14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3748 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum, 8. mars s. l., var hér umr. um skýrslu fjmrh. um ríkisfjármál árið 1983 þar sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir stöðu ríkissjóðs á því ári og horfum á árinu 1984. Það var kallað að hann væri að gera grein fyrir gatinu, hann væri að segja landslýðnum og þinginu hvað það væri stórt, gatið á ríkissjóði á árinu 1984. Þar með var, eins og bent var á áðan, í raun og veru skotinn niður allur grundvöllur þeirrar lánsfjáráætlunar sem nú er til umr. En munurinn á afgreiðslu lánsfjáráætlunarinnar sem núna stendur fyrir dyrum og fjárlaganna er hins vegar sá að þegar fjárlögin voru afgreidd sögðu talsmenn stjórnarinnar, eins og hæstv. fjmrh. og aðrir þm. ríkisstjórnarliðsins, að fjárlögin væru í lagi, þetta væru bestu fjárlög sem afgreidd hefðu verið, raunhæf og rétt útreiknuð í alla staði. Nú dettur engum í hug að halda því fram að það þingmál, sem við erum hér með, sé í raun og veru neitt, þetta sé hrein markleysa og talsmenn ríkisstj. viðurkenna í rauninni að svo sé.

Þetta frv. er ekki eitt gat heldur gatasigti. Það er alveg sama hvernig þetta frv. er skoðað, það er alls staðar gagnsætt og botnlaust í alla staði. Það er alveg sama hvaða þættir eru teknir í þessu frv., hvort það eru erlendar lántökur, innlendur sparnaður, húsnæðismál, orkuframkvæmdir eða hvað eina, ekki stendur steinn yfir steini og menn hafa ekki hugmynd um, ekki í stjórnarliðin einu sinni, hvað þeir eru að afgreiða. Það versta er í rauninni að þeir hafa ekki metnað til að afla sér vitneskju um hvað þeir eru að gera. Það er í rauninni það harkalegasta við þessa stöðu eins og hún er núna.

Ég tel að reyndar viti flestir liðsmenn ríkisstj. að þeir séu að gera tóma vitleysu. Þeir segja það hins vegar ekki í þessum ræðustól þannig að þess sér ekki stað í þingtíðindunum, en þeir vita í rauninni að hér er um að ræða plagg sem er hrein markleysa hvernig sem það er skoðað.

Ég ætlaði, herra forseti, að víkja að ýmsum þáttum lánsfjáráætlunarinnar og ætlaði þá að fara alveg sérstaklega yfir húsnæðismálin. Ég verð hins vegar áður en ég kem að þeim að víkja að ýmsum öðrum atriðum, sérstaklega afgreiðslu n. á þessu máli. Mér þykir satt að segja miklu lakara að ræða þetta mál hér án þess að hér séu staddir menn úr fjh.- og viðskn. Nd., fulltrúar stjórnarliðsins þar, því að þeir eiga að standa fyrir afgreiðslu mála í n.

Ég vil taka það fram, af því að einn þeirra er nú kominn í salinn, að í umr. í n. bauð stjórnarandstaðan upp á að 1. gr. frv. varðandi erlendu lántökuheimildirnar yrði tekin út úr og hún afgreidd sérstaklega. (Gripið fram í: Erlendu og innlendu.) 1. og 2. gr. frv. yrðu teknar út úr og reyndar var boðið upp á að orkuframkvæmdagreinin yrðu tekin líka. Það var sem sagt boðið upp á að það sem mestu máli skipti að fá afgreitt fyrir hæstv. ríkisstj. yrði afgreitt strax og tafarlaust í gegnum þingið þannig að hæstv. fjmrh. gæti gengið frá nauðsynlegum lántökum fyrir ríkissjóð á árinu 1984.

Þessu góða boði stjórnarandstöðunnar var hafnað af stjórnarliðinu í fjh.- og viðskn. Nd. Stjórnarliðið kærði sig ekki um að taka þessu góða boði stjórnarandstöðunnar og þess vegna er málið nú komið í þann hnút sem stjórnarliðið ber ábyrgð á, að fjmrh. leggur ofurkapp á að frv. verði afgreitt nú á sem allra stystum tíma, jafnvel á nokkrum klukkutímum, enda þótt ljóst sé að um sé að ræða eitt allramikilvægasta mál þingsins sem eðlilegt væri að fengi a. m. k. jafn ítarlega umr. og t. d. fjárlögin sjálf. Þessu boði var hafnað. Það er best að það liggi fyrir í þingtíðindum að stjórnarliðið hafði ekki áhuga á því.

Í öðru lagi skal það liggja fyrir í þingtíðindum líka að stjórnarandstaðan bauð upp á það að flýta sérstaklega í gegnum fjárfestingar- og lánsfjáráætlun og lánsfjárlög afgreiðslu á lánamálum og lausaskuldamálum bænda. Ég óskaði eftir því við fulltrúa Sjálfstfl. og Framsfl. í fjh.- og viðskn. Nd. að þeir könnuðu hvort áhugi væri á því að flýta sérstaklega lausaskuldamálum bænda með því að taka þau hér inn í lánsfjárlögin sem brtt. vegna þess að það tæki skemmri tíma en að vera að keyra þau í gegnum 6 umr. í þinginu eða 5 sem nú eru eftir um það sérstaka mái. Það skal liggja fyrir líka, þeim höfðingjum til hróss og sóma, sem stýra þessu máli í gegnum þingið af hálfu stjórnarliðsins, að því var einnig neitað af fulltrúa Framsfl. að afgreiða hratt þetta mikla hagsmunamál bænda, sem hæstv. landbrh. lætur þó að liggja í öðru orðinu að liggi lífið á að flengja í gegnum þingið á nokkrum sólarhringum. Svona er nú samkvæmnin í Framsfl. í þessu máli eins og reyndar fleirum. Mætti þetta vera nokkurt umhugsunarefni fyrir bændastéttina í landinu hvernig að málum er staðið af hálfu Framsfl. og læðist að manni sá grunur að hann sé ekki í þessu efni varðandi lausaskuldir bænda að hugsa um bændur fyrst og fremst heldur milliliðina í landbúnaðinum, Framsóknarfyrirtækin í landbúnaðinum. Þetta verður að liggja hér fyrir.

Einnig verður að liggja fyrir áður en lengra er haldið hver staða erlendra lána þjóðarinnar út á við er núna. Fyrir liggur að erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins nema núna 59.2% af vergri þjóðarframleiðslu. Menn skrifi það á bak við eyrað, 59.2% af vergri þjóðarframleiðslu, og ekki síst hæstv. fjmrh. (Fjmrh.: Veit þetta.) Veit þetta, segir hann. Þá ætla ég að biðja hann að skrifa niður hjá sér þær tölur sem hann er að hugsa um að bæta þar við.

Það eru í fyrsta lagi lántökur upp á nokkur hundruð millj. kr. vegna stofn- og rekstrarskulda útvegsins, sennilega á bilinu 500–800 millj. kr. Í rauninni er alger óvissa ríkjandi í þeim efnum enn þá en ljóst er að engir innlendir möguleikar eru til að fjármagna þetta þannig að hérna bætir fjmrh. við sig, við skulum segja, um 500 millj. kr., sem eru afdráttarlaust lágmark þess sem hægt er að komast af með ef menn ætla að taka á vanda útgerðarinnar eins og lofað hefur verið.

Síðan ætlar fjmrh. og ríkisstj. að lána bændum og létta undir vegna lausaskuldavanda þeirra upp á einar 100 millj. kr. a. m. k. að sögn.

Síðan kemur fram í plagginu um gatið að innlenda lánsfjáröflunin bregst, hún hrynur. Í lánsfjáráætluninni var gert ráð fyrir að hún nemi 800 millj. kr. en nú er gert ráð fyrir að hún nemi 400–500 millj. kr. Það vantar 300–400 millj. kr. Fjmrh. mundi kannske vilja vera svo vinsamlegur að skrifa þessar tölur hjá sér líka. Þarna vantar 300–400 millj. kr. og þá erum við komnir með lánsfjárskort upp á nokkuð á annan milljarð kr. Hvað þýðir það fyrir hina stoltu 60% tölu hæstv. fjmrh? Hvert 1% í þjóðarframleiðslu eru um 600 millj. kr. þannig að hækkun á þessum tölum um 1.2 milljarða, sem er í rauninni alveg lágmark þess sem ríkisstj. er bersýnilega að stefna að, hækkar þessa tölu um 2% af vergri þjóðarframleiðslu, fer sem sagt upp úr 59.2% upp í 61–62% eða svo. Þar með er þessi rammi sprunginn líka.

Menn munar sjálfsagt ekkert um að finna svo einhvern annan ramma til þess að tala um þegar þessi er sprunginn, enda eru þeir allir úr teygju eða einhverju efni sem í rauninni þolir hvað sem er, að því er virðist, og eru þar af leiðandi ekki marktækir að neinu leyti. En þessi rammi er þotinn út í veður og vind. Erlendar lántökur verða yfir 60%, erlendar skuldir þjóðarbúsins. Staða hinnar stoltu ríkisstj., sem tók við s. l. vor til að bjarga verðbólgunni, til að draga úr erlendum skuldum, er nú þannig að veruleg hætta er á því að verðbólgan vaxi á ný frá því sem verið hefur þrátt fyrir þær lífskjarafórnir sem almenningur hefur fært.

Erlendar skuldir hafa ekki minnkað vitundarögn vegna þess að ekki hefur verið tekið á einu einasta vandamáli öðru en því að lækka kaupið hjá fólkinu í landinu. Þannig liggur fyrir að erlendar skuldir verða mun meiri en hæstv. fjmrh. hefur gert ráð fyrir vegna þess að hverjar 600 millj., sem teknar eru til viðbótar við þær lántökur sem nú eru áformaðar, gera 1% í þjóðarframleiðslunni þannig að þessi tala er rokin út í veður og vind, þessi 60% rammi, sem Sjálfstfl. samþykkti síðast rétt áður en hann harmaði samning hæstv. fjmrh. við Dagsbrún. Ég hef ekki frétt af því hvað Sjálfstfl. hefur harmað í dag og væri fróðlegt að frétta af því, enda er nú komið svo fyrir formönnum stjórnarflokkanna að þeir harma það jafnan að kvöldi sem þeir gera að morgni og hefur hæstv. forsrh. farið mjög fyrir í þeim efnum eins og kunnugt er.

Í umr. um ríkisfjármálin á árinu 1983 fékk hæstv. fjmrh. ekki að tala einn fyrir ríkisstj. heldur komu þeir að hjálpa honum, hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason og Steingrímur Hermannsson. Nauðsynlegt er að hafa það í huga sem hæstv. forsrh. sagði þá um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Hann útmálaði það hvernig þau væru í rauninni komin. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í peningamálum blasa hins vegar við vissar hættur. Útlánaaukning bankanna í jan. og febr. er 33% eða töluvert meiri en verðbólga er nú, töluvert meiri.“ Síðan segir forsrh.:

„Bendir það augljóslega til nokkurrar þenslu og meiri þenslu en æskilegt er ef takast á að halda þensluáhrifum niðri eins og mikilvægt er til að treysta þann árangur sem hefur náðst. Ríkissjóðsdæmið er að sjálfsögðu stór liður í þessu og hefur staðan gagnvart Seðlabanka af þeim sökum versnað töluvert. Skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann jukust í jan. og febr. um 857 millj. kr. Gjaldeyrisstaðan hefur versnað um 1340 millj. kr. fyrst og fremst vegna yfirdráttar í Seðlabanka.“

Hvað var hæstv. forsrh. að segja Alþingi með þessum orðum? Hann var að segja að hallinn á ríkissjóði undanfarnar vikur er fjármagnaður með erlendum lántökum. Ríkið er rekið með erlendum lántökum. Gjaldeyrisstaðan hefur versnað um 1340 millj. aðeins frá áramótum. Þetta er staða sem er nauðsynlegt fyrir menn að hafa í huga.

Það eru ekki einasta erlendar skuldir sem verða hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu en fjmrh. hefur gert ráð fyrir heldur er útlánaaukning bankanna öll úr böndunum miðað við það sem ríkisstj. hefur sett sér. Ríkisstj. hafði gert ráð fyrir því að útlán bankanna ykjust á þessu ári um 11.9%, ef ég man töluna rétt úr fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er ríkisstj. nánast búin að eyða allri þeirri útlánaaukningu sem hún byggði sína lánsfjáráætlun á að ætti sér stað á árinu 1984. Hún er farin.

Hvað er gert í þessum málum? Hvað er gert í þessum málum af hæstv. ríkisstj.? Hvað hefur verið gert til að hafa áhrif á útlánaþenslu bankanna? Ég spyr. Hvar er hæstv. forsrh.? Nennir hann ekki að sitja hér undir umr. um lánsfjáráætlun? Ég óska eftir því að kallað verði í hæstv. forsrh. Það er útilokað að ræða um þetta mál sem snertir alla ríkisstj. öðruvísi en hann sé hér. Hæstv. forsrh., hvað hefur verið gert varðandi hina miklu peningaþenslu, útlánaaukningu, sem hér er um að ræða?

Síðan kemur hér fram að skuldir ríkissjóðs og ríkisstofnana — ætli það sé ekki verið að ráða í stöður — við Seðlabanka jukust í jan. og febr. um 857 millj. kr. Hvað hefur verið gert í þessu efni? Hvað er hæstv. fjmrh. að reyna að gera í þessu efni varðandi skuldir ríkissjóðs og til að rétta þetta af við Seðlabankann? Hann munar ekki um að slengja út milljónatugum í alls konar vinsamlega aðila í þjóðfélaginu eins og fyrirtækin með skattalækkunarfrv. sem liggja hérna fyrir. Af fullkomnu kæruleysi er kastað út úr ríkissjóði tekjustofni sem skilar fleiri tugum millj. á ári, eins og álagi á ferðamannagjaldeyri, til þess að vera samkvæmishæfur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum næst þegar menn koma þangað í heimsókn. Mikið er gert til að þóknast þeim háu herrum sem stjórna þeim stofnunum. (FrS: Þetta er efnismikil ræða.) Já, hv. þm. Friðrik Sophusson, þetta er efnismikil ræða og þetta er ræða sem þú hefðir kannske gjarnan þurft að setja þig inn í efnislega áður en þú beittir þér fyrir því að reynt var að afgreiða í gegnum þingið verst unna lánsfjárlagafrv. sem sést hefur hér fyrr og síðar, gatasigti Friðriks Sophussonar og hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar, það stendur ekki steinn yfir steini.

Þannig er staðan þegar kemur að afgreiðslu þessa máls að hæstv. fjmrh. hefur upplýst: Í ríkissjóð vantar hundruð millj. kr. Forsrh. hefur upplýst: Í peningamálum blasa við verulegar hættur. Hann upplýsir að gjaldeyrisstaðan hafi versnað um hálfan annan milljarð og að skuldir ríkissjóðs séu einn meginvandi efnahagslífsins. Þannig er það frv. sem hér liggur fyrir um lánsfjárlög, að flestu leytinu til hrein sýndarmennska af hálfu hæstv. ríkisstj.

Fjh.- og viðskn. Nd. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum. Ég get ómögulega sagt að mér finnist sú umfjöllun vönduð. Ég leyfi mér að segja að hún hefði þurft að taka mun lengri tíma. Ég held að þingnefndir þurfi að setja sér þann metnað að sjá fram úr þeim málum sem þær eru með. Ég veit að þeir hv. þm. sem stýrðu nefndinni af hálfu stjórnarliðsins lögðu sig fram, eða a. m. k. sumir þeirra, um að reyna að gera sem best úr þeim vandamálum sem hér eru uppi, en þeir fengu engin svör og engar úrlausnir frá hæstv. ráðherrum í þessu efni.

Hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. deildarinnar flytur á sérstöku þskj. nokkrar brtt. Í fyrsta lagi leggur hann til að farið verði nokkuð öðruvísi með lánsfjáröflun til orkuframkvæmda en gert var ráð fyrir í Ed. Það er sem sagt meiri hl. sem er að tefja málið með því að hrekja það upp í Ed. aftur. Þannig ber meiri hl. alla ábyrgð á því ef málið er í þröngri stöðu.

Í sambandi við orkumálin er fróðlegt að átta sig á því hvað þar er að gerast í hinum stolta málaflokki hæstv. ríkisstj. Það átti að bjarga þessu með erlendu skuldirnar, bjarga óreiðunni í peningamálum, það átti að rétta ríkissjóð af í eitt skipti fyrir öll ef eitthvað vantaði þar á, bjarga gjaldeyrisstöðunni. Og svo átti að hefja stórhuga framkvæmdir í orkumálum. Sá sem er iðnrh. í landinu hefur útmálað það með fleiri orðum en nokkur annar hvað það yrði gagnmerk stefna sem hann mundi fylgja fram og mikil breyting frá þeirri stöðnunar- og hægagangsstefnu sem fylgt hefði verið á undanförnum árum og fyrrv. hæstv. iðnrh. lá undir stórfelldum árásum fyrir frá íhaldinu.

Hvernig er þetta nú með hinar stórhuga orkuframkvæmdir núv. ríkisstj.? Aldrei minni framkvæmdir í orkumálum á 5 ára bili. Fyrrv. ríkisstj. hafði í gagni meiri framkvæmdir í orkumátum en þessi ríkisstj. ætlar að gera á fyrsta heila árinu sem hún stjórnar landinu. Það er verið að skera niður orkuframkvæmdir um 40–50% frá því sem var mest á síðustu 5 árum.

Þetta plagg með upplýsingum um orkuframkvæmdir í ár var lagt fram í fyrradag og ég sá það fyrst í gær. Það kemur fram sem fskj. 9 í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. Þar kemur fram að orkuframkvæmdir eða virkjanaframkvæmdir í ár eru áætlaðar 900 millj. kr. Á sama verðlagi í fyrra var þetta 1.3 milljarður kr., 1982 1.3, 1981 1.6, 1980 1.4. Á öllum árum síðustu ríkisstj. var sem sagt staðið af meiri stórhug að framkvæmdum í orkumálum en ætlunin er að gera í núv. ríkisstj. Það eru efndirnar á fyrirheitum íhaldsins í þeim efnum. Það er sama hvar borið er niður í loforðalistum íhaldsins fyrir kosningar. Einnig hér, yfirlýsingarnar í orkumálum um hinar miklu framkvæmdir eru að engu orðnar.

Það liggur fyrir skjalfest að fráfarandi ríkisstj. Gunnars Thoroddsen beitti sér fyrir meiri framkvæmdum í orkumálum, virkjanamálum á síðustu 5 árum en núv. ríkisstj. mun gera á þessu ári og það mun meiri. Þar er nú stórhugurinn kominn hjá núv. hæstv. iðnrh. sem fór meiri hrakyrðum en nokkur annar maður um forvera sinn, hæstv. fyrrv. iðnrh., og er þá langt til jafnað, ef lesnar eru ræður íhaldsins um stjórn fyrrv. iðnrh. á iðnrn.

Í annan stað flytur meiri hl. fjh.- og viðskn. brtt. um framlög í Kristnisjóð. Varðandi það mál birtir minni hl. sem fskj. 4 bréf biskups Íslands um framlög í sjóðinn. Þar kemur fram að þjóðkirkjan telur að Kristnisjóður eigi að hafa á þessu ári 3.8 millj. kr. Hæstv. fjmrh. gerði upphaflega till. um að þetta yrði 1.6 millj. kr. Við gagnrýni sem fram kom frá kirkjuráði í Ed. varð þessi tala 2.5 millj. kr. og var samþykkt þar. Þegar fulltrúar kirkjunnar komu á fund í Nd. Alþingis sýndu þeir fram á að 2.5 millj. kr. væru víðs fjarri því sem Kristnisjóður ætti að fá og það endaði með því að stjórnarliðið flutti till. um að hækka þessa tölu upp í 3.6 millj. kr. Ég ætla ekki að fara miklu fleiri orðum um þessi vinnubrögð. En ég bendi þingheimi á að lesa bréf biskups Íslands til fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, sem birt er á bls. 13 með fskj. 4 í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Það lýsir því nokkuð vel hvernig að þessum málum hefur verið staðið af hæstv. ríkisstj.

Í þriðja lagi flytur stjórnarliðið brtt. um að heimilt verði að endurgreiða Flugleiðum og Cargolux lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli vegna Norður-Atlantshafs flugs. Upplýst hefur verið að hér sé um að ræða eftirgjöf á tekjum ríkissjóðs upp á líklega um 25 millj. kr. á þessu ári. Hér er ekki um neitt annað að ræða en að ríkisstj. er að gera till. um rekstrarstyrk til Flugleiða. Till. er um það að ríkið haldi áfram að styrkja þetta fyrirtæki með beinum framlögum úr almannasjóðum, þó svo að fyrirtækið sé komið yfir erfiðasta hjallann í sínum rekstri. Miklu eðlilegra væri að í framhaldi af þessari ákvörðun yrði tekinn upp nýr liður í fjárlög íslenska ríkisins, sem héti Styrkur til Flugleiða. Ég veit ekki undir hvaða rn. hann ætti að vera, styrkur til Flugleiða, en hugsanlega ætti hann að vera undir félmrn. Þar eru ýmis samtök sem eru styrkt og kannske væri eðlilegast að Flugleiðir yrðu hafðar á þeim lista. Ég heyri að hv. þm. Ólafi Þórðarsyni finnst þetta snjöll hugmynd og hæstv. félmrh. mun vafalaust taka henni vel, styrkur til Flugleiða upp á 24 millj. kr. Á þeim tímum þegar ríkissjóður er rekinn með meiri halla en menn þekkja til ætlar hæstv. ríkisstj. að gefa Flugleiðum 24 millj. kr.

Ein brtt. meiri hl. er sú að tekið verði lán fyrir Bjargráðasjóð allt að 30 millj. kr. vegna tjóns sem kartöflubændur hafa orðið fyrir vegna uppskerubrests á árinu 1983. Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að ég fellst á þessa till. eins og hún er hér. Mér finnst hún eðlileg í alla staði.

Ég vík þá aðeins að öðrum þáttum í frv. sjálfu og vil fyrst koma að orkumálunum aftur og spyrja hæstv. iðnrh. og biðja hann að gera gleggri grein fyrir því en gert er í fskj. 9 í nál. minni hl. hvað ætlað er að fari til rannsóknar vegna Fljótsdalsvirkjunar á ári hverju frá 1984 og áfram skv. þeim áætlunum sem liggja fyrir í iðnrn. — Er hæstv. iðnrh. hér í deildinni eða — (Forseti: Ég skal láta athuga það hvort hægt er að ná í hæstv. iðnrh.)

Ég ætla aðeins, áður en hæstv. iðnrh. kemur, að víkja að öðru atriði í þessu frv., en það snertir niðurskurð til einstakra sjóða. Að í nál. minni hl. kemur fram að ýmsir sjóðir verða skornir niður á árinu 1984. Þetta er á bls. 16 í nál. Ég vek athygli á því að gert er ráð fyrir því að Erfðafjársjóður fái 19.4 millj. kr. í ár en hefði átt að fá að óbreyttu 40 millj. kr. Þessi sjóður er notaður til þess að styrkja framkvæmdir vegna aldraðra og öryrkja, einkum vinnustaða í þessu skyni. Nú eru forráðamenn samtaka fatlaðra með það í athugun að fara í mál við hæstv. félmrh. vegna þess að sjóðir, sem eiga að fjármagna framkvæmdir fatlaðra, hafa verið skertir meira en lög hafa heimilað til þessa á þessu ári.

Nú hefur það verið svo á undanförnum árum að þessir sjóðir hafa oft verið skertir, m. a. Erfðafjársjóður. Hins vegar hefur ríkisstj. á undanförnum árum, þeim árum sem ég þekki til, alltaf beitt sér fyrir því að sjóðurinn hefur fengið nokkra aukafjárveitingu af erfðafjárskatti þannig að í rauninni hefur mun meira fé skilað sér til sjóðsins en fjárlög hafa gert ráð fyrir á undanförnum árum. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er þá ætlunin að tryggja með aukafjárveitingum að þessi sjóður fái aukna fjármuni til starfsemi sinnar á þessu ári, en gert er ráð fyrir því í frv. að hann fái aðeins um helming af því sem hann á að fá skv. lögum?

Ég vil einnig spyrja hæstv. félmrh. í þessu efni: Hvernig stendur úthlutun nú úr Framkvæmdasjóði fatlaðra? Hefur hann þegar yfirlit yfir umsóknir um lán og framlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ef svo er er hann reiðubúinn til að láta þm., sem eiga sæti í fjh.- og viðskn. Nd., í té upplýsingar um þessi mál þó að það verði ekki fyrr en einhvern tíma næstu daga, jafnvel eftir að þetta frv. verði afgreitt? En mjög nauðsynlegt er að sjá til þess að þm. fylgist með því hvernig fjármagni er úthlutað úr þessum sjóði.

Ekki síst ætti núv. hæstv. félmrh. að vera það ljúft að koma til móts við óskir þm. í þessu efni vegna þess að hann beitti sér mjög fyrir því að framlög úr sjóðnum yrðu há skv. lögum á síðasta þingi þegar þessi mál voru afgreidd, þ. e. frv. um málefni fatlaðra ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þannig að ég tel að það þurfi að fást skýrari upplýsingar um þessi mál og óska eindregið eftir þeim við hæstv. félmrh. Ég skýri jafnframt frá því að ég mun við meðferð málsins hér í þinginu óska eftir sérstakri atkvæðagreiðslu um þær greinar frv. sem lúta að skerðingu á þessum sjóðum fattaðra.

Varðandi frv. að öðru leyti hefði ég aðeins viljað ræða fleiri mál við hæstv. iðnrh. sem ku ekki vera kominn enn og er líklega væntanlegur. — Iðnrh. er mættur og ég spyr hann tveggja spurninga eða þriggja. Gæti hæstv. iðnrh. hugsað sér að vera í salnum kannske eins og tvær mínútur eða svo? (Iðnrh.: Það er nú nóg að hlusta á mann þó maður þurfi ekki að horfa á hann líka.) Þú getur þá snúið þér við. Finnst hæstv. iðnrh. að það sé ofverkið hans að sitja inni í salnum þegar stjórnarandstaðan er að tala við hann? Einn hæstv. ráðh. neitaði að svara spurningum utan dagskrár frá þm. í gær. Næsta aðferð er sú að neita að sitja í þingsalnum meðan þm. eru að ræða lánsfjáráætlunina. (Gripið fram í: Hann er nú óvenju þaulsætinn.) Hann er að vísu óvenju þaulsætinn og situr skár en aðrir. En þessi framkoma iðnrh. heitir hins vegar dónaskapur. En ef hann heyrir mál mitt ætla ég að endurtaka spurningarnar sem eru þessar:

Í fyrsta lagi: Hversu mikið fé er ætlunin að setja í rannsóknir vegna Fljótsdalsvirkjunar á þessu ári, 1984, og næstu ár?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. iðnrh. vegna 31. og 32. gr. þessa frv.: Hvað er ætlunin að leggja mikið fé í skipasmíði á þessu ári og hefur verið tryggt að skipasmíðastöðvarnar fái fé til viðgerðarverkefna eins og hæstv. iðnrh. hafði heitið að gert yrði?

Og ef ég mætti ávarpa hans tign einu sinni enn þá er það þessi spurning: Hvernig stendur á því að í lánsfjárlagafrv. er sérstakt ákvæði um Vélsmiðju Seyðisfjarðar? Hverju gegnir það að Vélsmiðja Seyðisfjarðar nýtur þeirrar sérstöku virðingar í frv. til l. um lánsfjárlög árið 1984 að um hana er alveg sérstök grein og hvernig með mál hennar skuli farið? Hefur hæstv. iðnrh. hugsað sér að afgreiða aðrar skipasmíðastöðvar með svipuðum hætti, t. d. Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi, Skipasmíðastöðina Stálvík eða Slippstöðina Akureyri? Hvaða hugmyndir eru uppi í þeim efnum?

Hæstv. iðnrh. ber nú ábyrgð á því að skera niður orkuframkvæmdir þannig að þær verða minni en nokkru sinni á fimm ára tímabili. Það er sú stórhuga stefna sem hæstv. núv. iðnrh. ætlaði að beita sér fyrir — og er hann nú boðinn velkominn í salinn, hans náð, sem þóknast að líta stjórnarandstöðuna augum. Ég efast um að hægt sé að finna annað eins dæmi um ósamræmi milli yfirlýsinga annars vegar og athafna hins vegar eins og hjá hæstv. iðnrh. í orkumálum. Allan tíma síðustu ríkisstj. Gunnars Thoroddsen, þar sem orkumálin voru undir forustu Hjörleifs Guttormssonar, voru myndarlegri framkvæmdir í orkumálum en hjá núv. hæstv. iðnrh. (Iðnrh.: Þú ert nýbúinn að segja þetta allt, ég hlustaði á þetta.) Það er útilokað, hæstv. ráðh., að vita hvað menn heyra þegar þeir eru í hliðarsölum. (Iðnrh.: Hvert orð. Ég hlustaði á hvert orð.) Til þess hefur þingið hér málstofu að menn geti áttað sig á því við hverja þeir eru að tala. Ég skil það hins vegar vel að hæstv. iðnrh. sárni að þetta skuli vera endurtekið.

Ég vík þá næst að húsnæðismálunum í fáeinum orðum. Þau hafa verið rædd hér nokkuð að undanförnu. Á bls. 6 og 7 í nál. minni hl. er birt fjárhagsáætlun Byggingarsjóðs ríkisins. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði 200 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins. Ég hef ekki orðið var við annað en að fyrirhugað sé að standa við það þrátt fyrir þann fjárhagsvanda sem ríkissjóður á nú við að glíma.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að skyldusparnaður verði neikvæður á þessu ári um 30 millj. kr. Lánsfjáráætlunin sjálf gerir aftur á móti ráð fyrir að skyldusparnaðurinn skili 45 millj. kr. Þarna skakkar 75 millj. kr. á tölum hæstv. félmrh. annars vegar og Húsnæðisstofnunarinnar hins vegar. Fyrir nokkrum dögum var hann spurður að því hér í þinginu hvort hann teldi að þessar 45 millj. kr. mundu skila sér. Hann sagðist vera bjartsýnn á að svo gæti orðið og vonandi verður það svo. En það er bersýnilegt að hér er um að ræða óvissu upp á nokkra tugi millj. kr. og verulegan mismun á áætlun ríkisstj. annars vegar og Húsnæðisstofnunarinnar hins vegar upp á 75 millj. kr.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins 7. febr. 1984 að Atvinnuleysistryggingasjóður skili 115 millj. kr. Hæstv. félmrh. hefur viðurkennt að þessi peningur sé mjög óviss og vafasamt að hann náist. Hann hefur hins vegar lýst því yfir að fjmrn. eða fjmrh. muni tryggja þessa peninga. Hann lýsti því yfir á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. Ég vil inna eftir því hvort ríkisstj. hefur samþykkt að þessar 115 millj. kr. verði greiddar úr ríkissjóði. Ef það hefur ekki þegar'verið samþykkt vantar þarna 115 milljónir til viðbótar við þær 75 sem áður hafa verið nefndar.

Í þriðja lagi: Ríkisstj. gerir ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir skili 525 millj. kr. á þessu ári. Hér er um að ræða hækkun frá s. l. ári um 97% á sama tíma og ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á að hækka um 6.7%. Hér er augljóslega um að ræða miklu hærri tölu en hægt er að gera sér raunhæfar vonir um. Ég spyr hæstv. fjmrh. og félmrh.: Hafa þeir tryggingu fyrir því að allir sjóðirnir skili 40% af sínu ráðstöfunarfé? Hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna samþykkt að skila 40% af sínu ráðstöfunarfé? Ég spyr hv. þm. Guðmund H. Garðarsson sem er einn af forustumönnum þess sjóðs.

Ég hef rökstuddan grun um að þessi tala sem nú er unnið með sé þegar talin allt of há í fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun og hjá Sambandi almennra lífeyrissjóða og lífeyrissjóðunum yfirleitt. Ég hef rökstuddan grun um að þar telji menn réttara að miða við 350–400 millj. kr. frekar en 525. Ég hef, og minni hl. í þessu nál., miðað við að þarna náist 400 millj. kr., það er geysileg hækkun frá s. l. ári.

Þá er þar óvissa um 125 millj. í viðbót.

Þá er gert ráð fyrir því í áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins að til komi sérstök innlend fjáröflun upp á 200 millj. kr. Ríkisstj. er þegar búin að lýsa því yfir að þessi innlenda fjáröflun verði að skerast niður um 300–400 millj. kr. Það var í yfirlýsingunni um stóra gatið hjá hæstv. fjmrh. hér 8. mars. Um þessa tölu, þessar 200 millj. kr., er óvissa, það er alveg ljóst. Félmrh. hefur það ekki í hendi enn þá.

Ég tel að við eigum í þessu máli eins og öðrum að styðja hæstv. félmrh. í því að hann fái þessa fjármuni til húsnæðislánakerfisins og það verði engar refjar með það. Enda er það rétt hjá hæstv. félmrh. að þegar ríkisstj. samþykkir lánsfjáráætlun og Alþingi afgreiðir lánsfjárlög á að vera hægt að treysta því að við það verði staðið. En staðreyndin er hins vegar sú — eins og félmrh. hefur viðurkennt í umr. hér 8. mars en úr ræðu hans úr þeim umr. var ég að lesa núna áðan — að þetta kerfi er meira og minna í uppnámi vegna þess að peningaskortur er alls staðar í þessu efni.

Þegar þessar tölur eru taldar saman, sem hér er verið að setja upp, er alveg augljóst mál að það er óvissa í húsnæðislánakerfinu upp á 900 millj. kr. En enginn sagði — eða a. m. k. ekki ég — að það vantaði 900 millj. kr í þetta kerfi. En ég tel að það hafi ekki verið gengið frá þessum fjármunum og þarna sé óvissa upp á 900 milljónir. Ég held að það væri skynsamlegt af hæstv. félmrh. að þiggja yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokks um aðstoð við að tryggja þessa fjármuni áður en hann fer í að skera áætlunina niður og kem ég nú að því.

Hæstv. félmrh. er nefnilega í þeirri þröng með þetta mál, því miður, að menn eru farnir að tala um að skera niður stórkostlega þessa áætlun sem birt er hér á bls. 6 í nál. minni hl. Gert er ráð fyrir stórfelldum niðurskurði á þessari áætlun. Verið er að tala um það núna að ekki verði veitt 1000–1100 nýbyggingarlán eins og á síðustu árum heldur að veitt verði á þessu ári 750 nýbyggingarlán. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er þetta rétt? Er virkilega verið að tala um að veita aðeins 750 nýbyggingarlán á þessu ári? Ætlar hann að láta undan pressu ríkisstj. í þessu efni og hindra þannig að staðið verði við þau markmið sem lánsfjáráætlunin setur og gefast upp við að framkvæma hana áður en hún er orðin að veruleika í þinginu?

Samkvæmt þeim bréfum, sem okkur bárust í fjh.- og viðskn. Nd. frá Húsnæðisstofnuninni, er greinilega verið að gera ráð fyrir því að fresta stórkostlega lánaveitingum Húsnæðisstofnunarinnar þannig að þeir, sem gera fokhelt á fyrri hluta þessa árs, fái jafnvel engin lán á árinu 1984. Slík afgreiðsla hefði aldrei þekkst fyrr, aldrei nokkurn tíma. Þannig að þó að ríkisstj. tækist að tryggja fjármuni til þess að hækka lánin um 50% frá því sem áður var, sem er sú fjöður sem félmrh. hangir á í þessu efni, er það staðreynd um leið að hann nær því með því að skera niður og fækka nýbyggingarlánum jafnvel um 25–30% ef það er ætlun hans að setja þetta niður í 750 íbúðir. Er ætlun félmrh. að fallast á að þetta verði sett niður í 750 íbúðir? Er það ætlun félmrh. að fallast á að G-lánin verði skorin stórkostlega niður eins og Seðlabankinn er að nudda í við félmrh. nú eins og oft áður og alltaf hefur verið neitað?

Þessar spurningar vildi ég gjarnan að hæstv. félmrh. tæki til íhugunar. Niðurstaðan mundi verða sú, sem rakin er í þessu nál., 17–25% samdráttur yrði í byggingunum frá því litla byggingarmagni sem var á síðustu árum í minni tíð sem félmrh. þegar verulegur samdráttur átti sér stað frá því sem áður hafði verið, m. a. vegna mikillar verðbólgu á þeim tíma. Ætla menn að keyra það byggingarmagn niður um 25–30%? Mér sýnist að það sé það sem menn eru hér að ræða um.

Hins vegar hefur hæstv. félmrh. sloppið fyrir horn í þessu máli furðu vel vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur verið svo almennilegur að afgreiða Húsnæðisstofnunina. Það hefur verið dregið endalaust á Seðlabankann. Seðlabankinn hefur einlægt fengið upplýsingar að undanförnu um að þetta verði lagað á morgun eða í næstu viku þangað til að menn fóru eitthvað að ókyrrast og heimtuðu að hæstv. félmrh. segði hvernig hann ætlaði að tryggja þessa peninga. Hann hefur komist upp með það enn þá að lýsa því ekki yfir hvernig hann ætlaði að fara að því vegna þess að hann hefur verið í skjóli hæstv. fjmrh. og ég vona að hann verði það eitthvað áfram.

En staðan er engu að síður sú að í Seðlabankanum hafa komið upp um það hugmyndir í fyrsta sinn í sögunni að loka á Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna eins og hverja aðra ótínda vanskilaaðila sem eigi að fleygja á dyr vegna þess að ekki sé búið að gera grein fyrir því hvernig menn ætli að standa straum af þeim yfirdrætti sem var í Seðlabankanum á vegum byggingarsjóðanna um áramótin upp á 200–300 millj. kr. Hæstv. félmrh. hefur ekki gengið frá því hvernig þetta á að leysa. Þetta er allt saman í lausu lofti. Hæstv. fjmrh. hefur, eins og ég benti á áðan, með ákvörðunum, sem teknar hafa verið í ríkisstj., gengið þannig frá hlutum að hægt hefur verið að hækka lánin um 50%. En eftir stendur hitt að hallinn á Byggingarsjóði og vandi hans er í rauninni gjörsamlega óleystur.

Hæstv. félmrh. tjáði okkur í fjh.- og viðskn. Nd. að búið væri að ganga frá samkomulagi í sambandi við bankana og framkvæmdalánin upp á 125 millj. kr. á þessu ári. Helgi Bergs mætti fyrir hönd viðskiptabankanna á fund fjh.- og viðskn. og greindi frá því að ekkert samkomulag lægi fyrir gagnstætt því sem hæstv. félmrh. hafði sagt okkur. Ég hlýt að spyrja hann að því, hvort sem hann svarar því núna við 2. umr. eða 3., hvernig á því stendur að honum og talsmanni viðskiptabankanna ber ekki saman að þessu leytinu til.

Virðulegi forseti. Það væri ástæða til að halda lengi áfram að ræða þessi mál. Hér hefur verið illa að verki staðið af hæstv. ríkisstj. Hér er um að ræða mál sem er vanburða á alla vegu. Þess vegna hefur minni hl. lagt til að málinu verði vísað aftur til ríkisstj. Ég tel að það séu langeðlilegustu og rökréttustu vinnubrögðin, að vísa þessu máli aftur til ríkisstj. þannig að hún fái að glíma við þetta verkefni. Mjög mikið vantar á að gerð hafi verið grein fyrir málum og mér finnst það nokkurt umhugsunarefni fyrir Alþingi hversu mikið menn láta bjóða sér í þessu efni varðandi vanbúnað mála, bæði stjórn og stjórnarandstaða í rauninni. Ríkisstj. þyrfti einnig að hugleiða hvernig betur mætti standa að afgreiðslu svona mála. Mál liggja oft lengi inni í þinginu án þess að á þeim sé tekið í nefndum þingsins. Oft og tíðum er lítill alvörublær yfir meðferð mála í starfsnefndum þingsins, því miður. Ég held að það væri hagsmunamál stjórnarandstöðunnar ekki síður en stjórnarinnar að reynt yrði að halda betur á meðferð þessara mála framvegis. Í þessu efni getur enginn skotið sér undan sök, allir flokkar og vafalaust flestir þm. eiga þar nokkra sök á. En þetta þarf að laga. Það er ekki nógu vel unnið í málum eins og þessum, því miður.

Ég tel hins vegar að þetta mál sé afbrigðilega illa unnið í rauninni og þess vegna er eðlilegt að stjórnarandstaðan hefur flutt hér till. um að málinu verði vísað aftur til ríkisstj.