14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3736 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram sá skilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. að ráðh. hefði tekið vel í það að framkvæmd yrði neyslukönnun láglaunafólks í landinu. Það sem ég þarf fyrst og fremst að fá á hreint í þessu sambandi er það hvort fólkið utan höfuðborgarsvæðisins telst til landsins. Því að teljist það til landsins, þá liggur náttúrlega ljóst fyrir að slík könnun er ófullnægjandi. Það þarf náttúrlega að endurskoða þetta.

Ég mótmæli þeim skilningi að Kauplagsnefnd eigi að ráða því, hvernig staðið er að svona könnun. Ég mótmæli þeim skilningi. Ég rakst einhvers staðar á það að kostnaður við þessa könnun væri tilgreindur. Ég hef grun um að hann sé greiddur af íslenska ríkinu. Hverjir skyldu þá fremur en alþm. eiga að segja fyrir um það, hvernig að þessu sé staðið? Á það að vera einhver nefnd úti í bæ sem á að ráðskast með það? Það er fráleitt.

Ég vil aftur á móti geta þess, að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með hverri till. sem fram kemur í þinginu á þann veg að ég telji að tekið verði tillit til stærri landsvæða en gert hefur verið fyrr í neyslukönnun. En ég er andvígur því að blanda þessu of mikið saman. Ég vil að framkvæmd verði sérstök neyslukönnun fyrir þau svæði sem eru utan höfuðborgarsvæðisins. Og hvers vegna? Vegna þess að það hefur jafnt og þétt sigið á ógæfuhliðina með verslunarkjör þeirra sem búa utan þessa svæðis, m. a. verslunarkjör á innlendri orku, sem Landsvirkjun skammtar beint og óbeint. Einnig er vitað að með stórmörkuðum eins og Hagkaupum, Miklagarði og fleiri stórmörkuðum hefur náðst athyglisverður árangur í því að ná niður almennu vöruverði. Það hlýtur að vera eðlilegt að skoða stöðu dreifbýlisins í ljósi þessa.

Ég vil bæta því við að mér sýnist allmikil þörf á því að foringjar stjórnmálaflokkanna, sem hafa lofað að bera hér fram frv. til að jafna aðstöðuna í landinu, fái betri upplýsingar um kjörin á hinum ýmsu stöðum en þeir hafa í dag. Og er þá ekki einmitt sanngjarnt að það verði Alþingi sem leggi á ráðin um það hvernig hægt sé að veita þeim þær upplýsingar?