19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef þegar fjallað um þetta mál við 1. umr. og ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði þá eða við álitsgerð minni hl. iðnn. sem Skúli Alexandersson, hv. þm. Vesturl., gerði grein fyrir rétt áðan. Ljóst er að sala þessa fyrirtækis er bæði óþörf og óeðlileg. Þarna er verið að sundra samstarfi tveggja fyrirtækja, sem átt hafa ágæta samvinnu sín í milli og eiga saman að öllu eðlilegu, um leið og fyrirtækið er selt með óeðlilegum kjörum, á verði sem er bersýnilega undir raunvirði og útborgun engin og veð ófullnægjandi.

En satt best að segja eru það þó kannske alveg sérstaklega vinnubrögðin sem vakið hafa upp gagnrýni á þessa málsmeðferð. Ég vil aðeins upplýsa hv. alþm. um það að á undanförnum vikum hafa væntanlegir eigendur — þeir eru ekki orðnir það enn þá, ekki fyrr en Alþingi hefur samþykkt málið — framkvæmt verulegar breytingar á húsnæði verksmiðjunnar, viðbætur sem að sjálfsögðu verða ekki aftur teknar og það án þess að vera formlegir eigendur fyrirtækisins. Það sýnir kannske betur en flest annað hvernig Alþingi er stillt upp í þessu máli að áður en eignaskipti eiga sér stað, áður en Alþingi fær tækifæri til að ganga frá málinu eru hafnar stórfelldar framkvæmdir í verksmiðjunni á vegum væntanlegra eigenda þannig að Alþingi stendur í raun og veru frammi fyrir gerðum hlut.

Ég tel að bæjarstjórn Siglufjarðar hafi verið sýnd mikil vanvirðing með því að ekkert samráð var haft við hana áður en mál þetta var frágengið af hálfu iðnrn. Ég tel að stjórn Siglósíldar sem er þingkjörin stjórn hafi einnig verið sýnd mikil vanvirða með því að iðnrn. og iðnrh. létu ekki svo lítið að hafa einhver minnstu samráð við stjórnskipaða nefnd sem fjallað hefur um mál verksmiðjunnar á undanförnum árum og þekkir málið sérlega vei. En mest vanvirða er þó gerð Alþingi með því að áður en formleg eignayfirfærsla á sér stað fær væntanlegur eigandi sem ætti að forminu til ekki að vera neitt öruggur um að fá verksmiðjuna í hendur, að gera stórfelldar endurbætur sem eru þess eðlis að hann mundi aldrei ná sínum fjármunum til baka ef ekkert yrðu úr sölunni. Þetta tel ég málsmeðferð sem ekki er við hæfi. Er þar ekki öðru við að bæta en því að ég mæli auðvitað mjög eindregið með því að mál þetta verði fellt.