14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um það að þannig eigi umr. ekki að vera, að menn líti svo á til að mynda um ráðh. að þeirra sé aðeins að sitja og taka til máls og svara einungis ef svo skyldi ske að þeir væru spurðir einhverra spurninga. Ég vildi nefnilega gjarnan taka málefnalegan þátt í þessum umr. Ég var að vísu ekki hindraður í því, en truflaður með þessum hætti að mér var skýrt frá þessu samkomulagi. Að því vildi ég fara fyrir mitt leyti. En það brást, þó ekki að öðru leyti en því, að mér sýnist að við ættum að ná að ljúka þessu innan mjög skamms tíma. En ég vil enga svona samninga eins og þessa um niðurskurð, sem ég skildi, á umr. um mikilvæg mál. Ég tek engan þátt í þeim. Ég var tilbúinn til þess að sitja á fundi hér í kvöld og mun ekkert gera með, nema menn liggi á mér, einhverja samninga sem gerðir eru hér, sem ég sé ekki að hafi verið til mikils, a. m. k. í þessu falli. Ég hafði sára reynslu af því í nærri fjögur ár sem forseti Nd. Alþingis, þegar verið var að reyna að gera samninga milli þingflokka þá. Sú reynsla kennir mér, a. m. k. ef mér liggur á að fá öndinni frá mér hrundið í þeim málaflokkum sem að mér snúa, að ég geri ekkert með slíkt samkomulag — svo að menn viti það fyrir fram.