15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að rifja upp að ég hef verið ákafur formælandi þess að framkvæmdavaldið færi skýrlega og skilyrðislaust að ályktunum, að ég ekki tali um beinum samþykktum, hins háa Alþingis. Á þessu hafa oft orðið hinir mestu misbrestir, ólíðanlegir. Ég get nefnt um þetta ótal dæmi. Ég get nefnt dæmi um beina valdníðslu að þessu leyti, þar sem meirihlutaályktun Alþingis hefur verið virt að vettugi af framkvæmdavaldsins hálfu. Fyrir því er það að ekki kemur annað til mála en ég muni framkvæma og fara í hvívetna að þeim ályktunum og samþykktum sem hið háa Alþingi gerir. Það ætti að vera óþarft að taka af tvímæli að þessu leyti, en sporin hræða, fordæmin eru mýmörg og þess vegna sé ég ástæðu til að taka þetta fram, með leyfi að segja, hversu vitlausar sem ályktanirnar kunna ella að vera.

Hér er flutt till. um könnun á orsökum hins háa raforkuverðs til almennings á Íslandi, þörf till. út af fyrir sig, en ég mun nú gera grein fyrir því að ég álít að úttekt hafi þegar farið fram á þessu og fari nú um þessar mundir fram þann veg að ég tel þessa till. óþarfa.

Í fyrsta lagi gerði Orkustofnun allrækilega könnun og úttekt á hinu háa orkuverði á s. l. ári. Að vísu var sumt í þeim forsendum sem henni voru gefnar álitamál, en það kemur ekki við þessa sögu. Í júlímánuði s. l. skipaði ég orkuverðsnefnd, sem unnið hefur mikið starf með tæknilegri aðstoð að athugun á jöfnun hitunarkostnaðar þar sem úttekt á orkuverði kemur mjög víða við sögu, og mun frv. verða lagt fyrir Alþingi innan mjög skamms tíma. Í þriðja lagi hef ég skipað nefnd frá Framkvæmdastofnun, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sambandi ísl. hitaveitna til að gera sérstaka athugun og úttekt á rekstri og stöðu hitaveitna í landinu. Í fjórða lagi mun innan skamms taka til starfa úttektarnefnd á fjárhagsstöðu orkuveitnanna í landinu.

Ég vil geta þess að greiðslubyrði orkuveitnanna er gífurleg og stefnir enn hærra á allra næstu árum. Hún verður ofurþung í nokkur ár, en mun þá, í kringum 1990 getum við sagt, mjög fara dvínandi. Þess vegna hlýtur maður að beina huganum að því hvort ekki sé rétt að vinna að skuldbreytingu á þessum stórskuldum til lengri tíma. Ég býst við því að orkuverðið yrði miklu líðanlegra ef hægt væri að framlengja lánin, skuldbreyta með lengingu lánanna þó ekki væri nema í 5–7 ár, og enn, sem betur fer, er lánstraust okkar með þeim hætti að þetta ætti að vera vinnandi verk. Úttekt á stöðu mjög veigamikilla orkuþátta, eins og Kröflu, fer nú fram og væntanleg yfirtaka Landsvirkjunar á því fyrirtæki.

Ég vil enn geta þess að orkuráðherrar Norðurlanda samþykktu sín á milli að gera úttekt á orkuverðsmyndun á Norðurlöndum og samanburð á orkuverðinu í löndunum. Innan skamms er væntanleg skýrsla um niðurstöður af þessari könnun. Þar sem segja verður hverja sögu eins og hún gengur fer ekki milli mála að nú búum við við erfiðustu kostina.

Fyrir utan þetta, sem ég nú hef sagt, því ekki má skilja orð mín svo að ég hafi á móti því að rannsóknir á þessum veigamiklu og þýðingarmiklu þáttum fari fram, er till. meingölluð. Hv. þm. þurfa sérstaklega að rifja þetta upp fyrir sér. Ég tel að hún sé óljós að því leyti sem talað er um óháða sérfræðinga. Ef ég ætti að framkvæma þessa till. mundi mér fyrst fljúga í hug að hér væri átt við erlenda aðila, vegna þess að tæplega er hægt að hugsa sér að Íslandsmaður einn eða annar sé óháður orkuverðsmyndun á Íslandi. Ég vil fá útlistun á hvað hér er átt við. En megingalli þessarar till., sem gerir það að ég legg til að henni verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, er að hér er ekki tekin afstaða til þess að neinn eigi að greiða kostnaðinn sem þessu er samfara. Það fer ekkert milli mála að ef ráða ætti þrjá óháða sérfræðinga, eða nefnd sjálfsagt í þessu falli, mundi fylgja því verulegur kostnaður, enda þótt ýmislegt hafi verið unnið, mjög margt hafi verið unnið að þessari úttekt og sé í vinnslu.

Ég minni á að fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til þess að ríkissjóður greiði framkvæmd tillagna sem hafa kostnað í för með sér, sem flestar hafa, er till. óframkvæmanleg, enda geri ég ráð fyrir að hv. þm. kannist við að þegar slíkar tillögur eru bornar fram fylgir því ævinlega ákvæði um að kostnaður skuli greiddur af ríkissjóði, ef till. og framkvæmd hennar er ekki fundinn einhver annar staður hjá framkvæmdavaldinu, sem er þá gert að greiða kostnaðinn.

Að öllu þessu athuguðu, og ég játa að ég er mjög viðkvæmur fyrir því að leggjast gegn því að menn fái áhugamálum sínum framgengt, en það þarf að vera hóf á öllu, líka vegna kostnaðar, sem við þurfum alveg sérstaklega að gæta okkar á nú sem jafnan fyrr og kannske fremur nú en nokkru sinni fyrr, þá tel ég till. óþarfa. Hins vegar geri ég ráð fyrir að hægt verði að fullnægja henni og tilgangi hennar í einu og öllu á næstunni og innan þess tíma sem till. gerir ráð fyrir að niðurstaða á athuguninni liggi fyrir. Ef svo verður ekki er ég alveg tilbúinn til þess að veita brautargengi slíkri till., ef mönnum þykja þá ekki niðurstöðurnar á þá vísu sem þeir geta sætt sig við og tilgangur þessarar till. er í raun og veru. Fyrir næsta þing á þessi nefnd að hafa lokið störfum og skilað áliti. Fyrir næsta þing skal ég, ef ég ræð þar húsum, leggja fyrir ítarlegt álit um orkuverðsmyndunina á grundvelli þeirra rannsókna og úttektar sem nú fara fram. Þyki það ekki nægjanlegt er ég eins og ég segi tilbúinn til þess að veita brautargengi sérstakri úttekt á þá vísu sem hér er lagt til.

En herra forseti. Með vísan til þess sem ég hef sagt leyfi ég mér að flytja svofellda till. til rökstuddrar dagskrár:

„Þar sem ítarleg úttekt fer nú fram á öllum þáttum orkuverðs og orkuverðsmyndunar á vegum iðnrn. og nefnda á vegum þess telur Alþingi ekki þörf á að samþykkja till. þessa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þar sem þessi till. er skriflega flutt fer ég fram á, hæstv. forseti, að hann leiti afbrigða svo að hún megi koma fyrir til umr. og afgreiðslu.