15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hversu menn geta vafið tungu um höfuð sér út af léttvægum málum og einföldum. (ÓÞÞ: Léttvægum?) Já, og einföldum. (Gripið fram í.) Af minni hálfu er málið ekki stórvægilegt og það hefur ekki verið sótt af neinu ofurkappi af mér að fá samþykkta mína till. um að málinu verði vísað frá, ekkert ofurkapp á það lagt. Og það hefur verið farið fullkomlega að þingsköpum. Ég hafði ekki ráðið það við mig fyrr en núna rétt í þessu að bera slíka frávísun fram, ekki endanlega. Það fékk ekki undirtektir í samstarfsflokki Sjálfstfl. að gera þetta, svo að ég hef gengið að því sem vísu að þessi till. næði ekki fram að ganga, því að stjórnarandstaðan er alltaf viðbúin að samþykkja allar vitleysur sem fram eru bornar, sér í lagi ef hún heldur að það þjóni því markmiði að standa í ístaðinu sem stjórnarandstaða. Ég óska hv. 5. þm. Vestf. til lukku með það ef það skyldi verða. (Gripið fram í.) Till. mín var skrifleg og það er hægt að fá eins langan frest á afgreiðslu hennar og umr. um hana og menn óska. Hér er ekkert mínútumál á ferðinni og allra þingskapa hefur í hvívetna verið gætt.

En hv. 5. þm. Austurl. varpaði til mín þeirri fsp. hvenær vænta mætti frv. til l. um jöfnuð húshitunarkostnaðar, eins og það hefur verið nefnt, sem ég boðaði í lokaumræðu um fjárlög rétt fyrir jól að lagt yrði fram fyrstu daga eða með fyrsta falli eftir að þing kemur saman á nýjan leik. Ég vænti þess að málið verði lagt hér fyrir í næstu viku. Hann spurði einnig hvað hefði valdið þeim töfum. Það er frá því að segja að ýmislegt nýtt kom fram í málinu, sem menn vildu leggja aukna áherslu á, eins og um einangrun húsa, um orkusparnað og aðra þætti málsins. Þetta er viðamikið mál og sitt sýnist hverjum. Það hefur verið unnið að því að samræma sjónarmiðin og ég vænti þess að málið komi á borð hv. Alþingis í næstu viku.

Ég lagði fyrir rök mín í þessu máli og þau voru afar einföld. Þess vegna þurfa menn ekki að rjúka upp með andfælum og þykjast ekki skilja hvað átt sé við. Ég taldi upp hér í einum fimm atriðum hvers vegna ég teldi ekki þörf á þessari till. nú. Menn meta það að vild sinni og sanngirni hversu þungbær þau rök eru og taka þess vegna málefnalega afstöðu til þess að sinni eigin vild auðvitað. En ég bætti því við að ef mönnum sýndist málið ekki nægjanlega útlistað, til að mynda fyrir næsta reglulegt Alþingi, á sama tíma og gert er ráð fyrir að tillögunefndin skili áliti sínu, þá mundi ég verða fyrstur manna til að veita fylgi úrbótum, t. d. till. um að kjósa slíka nefnd, sem gengi þá milli bols og höfuðs á verkefninu, ef svo má að orði komast. En tal hv. 5. þm. Vestf. um að ráðh. litu svo á að það væri einhver vanvirða við þá að hið háa Alþingi gerði ályktanir um hvað eina ef því svo byði við að horfa er auðvitað fáránlegt tal út í hött. Svona tal væri verjandi yfir fólki í barnaskóla og það er kannske það sem hann hefur ekki getað vanið sig af.

Ég tók það einmitt fram að ég mundi, vegna fyrri sárrar reynslu, í hvívetna fara að þeim ályktunum sem Alþingi þóknaðist að gera. Ég hef orðið fyrir harkalegri valdníðslu af hálfu framkvæmdavaldsins sem þm. Það ætla ég aldrei að láta henda mig. Og að láta sér detta það í lifandi hug að ég taki því ekki sem sjálfsögðum hlut ef meiri hl. hér hafnar þessari aðferð minni að vísa till. frá, skárra væri það nú. Nei, ég tók það einmitt fram að ég mundi í hvívetna fara að ályktunum Alþingis. Og ég er alveg tilbúinn að líta svo á að ríkissjóði sé ætlað að greiða þann kostnað sem verður af starfi þessarar nefndar ef kosin verður. En það er alveg föst regla að kostnaðartillögur, fyrst og fremst ef um verulegan kostnað er að tefla, hljóti tvær umr. í Sþ. Flestallar till. hafa einhvern kostnað í för með sér, þannig að eftir þessu hefur ekki verið farið nema þegar um verulegan kostnað hefur verið að ræða. Það er alveg nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til þess um leið að ríkissjóður borgi kostnaðinn sem af samþykktinni hlýst. Og ég ætla aðeins að taka fram að ég mun beita mér fyrir því að þessari till. verði vísað til n. aftur til þess að a. m. k. þetta atriði verði lagfært, vegna þess að ég ætta ekki að leggjast á nein tog við fjárveitingavaldið um það að greiddur verði kostnaður af þessari till. ef hið háa Alþingi samþykkir, enda er það ekki ofverkið að taka um leið fulla og einarða afstöðu til þess að risið verði undir þeim kostnaði sem af starfsemi sem þessari hlýst.

Þess vegna, herra forseti, fer ég fram á það, án þess að flytja um það formlega till., að máli þessu verði vísað aftur til hv. allshn. til þess að hún taki þetta málskot mitt til umr. og athugunar, að ef Alþingi vill ekki samþykkja till. mína um að vísa málinu frá, þá verði það alveg án tvímæla tekið fram í tillögugreininni að kostnaður þessu samfara verði greiddur úr ríkissjóði.

Það kann vel að vera, eins og hv. 5. landsk. þm. tók fram, að það sé fátítt að ráðh. leggist gegn till. sem hefur hlotið afgreiðslu úr nefnd og, eins og þar segir, með einróma samþykki. Mig varðar ekkert um hvað er hér hið algenga í málatilbúnaði. Ég hef þessa afstöðu til málsins og hlýt þess vegna að lýsa henni án allra vífilengja. Og menn þurfa ekkert að reka upp stór augu þótt menn fari að þeim rökum sem þeim sýnast hníga til mála.