31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

45. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum. Í frv. þessu er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum um 4 400 sérstök dráttarréttindi og leggja fram 10% þeirrar fjárhæðar eða 440 þús. SDR, sem samsvarar 13 millj. kr. miðað við gengisskráningu í lok septembermánaðar.

Gert er ráð fyrir að greiða þurfi 110 millj. kr. SDR á hverju ári 1984–1986 eða þessar þrjár greiðslur, sem nema samtals um 9.7 millj. kr. Auk þess kemur til greiðslu vegna Íslands úr varasjóði bankans að upphæð 110 millj. SDR.

Aukning hlutafjár í Norræna fjárfestingarbankanum er liður í tvöföldun hlutafjár bankans, sem tók til starfa á árinu 1976. Er aukning hlutafjárins talin nauðsynleg til að halda áfram hinni jákvæðu lánastarfsemi bankans, er, hlutverk hans er sem kunnugt er að veita lán og ábyrgðir með það í huga að hrinda í framkvæmd fjárfestingaráformum og efla útflutning í þágu Norðurlandaþjóðanna.

Norðurlandaráð og ráðherranefnd Norðurlanda fjölluðu um mál þetta fyrr á þessu ári og á s.l. ári og samþykktu fyrir sitt leyti till. stjórnar bankans um aukningu hlutafjárins. Heimildir bankans til lánveitinga eru 2.5 sinnum hlutafé hans, þannig að við aukningu hlutafjárins fara þær úr 1000 millj. í 2000 millj. SDR, en sú hækkun samsvarar 29.4 milljörðum.

Hlutur Íslands í aukningu hlutafjár bankans er 1.1%, en það er hin almenna hlutdeild Íslands í kostnaði við norrænt samstarf. Til ársloka 1982 var hlutur Íslands í fjárfestingarlánum bankans hins vegar talinn 7% eða 42.1 millj. SDR. Auk þess hefur bankinn veitt byggðalán til Íslands, sem nemur 9.6 millj. SDR. Lánin til Íslands nema því samtals 51.7 millj. SDR eða 1525 millj. kr. Þyngst vega fjárfestingarlán til Landsvirkjunar vegna Hrauneyjafossvirkjunar og til Íslenska járnblendifélagsins hf., en af öðrum lánum má nefna fjárfestingarlán til Ísnó hf., sem rekur laxeldisstöð að Lóni í Kelduhverfi, og byggðalán til Iðnþróunarsjóðs.

Af því sem ég hef nú sagt má sjá að starf Norræna fjárfestingarbankans er dæmi um norrænt samstarf sem komið hefur að góðu gagni fyrir okkur Íslendinga.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.