14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. viðskrh. gat um hefur mál þetta þegar fengið meðferð í hv. Ed. Minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. flutti brtt. á sérstöku, þskj., en minni hl. skipuðu fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna. Þar var m. a. gert ráð fyrir því að neyslukönnun færi fram á þriggja ára fresti en ekki á fimm ára fresti eins og gert er ráð fyrir í frv. enda væri eðlilegt að hafa þennan tíma sem stystan. Ég teldi nú reyndar að með nútímatækni ætti að vera hægt að hafa þessar neyslukannanir árlega eða á tveggja ára fresti. Ég hef aldrei áttað mig á því hvernig á því stendur að ekki er hægt að framkvæma neyslukannanir oftar en hér er gert ráð fyrir. Þess vegna var það sem minni hl. í Ed. flutti þessa till. en meiri hl. treysti sér ekki til að fallast á hana, því miður.

Í annan stað var gert ráð fyrir því í brtt. minni hl. í Ed. að neyslukönnunum yrði hagað með alveg ákveðnum hætti, þ. e. þar væri ekki bara um að ræða könnun á meðaltalsneyslu fólks heldur væri líka kannað hvernig neyslu er hagað hjá því fólki sem er með lægstar tekjur á hverjum tíma, vegna þess að við vitum að það er mjög mismunandi hátt hlutfall launa sem menn t. d. nota til matvælainnkaupa eftir því hvort launin eru há eða lág. Þess vegna flutti minni hl. í Ed. tillögu þar sem gert var ráð fyrir þessu, með leyfi forseta:

„Kauplagsnefnd skal haga gerð neyslukannana á þann veg að sundurgreina megi þannig að marktækt sé hvernig meðalneyslu þess fjórðungs landsmanna, sem lægstar tekjurnar hefur, er háttað hverju sinni. Kauplagsnefnd skal gera ríkisstj. grein fyrir niðurstöðunum.“

Þessar hugmyndir hlutu ekki náð fyrir augum meiri hl. og því er frv. komið hingað óbreytt til hv. Nd. Ég á sæti í þeirri n. sem fjalla mun um málið og mun ég þar gera nánari grein fyrir minni afstöðu.

Þetta frv. er flutt við nokkuð sérkennilegar kringumstæður. Vísitala er bönnuð á Íslandi, þ. e. kaupgjaldsvísitala. Það er ekki einasta að bannað sé að greiða vísitölu á kaup, verðbætur á kaup, en það er stranglega bannað skv. 1. gr. laga sem samþykkt voru á Alþingi 5. des. 1983. En það er líka bannað á Íslandi — og ég hygg einu landa í Vestur-Evrópu a. m. k. — að reikna út ákveðna staðreynd, sem sagt útreikningur er óheimill á ákveðnum staðreyndum. Hagstofuráðherra núv. ríkisstj. hefur sem sagt staðið að því að banna að ákveðin vísitala sé reiknuð út. Ég hygg að núv. hæstv. Hagstofuráðh. sé frumkvöðull í þessu efni og fyrsti ráðh. í sögunni sem bannar í lögum að reikna út vísitölu. Hvaða vísitala er það? Það er kaupgjaldsvísitala. Það er bannað að reikna hana út. Látum vera þó að menn láti sér koma til hugar að banna að borga eftir henni, um það má ræða mikið við núverandi aðstæður. En útreikningurinn er líka bannaður, því að í þessum lögum um launamál stendur með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði 8. kafla laga nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o. fl., um verðbætur á laun“ — það eru Ólafslög — „skulu ekki gilda á tímabilinu frá og með 1. júní 1983 til og með 31. maí 1985.“ — Þessi ákvæði gilda ekki, ekki má greiða verðbætur eftir þessum lögum fram á árið 1985. Síðan segir:

„Sama máli gegnir um ákvæði í kjarasamningum um greiðslu verðbóta á laun á þessu tímabili.“ — Þetta er ljóst. Síðan kemur þetta einstaka brautryðjandaákvæði hæstv. núv. Hagstofuráðh.:

„Verðbótavísitala skv. 48. gr. — 52. gr. laga nr. 13/1979 skal eigi reiknuð fyrir greiðslutímabil frá og með 1. júní til og með 31. maí 1985.“

Nú hefur það ekki komið fram hjá hæstv. ráðh. né öðrum talsmönnum ríkisstj. hvernig þeir muni refsa þeim mönnum sem hugsanlega brjóta þetta lagaákvæði og reikna vísitöluna þó að það sé bannað í lögum. Væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. viðskrh. hugsar sé það í framkvæmd að ef einhver maður slysaðist til að reikna kaupgjaldsvísitöluna, birta hana opinberlega, hvaða refsingum hann yrði hugsanlega beittur, sá lögbrjótur, hvernig hann yrði sóttur til saka fyrir það athæfi að vera að láta reikna út hlutina.

Við þessar aðstæður að bannað er að greiða og reikna út kaupgjaldsvísitölu er hér flutt frv. til l. um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan Kauplagsnefndar. Þetta frv. er í rauninni mjög á skjön við þann veruleika sem við stöndum núna frammi fyrir í þessum efnum. Bannað er að reikna út kaupgjald með tilliti til þessa frv. og bannað er að miða verðbætur við hreyfingar í vísitölu framfærslukostnaðar, líka þessari nýju vísitölu sem menn vilja fara að lögleiða núna.

Af hverju er það þá sem menn vilja lögleiða nýja vísitölu? Einu rökin í málinu eru þau að vísitalan hafi áhrif á lánskjaravísitölu og þess vegna þurfi að reikna þetta út. Það eru út af fyrir sig alveg gild rök að framfærsluvísitalan hefur áhrif á lánskjaravísitöluna. Nýja framfærsluvísitalan hækkar lánskjaravísitöluna minna en sú gamla þegar um er að ræða hækkanir vegna breytinga á búvöruverði. Þannig séð er þessi vísitala hagstæðari miðað við lánskjaravísitöluna en sú gamla.

En þarna gat viðskrh. af örlæti sínu og réttsýni farið aðra leið. Hann gat gefið út reglugerð um lánskjaravísitöluna. Lánskjaravísitalan er ákveðin með bréfi og reglugerð, sem viðskrh. gefur út vorið 1979, þar sem ákveðið er með hvaða hætti lánskjaravísitalan er reiknuð út með hliðsjón af framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu annars vegar 6 mánuði aftur í tímann og hins vegar þrjá mánuði skv. spá fram í tímann. Viðskrh. gat vel breytt þessu atriði með lánskjaravísitöluna með einföldum hætti og án þess að flytja um það sérstakt frv. á Alþingi. En viðskrh. hefur kosið þessa leið, að koma hér fram nýju frv. til l. um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan Kauplagsnefndar. Ég held því m. ö. o. fram að það hefði verið í valdi hæstv. viðskrh. sem einnig fer með Hagstofuna að koma til móts við þessa gildu röksemd varðandi lánskjaravísitöluna.

Ég tel þetta því í rauninni óþarfa frá þessum bæjardyrum séð. En þá kemur ein röksemd enn, sem einnig er vert að hlýða á. Hún er þessi: Þessi vísitala framfærslukostnaðar mælir réttar en sú gamla. — Hvað mælir hún réttar er gamla vísitalan? Hún mælir réttar meðaltalsneyslu fólks eins og hún var á árinu 1979. Það stemmir áreiðanlega enn þá að hún er nær veruleikanum en sú gamla, þ. e. þeim veruleika sem blasir við meðaltalsfjölskyldunni í landinu.

Hins vegar er það alveg augljóst mál að lágtekjufjölskylda eyðir mun stærri hlut launa sinna í matvörur, þar með taldar búvörur, en meðaltalsfjölskyldan. Þess vegna væri í raun og veru mjög æskilegt að fá annan verðmæli sem væri kostnaðarhreyfingin gagnvart fyrirtækinu láglaunafjölskylda hér á landi.

Nú býst ég við því að viðskrh. geti án lagaákvæða ákveðið að slík könnun fari fram á tekjum og neyslusamsetningu láglaunafólks. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því, þó að lagafyrirmæli skorti í þeim efnum, að sérstök könnun fari fram á því hvernig háttað er neyslusamsetningu þess fjórðungs fjölskyldna í landinu sem hefur lægstar tekjurnar?

Ég endurtek að ég tel að viðskrh. geti gert þetta án lagabreytinga og ég vil spyrja hann að því hvort hann er reiðubúinn til þess, í samráði við Kauplagsnefnd svo sem skylt er, að beita sér fyrir því að slík könnun fari fram. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. svari þessari spurningu áður en málið fer til 2. umr.

Komið hefur fram að ég hef verið þeirrar skoðunar, hef ég látið það koma fram hér á hv. Alþingi úr þessum ræðustól, að í rauninni væri ekki verulegur ávinningur að því fyrir láglaunafjölskyldurnar í landinu að vera eingöngu með svona meðaltalsvísitölu í gangi. Ég hef þess vegna sett viss spurningarmerki við þessa nýju vísitölu og við þennan nýja vísitölugrundvöll og ég geri það enn. Ég vil að það komi skýrt fram.

Ég vil jafnframt láta það koma fram að með tilliti til þess, að m. a. verkalýðssamtökin í landinu hafa lýst því yfir að þau hafi ekkert við það að athuga að þessi vísitala komi í framkvæmd eins og sakir standa, mun ég ekki fyrir mitt leyti, frekar en Alþb.-menn í Ed., gera neitt sem gæti tafið að þetta mál næði fram að ganga og næði gildistöku eins og hæstv. ráðh. hefur óskað eftir. En ég óska eftir því engu að síður að hann svari þessari spurningu minni: Er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því að fram fari sérstök neyslukönnun hjá láglaunafjölskyldunum í landinu hið allra fyrsta? Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég hef enga trú á því að sú viðbára minna ágætu vina, forráðamanna Hagstofunnar, sé rétt að ekki sé hægt að framkvæma neyslukönnun nema á margra ára fresti. Vélabúnaður er allur orðinn þannig og tæknilegir möguleikar að hægt á að vera að framkvæma þetta miklu oftar en gert hefur verið.

En ég endurtek það, herra forseti, að afstaða okkar er sú að við munum eftir atvikum taka þátt í því að málið fái framgang eins og hæstv. ráðh. hefur óskað eftir, í samræmi við það sem Alþb.-menn beittu sér fyrir í Ed. En ég óska eftir því að hæstv. ráðh. svari engu að síður þessari spurningu minni nú áður en málið fer til 2. umr.