13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

203. mál, úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það standa nú ekki efni til þess af minni hálfu að lengja þessa umræðu miklu fremur en orðið er. Þess verður reyndar vart nú sem svo oft áður þegar farið er að tala um landbúnaðarmál, og þá ekki síst þegar farið er að ræða viðskiptahlið þeirra mála, að mönnum hættir við að blanda saman bændastéttinni, kaupfélögunum og Framsfl. Þetta ættu menn að tileinka sér að ræða ekki allt í sama orðinu, og þá með fullri virðingu fyrir öllum þessum aðilum, því að það eru ekki nein sérstök tengsl þarna á milli.

Hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson sagði áðan að sú till. sem hér væri fjallað um væri sama efnis og till. hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar sem hann hefur flutt og reyndar fengið samþykkta hér á Alþingi. Svo er ekki. Sú tillögugerð fjallaði um að afurðalánin væru borguð beint til bændanna sjálfra inn á þeirra eigin reikninga, en gengju ekki í gegnum sölukerfið. Hér er hins vegar verið að tala um athugun á því hver rás þess fjármagns er sem bundin er í afurðalánakerfinu.

Það ber sannarlega að athuga og undirstrika að hér eiga ýmsir aðilar hlut að fleiri en einungis þeir sem skipta með framleiðsluvörur bændanna. Hér eiga líka þeir aðilar hlut að máli sem skipta við bændur með rekstrarvörurnar. Það er t. d. athyglisvert að líta á hvernig viðskipti Áburðarverksmiðjunnar hafa gengið til gagnvart landbúnaðinum og gagnvart bændunum í þessu landi — þeirrar verksmiðju sem var gefin Íslendingum af Marshall-fé, þeirrar verksmiðju sem var verið að endurbæta og jók fjölbreytni í framleiðslu á síðustu árum og átti þá ekki eina einustu krónu af eigin aflafé til að leggja til þeirra framkvæmda. Það væri fróðlegt að athuga hvernig peningarásin er í áburðarverðinu og er reyndar orðið fullkomið rannsóknarefni að athuga verðlagningu á áburði til landbúnaðarins.

Í þessu sambandi má benda á að Áburðarverksmiðjan hefur lánað bændunum áburð að hluta til og í tiltekinn tíma. Og hvað hefur það lán í rauninni þýtt? Lánið hefur verið fjármagnað með erlendri lántöku, gengisáhættu og háum vaxtagreiðslum því auðvitað hefur það komið fram í áburðarverðinu. Hvar skyldi það annars vera að finna? Og þrátt fyrir að Áburðarverksmiðjan hafi verið með þessa lánafyrirgreiðslu í erlendri mynt hafa bændur eftir sem áður staðgreitt sinn áburð þegar þeir hafa tekið hann hjá viðkomandi verslunum. Hvar hafa þá verið rekstrarlánin sem hafa gengið til söluaðila til að fjármagna með viðskiptin við Áburðaverksmiðju ríkisins? Það er sannarlega ekki óeðlilegt að á þetta sé litið. Það er einkennileg bændaást sem er við það bundin að taka í forsvar viðskiptahætti sem þessa.

Þórarinn Sigurjónsson sagði m. a. áðan að í þessum tillöguflutningi fælist árás á bændurna. Ég veit ekki með hvaða hætti er hægt að draga þær ályktanir af þessum tillöguflutningi að hægt sé að setja fram slíkar fullyrðingar. Það er að sjálfsögðu megintilgangurinn með þessum tillöguflutningi að í ljós komi með hverjum hætti og hvort þetta fjármagn nýtist þeim sem eru í framleiðslunni. Og ef sú hugsun er af þeim toga að það sé árás á bændurna í landinu, þá fer ég satt að segja að eiga erfitt með að skilja með hvaða hætti eigi að leggja bændastéttinni lið.

Það má vel vera að skilja ætti hér frá og taka bændurna út úr þessari umr., framleiðendurna sjálfa, og í rauninni held ég að það sé eini kosturinn og besti kosturinn og gera það með þeirri einföldu ákvörðun að borga þeim út afurðirnar þegar þær koma á markað, láta þá njóta sömu mannréttinda og viðskipta og allar aðrar stéttir, allir aðrir þegnar í þessu þjóðfélagi njóta. Þá gætum við út af fyrir sig sleppt tillöguflutningi af þessum toga að því er varðar framleiðendurna sjálfa.

Hvernig skyldi annars vera með þá viðskiptastöðu sem bændurnir hafa í þessu landi? Það er komið svo, að hlutur bóndans sjálfs nemur á þessu hausti 27% af heildsöluverðinu. Hitt þarf að greiða í vinnslukostnað, í sölukostnað og fyrir aðföng í búrekstrinum. 27 kr. af hverjum 100 kr. af heildsöluverðinu eiga að falla í hlut bóndans og þó raunar ekki það því að frá dregst sú upphæð sem er mörkuð sem launagjald á bændurna. Þar á ég við búnaðarmálasjóðsgjald, bjargráðasjóðsgjald, stofnlánadeildargjald og lífeyrissjóðsgjald, svo að dæmi séu nefnd. Þessi gjöld nema um 3% af grundvallarverði, sem gerir meira en 2% af heildsöluverði. Þá er farið að koma að því að tala um skítaverð, sem er fjórða hver króna sem greidd er af heildsöluverðinu því það fé sem í markaða tekjustofna fer er dregið frá áður en nokkurri einustu krónu er skilað bændunum. Þá er eftir fjórða hver króna af heildsöluverðinu og tæplega það.

Svo geta menn haldið áfram að reikna og sjá hvernig hlutirnir þróast þegar ákveðnum hundraðshluta er haldið eftir af útborgun. Menn geta rétt látið sér detta til hugar hvernig það hefur snert bændurna í þessu landi þegar þeir fengu þær fréttir í desembermánuði s. l. að sláturleyfishafar gætu ekki skilað öllu því fjármagni sem landbúnaðinum bar, ekki fyrir innleggið frá því í haust, heldur fyrir innleggið á árinu 1982! Það er ekki allt saman komið enn og sumt af því kemur aldrei til skila til bændanna. Það sér hver maður að svona lagað gengur ekki, ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum.

Það er alveg óhagganleg staðreynd, það liggja fyrir um það útreikningar, að dreifingar- og sölukostnaður er núna jafnhár í heildsöluverðinu og allar launagreiðslur til sveitafólks á Íslandi. En það dugir samt ekki til að menn fái þennan smánarhluta af verðinu. Er nokkur furða þó að menn vilji líta eitthvað í kringum sig í sambandi við þessi mál?

Ég á ekki von á að ég og hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson séum ósammála í þessum efnum. Þetta er ástand sem með engum hætti er hægt að þola. Það er ekki til nema eitt svar við þessu og það er að bændur fái borgað út þegar þeir koma með vörur sínar til innleggs. Til þess að það sé hægt þarf að sjálfsögðu að stýra afurðalánafénu, niðurgreiðslufénu og útflutningsbótafénu. Öðruvísi næst þetta ekki fram. Menn geta orðað það með hvaða hætti sem þeir vilja fyrir mér, hvort sem þeir kalla það árás á íslenska bændur eða eitthvað annað, hvort sem það er hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson eða einhver annar, þegar ég segi að þetta kerfi þolum við ekki lengur. Það verður að gera upp við bændurna í þessu landi með sama hætti og við aðra þá sem taka fé fyrir vinnu sína. Annað er óþolandi og við verðum að rekja hverja þá leið sem fær er til að ná því markmiði. Þessi till. er innlegg í þá umr. og m. a. af þeirri ástæðu er hún flutt.