13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að ræða mál sem brýnt er að Alþingi fjalli um nú strax í upphaf þinghalds, áður en hin eiginlegu þingstörf hefjast.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum hve megn óánægja, og er þá vægt til orða tekið, hefur ríkt meðal þingmanna í sumar vegna þess að þing var ekki kvatt saman fljótlega eftir kosningarnar 23. apríl s.l. Sú megna óánægja er ekki aðeins í röðum okkar stjórnarandstæðinga. Hún nær líka, fullyrði ég, langt inn í raðir stuðningsmanna þeirra hæstv. ríkisstj. sem nú situr.

Hér er um að ræða mál sem lúta að grundvallaratriðum í þeirri stjórnskipan sem við höfum kosið að búa við, lýðræði og þingræði. Hér er um að ræða mál sem lúta að reisn og virðingu löggjafarsamkomu íslensku þjóðarinnar og hér er líka um að ræða skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Ýmsum kann að finnast að þetta séu léttvæg mál að vekja máls á um þessar mundir þegar hærra ber umræðu um lífskjör og launamál. En svo er alls ekki. Lýðræðið og þingræðið, vegur, virðing og völd Alþingis eru þær meginstoðir sem þjóðskipulag okkar hvílir á. Þar má ekkert bresta. Nú er það orðið deginum ljósara að Alþingi Íslendinga mun á þessu ári aðeins sinna löggjafarstörfum í u.þ.b. 41/2 mánuð. Svo skammur hefur starfstími Alþingis ekki verið um áratugaskeið.

Ég hygg að öllum hv. þm. sé ljóst að svona getur þetta ekki gengið til. Hér verður að verða breyting á. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að nú sé tímabært að binda það í stjórnarskrá lýðveldisins að starfstími Alþingis skuli eigi vera skemmri ár hvert en 8–9 mánuðir- eða jafnvel að Alþingi starfi allt árið, geri hlé á fundum yfir hásumarið — og jafnframt að binda það að Alþingi skuli koma saman skömmu eftir kosningar. Og í framhaldi af þessu hvort hæstv. forsrh. sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að slík breyting geti náð fram að ganga.

Ég vil nú leyfa mér að styðja þetta mál mitt nokkrum fleiri rökum sem ég held að hljóti að teljast verulega veigamikil þegar um þetta er fjallað. Þinglausnir fóru fram 14. mars. Nýtt þing var kjörið í almennum kosningum 23. apríl. Það þing, sem þá var kjörið, kom fyrst saman til funda s.l. mánudag, 10. okt., 210 dögum eftir að þinglausnir fóru fram og 170 dögum eftir að nýtt þing var kjörið. Þetta held ég að hefði hvergi getað gerst á Vesturlöndum þar sem lýðræði og þingræði er í hávegum haft. Hér hefur þetta hins vegar gerst og það hlýtur að vera okkur alvarlegt íhugunarefni, ekki aðeins okkur, sem eigum hér setu á Alþingi, heldur þjóðinni allri. Í ýmsum löndum eru um það ítarleg ákvæði í stjórnarskrá hvernig þing skuli starfa. Í sænsku stjórnarskránni segir t.d. að nýkjörið þing skuli koma saman eigi síðar en 15 dögum eftir kosningar. Í Finnlandi hagar þessu þannig til að þar fara kosningar venjulega fram um miðjan marsmánuð og samkvæmt venju kemur þingið saman í fyrstu viku apríl að öllu jöfnu. Það væri hægt að rekja um þetta fleiri dæmi, en þess gerist ekki þörf því að hvergi háttar til eins og hér hefur gerst að undanförnu.

Ég held að í þessum efnum eigum við ekki lengur val, heldur verðum við að fastsetja það með ákveðnum hætti hvernig starfstími Alþingis skuli vera. Á liðnu sumri óskaði stjórnarandstaðan tvívegis eftir því við hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans að þing yrði kvatt saman. Tvívegis var þessari beiðni hafnað. Þessari beiðni, sem fól í rauninni það eitt í sér, að hér skyldi vera þingræði og að þm. fengju að gegna þeim störfum með eðlilegum hætti sem þeir voru kosnir til. Þessu kaus ríkisstj. að hafna jafnvel þó vitað væri að þessi sanngjarna krafa ætti ríkan hljómgrunn einnig meðal stuðningsmanna ríkisstj. Lýðræði og þingræði var hér látið lönd og leið og svar ríkisstj. var bara nei.

Í gagnmerkri ræðu, sem þingskörungurinn Eysteinn Jónsson flutti hér úr þessum ræðustól þann 6. nóv. 1968, sagði hann m.a. með leyfi forseta:

„Ég geri ráð fyrir að það sé fáum ljósara en mér að ríkisstjórnir búa við allmiklar freistingar í sambúð sinni við Alþingi og ríkisstjórnir ráða hér mestu um þinghaldið. Ríkisstjórnir ráða hvenær Alþingi er kvatt saman og hvenær því er lokið. Ríkisstjórnum hættir til að finnast Alþingi þreyta sig og nánast stundum helst vera þröskuldur sem þær þurfi að leggja mikið á sig til að komast yfir með það sem þær telja sig þurfa að koma í lög. Stundum var ég spurður þegar ég átti sæti í ríkisstjórn: Ertu ekki feginn að vera laus við þingið? Og sjálfsagt hef ég oft þreyttur svarað þeirri spurningu játandi og svo munu margir ráðherrar hafa gert fyrr og síðar og meint það þegar orðin féllu. En þarna er samt freistarinn á ferð og þarna er veila í þingræðiskerfinu, sem getur reynst örlagarík þessu kerfi, ef menn hafa ekki opin augu fyrir þessari hættu og vanrækja að ræða þetta nógu hispurslaust og hreinskilnislega, hvort sem menn eru í stjórnarandstöðu eða stjórnaraðstöðu. Mótvægi gegn þessum háska, að ráðh. vilji yfirleitt — af mannlegum ástæðum — vera lausir við þingið, er harla léttvægt, því að gagnrýni stjórnarandstæðinga um þetta hafa ráðherrar æði mikla tilhneigingu til að láta sem vind um eyru þjóta, og sannast sagna er það oft fremur stjórnarandstaðan sem ráðherrar eru fegnir að vera lausir við, en Alþingi að öðru leyti.“

Eysteinn Jónsson vissi um hvað hann var að tala. Hann átti sæti hér á hinu háa Alþingi í 41 ár og var löngum ráðherra, en einnig 11 ár samfleytt í stjórnarandstöðu.

Þessa 210 daga, sem liðu frá því að þinglausnir fóru fram og þar til þing kom nú saman, hefur verið stjórnað hér með tilskipunum að ofan, með einhliða valdboði. Þessa 210 daga hafa tvær ríkisstjórnir setið að völdum og stjórnað landinu með bráðabirgðalögum í krafti úreltra ákvæða sem löngu ætti að vera búið að nema úr stjórnarskrá. Ég hygg að Eysteinn Jónsson hafi m.a. átt við þetta er hann sagði í áður tilvitnaðri ræðu með leyfi forseta:

„Í starfsháttum Alþingis eru leifar frá þeim tíma er menn urðu að fara ríðandi til þings og urðu því að búa þannig í haginn um þinghaldið, að þeir þyrftu helst ekki að fara nema einu sinni á ári heiman frá sér til þingsetu.“

Á borðum okkar þm. nú eru a.m.k. níu lagafrv. frá ríkisstjórnum — frá tveimur ríkisstjórnum, til staðfestingar brbl. sem út hafa verið gefin allar götur síðan 5. apríl s.l. og núna fyrst eru að koma til kasta Alþingis.

En á þessu máli eru auðvitað fleiri hliðar, sem eru íhugunar- og áhyggjuefni, vandi sem er til orðinn vegna þessa langa óeðlilega millibils- og óvissuástands sem skapast þegar langt líður frá því að kosningar fara fram og þar til þing kemur saman. Tveir af virðulegum forsetum Alþingis tóku við ráðherraembættum þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Þeir hafa samkvæmt því verið bæði þingforsetar og ráðherrar frá maílokum til 11. okt. Hvernig getur þetta farið saman? Þetta getur ekki farið saman, svo einfalt er það mál og ætti að vera deginum ljósara. Sú staða gæti hugsanlega komið upp að forseti Sþ. sem ráðh. stæði að útgáfu brbl. sem hann ætti síðan e.t.v. að undirrita sjálfur sem einn af handhöfum forsetavalds. Og hvert erum við þá komin?

En það skal skýrt koma fram hér að ég er ekki að deila á þá einstaklinga sem hér eiga hlut að máli, forseta vora á síðasta þingi. Ég er aðeins að benda á og undirstrika í hverjar ógöngur í þingræðislegum efnum núverandi fyrirkomulag og núverandi losarabragur á þessu hefur leitt okkur.

Við getum líka vikið að öðru. Utanrmn. starfar samkv. 15. gr. þingskapa einnig milli þinga. Og þá er næst að spyrja: Hvaða þinglegt umboð hafði utanrmn. til starfa þessa 170 daga frá því að þing var kjörið og þar til þing kom saman? Enn erum við hér í ógöngum.

Nei, herra forseti, ég held að þingheimi öllum hljóti að vera ljóst að við verðum hér að gera bragarbót og það fyrr en seinna. Alþingi verður að reka af sér slyðruorðið.

Ég mun nú, herra forseti, fara að stytta mál mitt. Mig langar þó enn að vitna til þeirrar merku ræðu sem Eysteinn Jónsson flutti hér 6. nóv. 1968. Hann segir þar með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi vil ég benda á að samkvæmt þeirri venju sem skapast hefur undanfarið (þetta er mælt 1968) situr Alþingi að meðaltali u.þ.b. sex mánuði á ári svo að segja í einni lotu og er þá jólaleyfið talið með. Alþingi er því óvirk stofnun hálft árið, sex mánuði í senn, en þjóðlífið gengur sinn gang. Það stöðvast ekki þó að Alþingi haldi að sér höndum. Það þarf sífellt að taka stórar ákvarðanir, eins og hraðinn er nú orðinn í þjóðfélaginu, nýjar, stórar pólitískar ákvarðanir. Þessi starfstilhögun Alþingis, að gera sig óvirkt hálft árið í einni lotu, hlýtur að leiða til þess að fjöldi pólitískra ákvarðana, þ. á m. um löggjöfina, er tekinn án þess að Alþingi sé til kvatt. Alþingi lætur valdatauma sína liggja slaka í sex mánuði á ári og þar sem valdataumar liggja slakir tekur einhver í þá. Þróunina sjáum við í sívaxandi útgáfu brbl. um sífellt stærri málefni, og mörg af þessum brbl. eru um hin stærstu þjóðmál, og án þess að blanda nokkuð inn í þessar umræður deilum um efni einstakra brbl. þá tel ég líklegt að sum þessara brbl. hefðu tæpast hlotið lagagildi ef þau hefðu komið fyrir Alþingi sem frumvörp venjulega leið.

Alþingi hefur ekki nú öll þau áhrif í þjóðlífinu sem vera ber. Alþingi er æðsta stofnun landsins og hefur með höndum framkvæmd lýðræðisins, eins og ég sagði áðan, með þeirri starfsaðferð sem við köllum þingræði. Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþingi bæði að formi og efni og ríkisstjórnir eiga að bera ábyrgð fyrir Alþingi og vera Alþingi háðar, en ekki stýra því. Í gegnum Alþingi eiga og verða áhrif fólksins á löggjöfina og stjórn landsins að njóta sín.“

Undir þetta skal tekið. Ég veit, og það vita áreiðanlega fleiri hér, að þetta er mælt eftir mikla íhugun og eftir langa þingreynslu.

Að lokum þetta: Auðvitað mætti hafa mörg orð og þung um framferði hæstv. ríkisstj. í sumar og það sem hún hefur gert þingræðinu á Íslandi. En ég ætla ekki að gera það frekar en ég hef þegar gert. Stór orð leysa engan vanda í þessu máli. Við megum ekki slæva tilfinningu þjóðarinnar fyrir lýðræði og þingræði, en það mun gerast ef svo heldur fram sem horfir og það er hættulegt og raunar hættulegra en orð fá lýst. Ég held að við eigum aðeins einn kost nú. Við eigum þann kost að taka höndum saman, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, og leysa þennan vanda, sem okkur er á höndum, og efla þannig og styrkja lýðræði og þingræði á Íslandi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.