15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3789 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, að ítreka hér mjög skýrt að í því sem hér hefur verið sagt felst ekki minnsta gagnrýni á ákvörðun forseta þingsins. Hann á allt gott skilið en vandræði hans eru augljós. Það er tvennt sem ég vil benda á. Hér í salnum, þar sem eiga að sitja 60 þm. eru nú staddir fimm stjórnarþm. og hefur nú fjölgað um tvo síðan ég tók til máls, þá voru þeir þrír.

Ég vil líka benda hv. þingi á að fyrir Alþingi Íslendinga liggja nú — (Gripið fram í: Þú hefur ekki talið rétt.) Það gerði ég, hv. þm. Á Alþingi Íslendinga hafa nú verið lögð fram 249 mál. Það mál sem hér er á dagskrá er 2. mál þingsins. Ég held því að ég hljóti að verða að ætla að hæstv. iðnrh. hljóti að hafa haft ærinn tíma til þess í fyrsta lagi, að koma með brtt. við umrædda þáltill. Síðan var nál., samróma samþykkt í allshn., lagt fram á þingi 9. febr. Í dag er dánardagur Caesars, minnir mig, 15. mars. Þannig að ef rösklega er unnið í iðnrn. hefði hæstv. ráðh. gefist ærinn tími til að leggja fram skriflega till. með nokkrum fresti þannig að ekki þyrfti að draga upp munnlega og síðan niðurhripaða till.

Ástæðan er alveg augljós og það er okkur öllum hér inni ljóst. Ráðh. vildi yfir höfuð alls ekki að þetta mál yrði tekið á dagskrá. Það er búið að vera á prentaðri dagskrá í rúman mánuð og hafa verið fundnar alls konar afsakanir fyrir því að afgreiða það. Þegar ljóst var að átti að afgreiða það er rokið upp með slíka till. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, hæstv. iðnrh. og ég, sem bæði virðum þinglega meðferð mála, að þetta eru ekki vinnubrögð sem þinginu eru sæmandi.