14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3741 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur orðið vil ég vekja athygli þeirrar nefndar sem frv. fær til umfjöllunar á því að það kann að vera nauðsynlegt að kveða nokkru nánar á í lagatextanum um þær kannanir sem hér á að framkvæma heldur en gert er í þeim textum, sem lesnir hafa verið upp til þess að hafa það alveg ljóst að framkvæmdar verði kannanir af því tagi sem við viljum láta framkvæma. Ég vil kynna fyrir hv. deildinni orðalag sem gæti orðið grundvöllur að slíkum umr. í n. og er á þessa leið:

„Kauplagsnefnd skal á tímabilunum maí-ágúst 1984 og maí-desember 1984 og árið 1985 framkvæma kannanir á heimilisútgjöldum launafólks. Skulu þær kannanir taka mið af búsetu eftir einstökum landshlutum og helstu búsetutegundum innan landshluta og einnig af ólíkum tekjuhópum og fjölskylduhópum innan ASÍ, BSRB, BHM og annarra samtaka launafólks. Vinna skal úr könnununum jafnóðum og þær eru framkvæmdar.“

Með þessu orðalagi er kveðið á um að nú þegar verði byrjað að framkvæma könnun sem taki til fjögurra mánaða í upphafi og gefi strax ákveðnar vísbendingar og geti orðið grundvöllur að nánari umræðum. Jafnframt verði lögð drög að könnun sem taki út tímabilið frá maí til áramóta og síðan heildarkönnun árið 1985 og þetta sé sundurliðað eftir einstökum landshlutum og búsetutegundum innan landshluta sem og hinum ólíku fjölskyldu- og tekjuhópum sem í landinu eru. Ég held að aðeins með slíku ítarlegu orðalagi gæti þingið skýrt og skorinort gefið til kynna vilja sinn í þessum efnum og hver sú nefnd sem þetta fær til meðferðar eigi að skoða þann þátt málsins mjög gaumgæfilega.