15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það nál. sem hér er á dagskrá hefur legið alllengi fyrir þinginu. Allir aðilar hafa þess vegna átt þess kost að bera fram brtt. hefðu þeir áhuga á. Satt best að segja undrar mig að það skuli gerast að fram komi skrifleg dagskrártillaga á elleftu stundu frá iðnrh. um þetta mál. Ég vænti þess að það sé ekki fyrirboði þeirra vinnubragða sem við muni höfð í iðnrn.

Það getur undir sumum kringumstæðum verið eðlilegt að þingið samþykki skriflega dagskrártillögu þegar verið er að afgreiða mál í miklum flýti. Hitt hlýtur að orka tvímælis, þegar sá slóðaháttur viðgengst að menn beri ekki fram tillögur tímanlega og mál hafa lengi legið fyrir þinginu, hvort réttlætanlegt er að samþykkja þá slíkar till., einfaldlega vegna þess að með því er verið að bjóða upp á þau vinnubrögð að menn þurfi ekki að leggja fram tillögur með eðlilegum hætti heldur geti komið með skriflegar tillögur á elleftu stundu.

Þá er rétt að víkja að þeim rökum sem fram koma hjá hæstv. iðnrh. Eru þau fyrst að þar sem unnið sé að þessum málum af slíkum krafti í rn. og utan þess sé ástæðulaust að Alþingi fari að álykta eitt eða neitt um þessa hluti. Og annað: að það sé hvergi gert ráð fyrir því hver eigi að greiða kostnaðinn af till. Þetta voru rökin sem fram komu. Nú fer það ekki á milli mála að þegar ríkisstj. er falið að vinna ákveðið verk er ætlast til þess að ríkissjóður greiði þann kostnað. Auðvitað getur þetta stundum skekkt á einhvern hátt þau fjárlög sem fyrir eru, en það eru nú ekki hundrað í hættunni ef skekkjuvaldar eru ekki stærri en þær þáltill. sem fara í gegnum Alþingi. Ég hygg að þá væri ríkisreikningurinn býsna nálægt fjárlögum ef þannig væri ávallt að málum staðið.

Ég vil aftur á móti vekja athygli á því, að þm. kvarta talsvert undan því að þegar þeir beri fram lagafrv. bregðist rn. við á þann hátt að þau láti beint og óbeint túlka þá skoðun sína að verið sé að endurskoða þetta mál, það sé nefnd í þessu máli sem eigi að koma með tillögur, og þannig er reynt að ýta oft ágætum málum til hliðar. Það er einnig svo að sjá sem ráðherrum sumum hverjum finnist það ærin vanvirða við sinn heilagleik, skulum við segja, ef Alþingi dirfist að senda þáltill. í þeirra hendur, jafnvel þó þeir lýsi því yfir hér í stólnum með fullri vinsemd, að þeir muni nú fara eftir þessu ef til komi. Og vissulega er það jákvætt, jafnvel þó mönnum renni í skap. En ég hygg að það sé ekkert vafaatriði að almenningur í landinu vill fá í hendur eitt skjal sem gefur á því fullnægjandi skýringar hvers vegna raforkuverðið er jafnhátt og raun ber vitni.

Það hefur orðið hér deiluefni að talað er um óháða sérfræðinga. Auðvitað erum við með því að segja að við ætlumst ekki til þess að þeir sérfræðingar sem til séu kvaddir séu á launaskrá hjá þeim fyrirtækjum sem selja þessa orku eða hafa staðið að hönnun mannvirkjanna.

Við ætlumst til þess að þeir sem hér fjalli um þurfi ekkert að fela. Það er nefnilega mergurinn málsins. Telur hæstv. iðnrh. að hér þurfi eitthvað að fela? Ef svo er skil ég mætavel hvers vegna hann vill fá að ráðskast með það sjálfur hverja hann setur til að yfirfara þessi mál.

Ég heyri óljósan klið út undan mér og ber það við stundum þegar menn hugsa upphátt. En hvað um það. Þessi till. mun koma til atkv. hér í þinginu og ég vil vekja á því athygli að það eru fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem skrifa undir hana. Enginn þeirra óskaði eftir frestun málsins í nefndinni sem ég hefði að sjálfsögðu orðið við. Að ofansögðu finnst mér það ákaflega sérstætt að ráðh. skuli á elleftu stundu leggja slíkt ofurkapp á það að koma till. fyrir kattarnef. Það verður svo að koma í ljós hver vilji þingheims er í atkvgr. — Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri.