14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það skal ekki standa á mér. Ég spyr aðeins: Um hvað var samið? Misskil ég það með öllu að þingflokksformenn hafi komið sér saman um að ljúka þessari umr. nú fyrir kvöldmat? Ég mun alls ekki draga af mér að sitja fyrir svörum við þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og menn geta haft kvöldfund mín vegna til þess. Það er hins vegar alveg ljóst að hæstv. forseti hlýtur nú að gefa kvöldmatarhlé hvað sem öðru líður. Ég vil alls ekki liggja undir því að ég vilji ekki sitja fyrir svörum í málinu. Ég vil aðeins fá upplýst og það án tvímæla um hvað var samið. Það var að þeim samningum sem ég þóttist vera að fara en ekki af ótta við það að sitja fyrir svörum. Ég skil það svo á hv. 3. þm. Reykv. að hann teldi það fullnægjandi að fyrir svörum yrði setið við upphaf 3. umr. (Gripið fram í.) Ég hef ekkert meira um þetta að segja en við skulum fá úr þessu skorið. Væntanlega er ekki svo komið fyrir samningamönnum í þessu efni að samkomulag haldi ekki nema einhverjar mínútur. Þá er að minnsta kosti réttast að gefa manni jafnóðum upplýsingar um þegar menn hafa ráðið það við sig að svíkja samkomulag.