15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mótmæli harðlega þeirri málsmeðferð sem hér er í frammi höfð. Þessi till. til þál. og nál. það sem henni fylgir er annað af tveimur málum sem hafa verið afgreidd úr hv. allshn. Sþ. í vetur. Við gerðum það eftir mjög vandlega yfirferð og vorum mjög vel meðvitandi um hvað við vorum að gera. Ég a. m. k. lýsi því yfir að ég sé enga ástæðu til að fara að vinna það verk aftur. Ég þykist hafa skrifað undir þetta nál. að vandlega athuguðu máli og ég held að það megi segja um aðra nm. Þess vegna skil ég hreinlega ekki þessa beiðni um að vísa málinu aftur til nefndarinnar.

Svo er annað athyglisvert. Þau eru örfá mál stjórnarandstöðunnar sem koma hér inn í þingið frá nefndum. Þau eru ekki mörg. Ætli þau tvö mál sem allshn. Sþ. hefur afgreitt séu ekki nær þau einu á þessi þingi? Og þegar þau birtast á útmánuðum og þingi lýkur innan tíðar standa hæstv. ráðh. ríkisstj. og neita um að greiða atkvæði um málið, þó að fulltrúar allra flokka hafi orðið sammála um að leggja málið fyrir þingið. Annað eins og þetta hef ég ekki upplifað enn þau fimm ár sem ég hef setið hér á þingi. (Iðnrh.: Hver neitar um að greiða atkvæði?)

Hæstv. ráðh. spyr: Hver neitar um að greiða atkvæði? Það er nú nokkuð til dansleiks, sýnist mér, og við höfum nógan tíma til að greiða hér atkvæði. Af hverju skyldi hæstv. forseti hafa beðið um frest á málinu? Skyldi það nú ekki hafa verið að einhvers undirlagi? (Iðnrh.: Þm. sagði að ráðh. stæðu upp hér og neituðu að greidd yrðu atkvæði.) Já. Ætli beiðni um frestun hafi ekki verið að undirlagi ráðh., og þykir mér nú stungin tólg ef svo er ekki.

Ég vil mótmæta þessu og stórlega undrast þessi vinnubrögð. Það sýnist vera niðurstaðan að sama er þó að nefndirnar reyni nú að koma frá sér einhverjum málum, þau eru einfaldlega stöðvuð á hv. þingi. Þessu vil ég mótmæla.