15.03.1984
Sameinað þing: 66. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

Um þingsköp

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað útúrsnúningur að ég hafi beðið eftir vitneskju um afstöðu þingflokks Framsfl. í þessu máli. Ég tók skýrt fram að mér hefði verið kunnugt um að ekki var samkomulag um þessa afstöðu til þessa máls innan þingflokks Framsfl. En ég tók einnig fram að ég hefði ekki ráðið það við mig til fullnustu fyrr en nú á síðustu stundu að flytja þessa frávísunartillögu. Að standa hér upp og halda því fram að hér hafi verið óvenjuleg vinnubrögð höfð í frammi er einkennileg tilfyndni af manni sem hefur þó margsinnis verið viðstaddur t. a. m. afgreiðslu fjárlaga. Að fara kurteislega fram á að n. taki til athugunar atriði sem bersýnilega er fingurbrjótur í afgreiðslu þessarar till., að finna sér það líka til, það er einkennitegur málflutningur.

Menn bera fram tugum saman till. sem þarf að leita sérstakra afbrigða við. Í þau 13 ár, sem ég hef átt sæti á þessu háa Alþingi, hefur það hent í öðru hverju máli ef upp hefur komið að menn hafi þurft að koma við leiðréttingu, þó ekki væri meira, að menn hafi þurft að biðja um afbrigði fyrir tillöguflutningi sínum. Nákvæmlega ekkert er óeðlilegt við neitt í þessum fundarsköpum. Hér standa menn uppi og gagnrýna hæstv. forseta sem rekur auðvitað ofan í þá jafnóðum staðreyndir málsins, að hann fer fullkomlega eðlilega að með málið og meðferð þess fullkomlega eðlileg af hans hálfu og mín einnegin.

Ég verð að segja eins og er: Hvaða læti eru þetta eiginlega? Ef þetta er einn þátturinn í því að hefja hér málþóf, sem Alþb. hefur gert sig bert að, er ég alveg tilbúinn í það og biðst engrar vægðar og við þurfum ekkert að leita til Alþb. um framgang mála hér. Við munum þá láta Alþingi standa eins lengi og verkast vill. Við látum ekkert bjóða okkur þessar upphrópanir og hótanir sífelldlegar eins og maður mætir hér. Það er alveg ástæðulaust að taka við þeim, við höfum alveg nægan mannafla til þess að koma þeim málum fram sem við verðum ásáttir um. Og það skulu menn fá að sjá.

Hæstv. forseti. Ég stytti nú mál mitt en ég ítreka það að hér hefur verið farið í einu og öllu að fullkomlega eðlilegum þingsköpum. Allar upphrópanir og málskot, sem menn hafa haft í frammi af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, eru gersamlega út í hött.