14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3759 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það er held ég nokkuð merkileg staða sem Alþingi er í hérna í kvöld. Það er verið að biðja okkur um — og er raunar fyrirsjáanlegt að það gangi fram — að afgreitt verði hérna mál sem eftir yfirlýsingum sjálfrar ríkisstj. að dæma er ófullnægjandi, er ófullburða, er götótt og hefur ekki reynst það trausta innlegg í fjármálapólitík þjóðarinnar sem hæstv. ríkisstj. þykist þó viðhafa, og að auki vitum við um fjöldamörg óleyst verkefni á sama vettvangi, þ. e. í lánsfjármálum. Það er alveg fyrirsjáanlegt að þó að við afgreiðum þetta mál núna verður upphlaup einhvern tíma síðar þar sem í ljós verður komið gat og kallað verður á fulltingi hæstv. Alþingis til þess að leysa vandamálið.

Við í minni hl. bentum á þann möguleika að menn hefðu samvinnu um að greiða fyrir bráðum málum, t. d. lántökum ríkissjóðs í einstökum aðkallandi mátum, með því að afgreiða þau sérstaklega og gefa þannig nefnd og þingi tækifæri til að vinna þetta mál eins og það á skilið.

Hæstv. fjh.- og viðskn. Nd. hefur reynt að taka þetta mál þeim tökum sem tíminn hefur veitt tilefni til. Það hefur verið rætt við fjöldamarga aðila, en mjög margir endar eru ókannaðir. Það hefur verið gerð grein fyrir þessu máli í ræðum þeirra hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og Svavars Gestssonar og verið drepið á ýmis þau mál sem voru helst til umræðu í n. og er í raun ekki miklu við þá efnislegu meðferð að bæta.

En þarna hefur að mörgu leyti skotið skökku við, að mínu mati. Ég ætla t. d. að nefna eitt dæmi í sambandi við 3. gr., þar sem er Landsvirkjunarmálið. Þar var í frv. eins og það var lagt fram 900 millj. kr. lántökuheimild. Fjh.- og viðskn. í Ed. taldi nauðsynlegt „að gefin yrði nánari sundurliðun en fram kemur á lánsfjáráætlun um ráðstöfun lánsfjár Landsvirkjunar til framkvæmda“, svo að notuð séu orð úr áliti meiri hl. n. í Ed. Um þá sundurliðun var beðið. Sú sundurliðun berst hæstv. fjh.- og viðskn. Ed. með ekki meiri fyrirvörum en svo að saklausir alþm. töldu að þetta væri plagg sem á væri mark takandi og settu í brtt. og samþykktu. Síðan kemur í ljós að þetta mátti ekki og málið er allt í vandræðum og allt stendur fast. Það virðist koma í ljós að stórvirkjanafyrirtæki, sem er að plana á árinu 1 milljarðs áætlun verklegra framkvæmda, stendur þannig þegar þrír mánuðir eru liðnir af framkvæmdatímanum að ekki má setja reipin föst. Það þarf að hafa reipin það laus að hægt sé að færa á milli eins og þeir kæra sig um. Þá spyr maður sig ýmissa spurninga: Senda embættismenn Alþingi, þegar það biður um upplýsingar, upplýsingar sem eru ekki meira virði en þetta? Hvers virði eru umsagnir og upplýsingar sem Alþingi er að biðja um? Nú mætti líka spyrja sig í þessu ákveðna tilfelli: Liggur ekki nokkuð ljóst fyrir, þegar þrír mánuðir eru liðnir af viðkomandi ári, hvernig framkvæmdum verður háttað? — En það kom í ljós að grg., sem var nógu góð fyrir þm. til þess að nota til að samþykkja 1 milljarðs króna lánsheimild, var ekki nægilega traust til að fyrirtæki treysti sér að starfa eftir henni á árinu. Þessi vinnubrögð undrast ég og ég tel að Alþingi eigi þá kröfu að fá yfirlit um áætlanir svona fyrirtækja sem raunverulegt vit sé í.

Í framhaldi af svona vangaveltum má t. d. velta fyrir sér 4. gr. umrædds frv., þar sem eru fyrirtæki með eignaraðild ríkissjóðs. Þar er sem betur fer miklu minni upphæðum úr að spila. Hv. n. hafði því miður engan tíma til að fara nánar ofan í þá sauma. Þar eru veittar ýmsar heimildir til lánsfjáröflunar. Þar er veitt heimild til lánsfjáröflunar vegna steinullarverksmiðju. Hefði með eðlilegum vinnubrögðum verið fullkomin ástæða til að þm. spyrðu og fengju upplýsingar um t. d. hver rekstrargrundvöllur þessarar verksmiðju væri. Það urðu miklar umr. ekki alls fyrir löngu um þetta mál. Þarna verður, ef svo fer sem horfir, framleidd steinull sem líklega nægir fyrir alla Norður-Evrópu. Það er spurning hvað er verið að skuldbinda, í hvers konar bransa á að skuldbinda Alþingi þar?

Annað dæmi upp úr sama plaggi er í sambandi við sjóefnaverksmiðju, sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Það kom í ljós við vinnu hv. Ed. að þar hafði verið vanáætlaður fjármagnskostnaður og þar þurfti að bæta við, ef ég man rétt, einum 9 milljónum. Ekki bendir það beinlínis til traustrar rekstrarstöðu fyrirtækisins. Og menn hefðu átt að spyrja að gefnum meiri tíma: Hvað er að gerast þar? Hverjar eru áætlanir fyrirtækisins? Hver er staða þess? Er þetta byrjunin á einhverju ævintýri? Ég held að ástæða hefði verið til að athuga þarna fleiri þætti.

Fyrir húsnæðismálum hefur verið gerð hérna nokkuð glögg grein. Það kemur fram í lánsfjáráætlun að lánsfjár til húsnæðissjóðanna á að afla á þann hátt að frá lífeyrissjóðum eiga að koma 690 millj., með sérstakri sölu skuldabréfa á að afla 200 millj., skyldusparnaður á að gefa 45 millj. og lán frá Atvinnuleysistryggingasjóði á að vera 115 millj. Alls eru þetta 1050 millj. Það hefur þegar komið fram ýmislegt um hversu merkar þessar tölur séu í raun og veru. Það hefur komið fram í viðtölum við forstöðumenn lífeyrissjóða að þeir hafi ýmsa girnilegri vöxtunarmöguleika fyrir sitt fé þessa dagana, í ríkisvíxlum og ýmsum gylliboðum, og að þeir telji þetta fé alls ekki í hendi þó að ráðh. telji að um það hafi verið samið svo jafngildi handsali.

Í sambandi við 200 millj. kr. fjáröflun með sölu skuldabréfa er margbúið að koma fram í þessum stól að það er greinilega ofbeit á íslenska lánsfjárhaganum. Menn hafa raunar minnkað um helming þær áætlanir sem þeir höfðu um fjáröflun þar. Nýjustu upplýsingar í þeim efnum komu frá samráðsnefnd hæstv. fjmrh. í nýlegum umr. um gat, þar sem áætlun um lánsfjáröflun á innlendum markaði var lækkuð úr 800 millj. í 500 millj.

Það sem átti að vera 45 millj. í skyldusparnaði verður líklega á endanum neikvætt um einar 30, ef ég man rétt. Það er rætt hérna um 115 millj. frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Þarna vantar greinilega fé svo hundruðum milljóna skiptir, og þó eru hérna einungis teknar þær áætlanir sem voru í lánsfjáráætlun sjálfri. Ef það er hins vegar litið í gögn Húsnæðisstofnunar um áætlaða lánsfjárþörf vantar til viðbótar þar 400 millj. Húsnæðisstofnun hefur skv. sínum gögnum áætlað að fjárþörf Byggingarsjóði ríkisins væri 1366 millj. og þörf Byggingarsjóðs verkamanna væri 584 millj. Þetta eru í allt 1950 millj. Með því fé sem stofnuninni er lofað á lánsfjáráætlun og öðru rekstrarfé sem hún hefur hefur hún til umráða 1572 millj. Þarna vantar 400. Þarna er 400 millj kr. bil á milli þess sem vantar og þess sem lánfjáráætlun, ef við hana væri staðið, mundi gefa þessum sjóðum. Svo er auk þess augljóst að það fæst ekki einu sinni það sem lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir.

Frammi fyrir þessu stendur fólk sem er að berjast þeirri gömlu, helgu baráttu Íslendingsins að reyna að koma yfir sig þaki. Kveðjan eða skilaboðin sem þetta fólk fær eru af ýmsum toga. Því er sagt annað veifið: Ég mundi nú bíða með að byggja ef ég væri í þessum sporum. Einn ráðh. segir: Ég lít svo á að ríkisstj. beri ábyrgð á þeim tölum sem hafa verið lagðar fram í lánsfjáráætlun. Annar ráðh. segir: Það hefur engu verið lofað. — Við erum komin þrjá mánuði inn á framkvæmdatíma þessa árs. Það fer að koma sá tími að eðlilegt sé að fólk ýti úr vör í þessum efnum, en allt er í lausu lofti. Það er spurning hvar og hvenær verði lögð fram sú trygging ríkissjóðs á fjáröflun til húsnæðislánakerfisins að mark sé á takandi og hver hún verður. En eftir því bíða ýmsir.

Hér mætti lengi tala. Til viðbótar við þau göt sem ég hef gert að umræðuefni hér vitum við um óleyst vandamál sem bíða eftir okkur, þúsund milljón króna skuldadæmi útgerðarinnar sem auðvitað verður að einhverju leyti leyst innan bankakerfisins með lengingu lána og ýmsu þess háttar. En það er fyrirsjáanlegt að óhugsandi er að lausn þess dæmis verði án þess að ríkissjóður komi við sögu. Og hvað verða mörg hundruð milljónir þar?

Einhver lán verður að taka til að stoppa í stóra gatið frá því um daginn og einhverjar hundruð milljóna lántökur verða vafalaust þar.

Þannig er staðan núna, að þessi styrka, örugga ríkisstj. er að þræla í gegn plaggi sem við vitum þegar að er skakkt svo nemur hundruðum milljóna og við vitum að okkar bíða óleyst dæmi upp á fleiri hundruð milljóna og Alþingi er boðið upp á að afgreiða þetta eins og ekkert sé. Eins og hv. síðasti ræðumaður vék að tel ég að menn ættu virkilega að taka sig á og hugleiða hvers konar vinnubrögð séu þeim persónulega samboðin og stofnuninni sem þeir um stundarsakir hafa rekist inn á.