14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég reiknaði með því að það gæfist tóm til meiri umr. í kvöld með því að ég vissi ekki annað en að hér yrði kvöldfundur. En ég tel ástæðulaust að liggja undir því, eftir að hafa setið hér í sæti og hlustað á allar þessar fróðlegu umr. hér í dag, að ég reyni ekki að svara einhverju af því sem hér hefur komið fram. Ég ætla að einskorða mig við það sem að mér var beint.

Hér hefur verið rætt um húsnæðismálin og ég verð að segja það almennt að mér finnst hv. þm. í stjórnarandstöðu gera ákaflega lítið úr því .sem hefur verið gert í sambandi við þessi húsnæðismál að því er varðar það sem mestu skiptir fyrir fólkið í landinu. Lán hafa verið hækkuð um 50% og ríkisstj. hefur þegar útvegað fjármagn, sem fólkið er búið að fá í hendur, um 300 millj. í viðbótarlán fyrir árið 1982–1983. En sleppum því.

Ég vil byrja á því strax að svara hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við þær spurningar sem hann lagði hér fram. Hann spurði fyrst um Erfðafjársjóðinn. Ljóst er að með þeirri lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar s. l. eiga tekjur Erfðafjársjóðs að renna óskiptar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Við höfum á undanförnum árum, eins og kom fram hjá hv. þm., búið við það að komið hefur nokkur aukafjárhæð til Erfðafjársjóðs í lok hvers árs þegar uppgjör hefur legið fyrir. Ég vænti þess að svo verði einnig á þessu ári. Það var hærri upphæð til ráðstöfunar 1983 en reiknað var með í fjárlögum. Núna fer fram uppgjör á Erfðafjársjóði og erfðafjárskatti fyrir árið 1984 vegna þessara breytinga og ég get ekki sagt á þessari stundu hvað úr því kann að koma.

Í sambandi við úthlutun úr Framkvæmdasjóði fatlaðra í ár hefur stjórnarnefndin nýlega samþykkt úthlutun á því fjármagni sem hún telur sig hafa yfir að ráða sem er tæpar 62 millj. kr. Hún hefur gert till. um þessa úthlutun sem eru núna til umfjöllunar hjá viðkomandi ráðh. Ég hef þessar till. til meðferðar og mun þegar ég hef fengið allar upplýsingar gera mínar athugasemdir og að sjálfsögðu skal ég verða við þeirri ósk, sem fram hefur komið, að þegar búið er að ganga frá þessum úthlutunartill. n.félmn. Alþingis fái þær til skoðunar.

Í sambandi við fjáröflun húsnæðiskerfisins sem hv. þm. spurði um: Ég tel ekki ástæðu til að rekja hér einstaka þætti lið fyrir lið í lánsfjárlagafrv. Ef við tökum skyldusparnaðinn fyrst þá er það alveg rétt að meiningarmunur er um það hvort sú fjárhæð, sem þarna er tilgreind, skilar sér. Eins og allir hv. þm. vita fara núna milli 500–600 millj. kr. í gegnumstreymi í skyldusparnaðinum. Í nýja frv., sem er til afgreiðslu hjá Alþingi, er gert ráð fyrir að hægja á útstreymi í sambandi við skyldusparnaðinn þannig að ég á von á því að það komi betur út en þarna er um að ræða.

Um Atvinnuleysistryggingasjóðinn ætla ég heldur ekki að hafa langt mál. Ég hef sagt það áður. Ríkið er ábyrgt fyrir þeim skyldum sem á þennan sjóð eru lagðar lögum skv. Samþykki Alþingi skyldur á Atvinnuleysistryggingasjóð eins og gert er í þessu frv. verður að mínu mati ríkissjóður við það að standa.

Í sambandi við lífeyrissjóðina hefur verið vefengt að það sem er kallað í áliti minni hl. handsal hafi við rök að styðjast. Ég mótmæli þessu vegna þeirrar einföldu ástæðu að bæði hæstv. fjmrh., ég og hans embættismenn höfum haldið marga fundi með þessum aðilum og þeir hafa fallist á að þeir mundu standa við það samkomulag sem þar var gert. Ég hef enga ástæðu til að vefengja það. Ég hef látið það koma fram hér áður að á fyrstu mánuðum þessa árs, janúar og febrúar, hafa þessir sjóðir skilað um 96 millj. kr. á sama tíma sem þeir skiluðu aðeins 36 millj. kr. á s. l. ári. Strax og lánsfjárlögin hafa verið samþykkt mun verða gengið í það með skipulegum hætti að gera samkomulag við hvern einasta lífeyrissjóð fyrir sig um hvernig þeir skila þessu fjármagni það sem eftir er ársins.

Ég ætla ekki að tala um sérstaka innlenda fjáröflun. Gert er ráð fyrir því að við það verði staðið og ég hef enga ástæðu til að vefengja það mál.

Um niðurskurðinn sem hv. þm. spurði um, hvort verið væri að ákveða að veita ekki nýbyggingarlán nema til 750 íbúða: Þetta er rangt. Húsnæðismálastjórn hefur ekki endanlega gengið frá neinni lokaáætlun um árið 1984, sem ekki er eðlilegt. Það er beðið eftir þessari afgreiðslu sem hér liggur fyrir og reiknað er með 925 nýbyggingum á árinu 1984. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að við það verði staðið miðað við óbreyttar tölur sem hér eru til grundvallar.

Ég vil geta þess að í þeirri áætlun sem kemur fram í fskj. minni hl. eru ekki þær tölur sem ég hef nýjastar frá Húsnæðisstofnun í sambandi við þessa áætlun. (Gripið fram í.) Ég á við það að hér eru hærri tölur í sambandi við G-lánin en eru í nýrri áætlun frá Húsnæðisstofnun.

Við eitt atriði hér vil ég gera athugasemd áður en ég lýk máli mínu. Það er í sambandi við álit minni hl. á bls. 5 þar sem stendur:

„Í nefndinni skýrði félmrh. og frá því að bankarnir ætluðu á þessu ári að yfirtaka svokölluð framkvæmdalán Byggingarsjóðs ríkisins til byggingarsamvinnufélaga og byggingameistara sem eru áætluð alls um 125 millj. kr.“

Ég hef aldrei sagt í þessari n. að búið væri að ganga frá þessu. Ég sagði í n. skýrt og skorinort að mér, félmrh. og viðskrh. hefði verið falið að hefja viðræður við Seðlabankann og viðskiptabankana um að ná þessu takmarki eins og kemur fram í athugasemdum bæði með fjárlögunum og lánsfjáráætlun. Þessar viðræður eru hafnar og ég sagði í nefndinni að ég hefði góðar ástæður til að ætla að árangur af þessu yrði jákvæður. Það álit mitt er óbreytt enn og ég hef fyllstu ástæðu til að ætla að við náum þessu takmarki sem ríkisstj. fól okkur, að ná samningum við viðskiptabanka og sparisjóði um þetta atriði miðað við þær undirtektir sem við höfum fengið um þetta mál.

Herra forseti. Ég skal ekki eyða meiri tíma. Ég vil aðeins segja það að mín afstaða er alveg ákveðin og skýr í þessu máli. Ríkisstj. ákvað að húsnæðismálin hefðu vissan forgang. Þetta kemur fram í athugasemdum með fjárlagafrv. og frá þessu hefur engin breyting orðið í ríkisstj. Samþykkt fjárlög og lánsfjárlög, að því er varðar fjármagn til húsnæðismála, er það fjármagn sem húsnæðisstjórn hefur til ráðstöfunar 1984 og sem hún verður að byggja sínar áætlanir á. Ég tel að ríkisstj. sé skuldbundin til þess að sjá um að við það verði staðið. Þá tel ég miðað við aðstæður að nokkuð góðum áfanga sé náð í meðferð húsnæðismála hér á landi miðað við það sem hefur verið á undanförnum árum. Það geta menn séð ef þeir leggja saman tölur og bera saman við það sem hefur verið á undanförnum árum.