoðun í því skyni að aðlaga það breyttum aðstæðum, bæði innan atvinnuveganna sjálfra og markaðarins, er augljós. Þess vegna fagna ég þessari till. til þál.

Fskj. með þessari till. er athugun á rekstrarforsendum og áhrifum verðbólgu á afkomu vinnslustöðva landbúnaðarins, framkvæmd af Þorvaldi Búasyni. Þetta fskj. hefur orðið til þess að beina umr. um þáltill. mjög að landbúnaðinum og vinnslu- og dreifikerfi hans og er gott eitt um það að segja. Þó er ekki loku fyrir það skotið að ýmsar athugasemdir megi gera í sjávarútvegi. Það hefur sjálfsagt ekki verið hugmynd þeirra, sem komu á fót því afurðalánakerfi sem umfram annað hefur styrkt og stutt byggð um dreifðar sveitir, að þar með væru þeir að grundvalla þúsund ára ríki. Þó verður því vart á móti mælt að til eru þeir innan raða hv. alþm. og annars staðar sem virðast þeirrar skoðunar. Sértrúarsöfnuðir með hugmyndir 50 ára gamalla afurðasölulaga að guðspjalli hljóti að vera af hinu vonda eða a. m. k. ekki líklegir til framfara. Ekki endilega vegna þess að gömul lög séu vond lög, heldur vegna þess að sértæk lög verða sjaldnast klassísk, a. m. k. ekki vegna notagildis þeirra. Nú hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á þessum lögum í tímans rás en greinilega verður að gera betur.

Því hefur stundum verið haldið fram að hérlendis sé stunduð svokölluð landbúnaðarrómantík sem hafi það eitt markmið að viðhalda byggðinni í landinu óbreyttri. Þetta er augljóslega rangt og nægir að benda á að hlutfallslega fara sennilega engu færri jarðir árlega úr ábúðinni en fyrr. Það má a. m. k. fullyrða að ef markmið hinnar svokölluðu landbúnaðarrómantíkur er að viðhalda óbreyttri byggð er sú stefna vitlaus vegna þess að hún nær ekki yfirlýstum tilgangi sínum.

Þá er og á það að benda að búmark, verðjöfnun og meðaltalsrekstrargrundvallarræfill eru ekki vopn af því tagi sem líkleg eru til að rétta hlut harðbýlissveita, jaðarbyggða og frumbýlinga.

Herra forseti. Að mínu mati er sá trúnaðarbrestur, sem orðinn er á milli framleiðenda í sveitum og neytenda í þéttbýli, langalvarlegasti þáttur þessa máls. Þennan trúnaðarbrest má m. a. rekja til neikvæðs áróðurs og blaðaskrifa sem þó oftast beinast réttilega að öðrum aðilum þessa kerfis en bændum sjálfum. Þó held ég að meginorsökin liggi í því að kerfið allt virðist bændum jafn framandlegt og neytendum, alls kyns uppbætur og verðtilfærslur, flókið millifærslukerfi og reikningskúnstir sem gera bændum gersamlega ómögulegt að átta sig á afkomu sinni og tilverurétti og neytendum ókleift að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að borga fyrir.

Reynslan sýnir að bændur eru fljótir að tileinka sér hagkvæmar tækninýjungar og forsendur framfara í landbúnaði ættu að vera góðar. Einmitt þess vegna verður landbúnaðarpólitíkin áhyggjuefni. Stefnan virðist sú að óbreyttur fjöldi framleiðenda framleiði minna magn en áður. Afleiðingar slíkrar stefnu hljóta að vera augljósar. Það er fullyrt og því hefur ekki verið mótmælt að búmarkið muni annaðhvort leiða til versnandi lífskjara í sveitum eða mun hærra verðs á landbúnaðarafurðum. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Um það er rætt og töluverður áróður fyrir því rekinn að aukabúgreinar svokallaðar muni í framtíðinni renna nýjum stoðum undir tilveru okkar sem búum utan þéttbýlissvæða. Þetta kann að vera rétt, en þó er augljóst mál að gera verður betur. Ég er þeirrar skoðunar að sértrúarsöfnuðir í landbúnaðarmálum, hver sem guðspjöll þeirra annars eru, eigi að efna til sameiginlegra bænastunda til samstöðu, landi og þjóð til heilla.

Herra forseti. Það verður t. d. ekki séð að verðákvarðanir 6 manna nefndar séu neinar óhófsákvarðanir, a. m. k. ekki þegar bændur eru annars vegar. Hins vegar læðist óneitanlega að manni sá grunur að kerfið feli í sér afkomutryggingu fyrir vinnslustöðvarnar. En það verður ekki á það fallist að það sé tilgangurinn, hvorki með verðákvörðunarfyrirkomulaginu né afurðalánakerfinu, a. m. k. ekki hugmynd þeirra manna sem fyrst komu þessu kerfi á fót til hagsbóta fyrir bændur. Talsmenn bænda hafa verið ódeigir að svara þeirri gagnrýni sem beint hefur verið að landbúnaðinum og sölukerfi hans. Það hlýtur þó að teljast mikilvægt — og þess vegna styð ég þessa tillögu — að aðrir fái einnig að svara hér um en þeir sem mestra hagsmuna eiga að gæta.