19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3797 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Frv. til breytinga á gildandi tekjuskattslögum vegna álagningar ársins eru seint á ferð. Hér er verið að afgreiða frv. sem varðar skattprósentur og kominn 19. mars. Í Nd. eru svo önnur frv. sem varða álagningu á atvinnurekstur og eiga sjálfsagt enn nokkuð í land. Vissulega er það ekki í fyrsta sinn að breytingar á skattalögum vegna álagningar ársins eru seint á ferð. Það hefur komið fyrir áður. En yfirleitt hafa verið þær aðstæður sem réttlætt hafa að svo seint væri gengið frá meginatriðum skattálagningar ársins.

Skattalög fyrir árið 1980 voru seint á ferð, bæði vegna þess að ríkisstj. var þá ekki mynduð fyrr en í febrúarmánuði og þá átti að leggja skatt á í fyrsta sinn eftir nýjum skattalögum. Skattbreytingar voru einnig seint á ferð árið 1981, en þá var verið að endurskoða ýmis atriði skattalaganna í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hafði við fyrstu álagningu og var kannske réttlætanlegt að þetta tæki nokkurn tíma og Alþingi væri seint á ferð með endanlegan frágang skattalaga. Annars hefur það verið reglan, burtséð frá undantekningarástandi af því tagi sem ég hef nú lýst, að skattalög hafa legið fyrir þegar framtalsfrestur hefur runnið út og menn hafa vitað með hvaða hætti yrði lagt á þegar þeir skiluðu framtölum. Ég fæ ekki séð að ríkisstj.-flokkarnir hafi neina sérstaka afsökun fyrir því að vera svo seint á ferðinni með afgreiðslu skattalaga nú. Ég held að ekki sé hægt að benda á neinar sérstakar aðstæður sem valdi því að menn séu að afgreiða skattprósentur og aðrar grundvallarforsendur skattálagningar seinast í marsmánuði. Og sannarlega er hér ekki stjórnarandstöðu um að kenna, því að við höfum mjög hvatt til þess, m. a. í fjh.- og viðskn., að sem fyrst yrði gengið frá þessum málum og lýst okkur albúna til að hraða meðferð málsins þegar þar að kæmi. Stjórnarflokkarnir hafa bara einfaldlega ekki komið sér saman um þessi mát. Það hefur staðið í þófi þeirra á milli núna vikum saman um það grundvallaratriði hvort ætti að hækka skatta enn frekar en orðið er við endanlega afgreiðslu málsins. Því að það er einmitt kjarninn í till. fjh.- og viðskn., sem lagðar eru fram að þessu sinni, að verið er að hækka skattprósentur frá því sem var þegar Nd. afgreiddi frv. Síðan á Nd. að fá málið aftur til meðferðar eftir að við höfum afgreitt það hér og leggja endanlega blessun sína yfir það.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að skv. útreikningum Reiknistofnunar Háskólans og ríkisskattstjóra verður verulegur fjöldi launafólks fyrir ýmist nokkurri eða mjög verulegri skattþyngingu skv. þeim tillögum meiri hl. fjh.- og viðskn. sem lagðar voru fram í Nd. og skv. frv. eins og það var afgreitt frá þeirri deild. Hér á svo enn að bæta við því að gerð er till. um að allar skattprósenturnar hækki um 1/2–1%. En á sama tíma eru lagðar fram tillögur og gerðar breytingar hér í þinginu sem miða að því að lækka skatta á fyrirtæki. Bæði felst það í þeim tillögum sem hér eru til umr. að skattprósenta fyrirtækja í tekjuskatti verður aðeins 51% og í öðru lagi eru til meðferðar í þinginu verulegar skattalækkunartillögur sem þegar hafa verið afgreiddar frá Ed. og eru nú til meðferðar í Nd.

Ég þarf naumast að taka það fram að við, sem skipum minni hl. fjh.- og viðskn., erum alfarið andvígir því að skattprósentur verði nú enn hækkaðar þannig að um verði að ræða enn frekari skattþyngingu á verulegan fjölda launafólks umfram það sem fólst í frv. eins og það var lagt fyrir deildina.

Við leggjum jafnframt til að álagningarprósenta á félög og fyrirtæki, sem rekin eru í félagsformi, verði áfram hin sama og hæsta jaðarprósenta tekjuskatta á einstaklinga verður skv. till. okkar, en þannig hefur verið frá mátum gengið að undanförnu, þá á ég við undanfarin ár, að fullt samræmi hefur verið í hæstu jaðarprósentu á einstaklinga annars vegar og þeirri prósentu sem hvílir á félögum. En jafnframt leggjum við til að skattbyrði einstaklinga verði létt sem sömu fjárhæð nemur. Skv. þessu yrðu prósentur á skattstiga einstaklinga 22.75% í neðsta þrepi, sem er það sama og var í frv. þegar Nd. afgreiddi það, 29.75% í miðþrepinu í staðinn fyrir 31.5%, sem meiri hl. leggur til, og síðan 45% í efsta þrepi, en það er það sama og meiri hl. leggur til. En jafnframt gerum við það að tillögu okkar að álagningarprósenta á félög verði 59% í staðinn fyrir 50% sem er till. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Auk þess leggjum við til að reynt verði að milda áhrif af tekjumissi vegna atvinnubrests eða sérstaks tekjubrests vegna t. d. aflasamdráttar. Er sú till. á þskj. 463 þar sem brtt. minni hl. eru allar saman komnar. Það er 2. liður þar sem segir: „Á eftir 2. gr. komi ný gr. er verði 3. gr. og orðist svo: Á eftir 6. tl. l. mgr. 66. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðist svo: 7. Ef gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna atvinnuleysis, aflabrests eða af öðrum skyldum orsökum.“

Eins og kunnugt er má lækka tekjuskatt, eftir að hann hefur verið á lagður, vegna ýmissa utanaðkomandi orsaka, t. d. ef maður verður fyrir einhverju alvarlegu áfalli, hann leggst sjúkur, tekjur hans detta niður af einhverjum óvenjulegum ástæðum, hann hefur misst maka sinn eða eignast maka eða orðið fyrir einhverjum þeim breytingum á heimilisaðstæðum sem valda því að hann á erfiðara með að greiða tekjuskatt. Hér er sem sagt sú till. gerð að einnig sé heimilt að lækka tekjuskatt ef gjaldþol mannsins hefur skerst verulega vegna atvinnuleysis, aflabrests eða af öðrum skyldum orsökum. Ákvæði þessa efnis er ekki í gildandi lögum.

Að lokum vil ég taka fram að seinasta till. okkar gengur út á það að rétta hag hinna allra verst settu í þjóðfélaginu með því að persónuafsláttur verði gerður greiðanlegur, ef svo má til orða taka, en eins og kunnugt er má ekki nota persónuafslátt til hagsbóta fyrir þann sem hann fær nema að vissu marki. Hann er auðvitað í fyrsta lagi notaður til að lækka tekjuskatt og síðan má nota hann í ákveðinni röð til að lækka aðrar opinberar greiðslur, til að lækka útsvar, til að lækka sjúkratryggingagjald, til að lækka eignarskatt og nokkra aðra skatta. En hér er gerð till. um það, að ef persónuafslátturinn nýtist mönnum ekki til lækkunar á greiðslu opinberra gjalda yfirleitt, þá falli þessi búbót ekki með öllu niður, eins og nú er, heldur verði þá heimilt að vissu marki að greiða persónuafsláttinn út. Það er engin sanngirni í því að allir njóti persónuafsláttar nema þeir sem hafa svo lítil gjöld og svo litla skatta að þeir geta ekki notað hann. Það eru auðvitað alveg sérstaklega þessir aðilar sem þurfa á persónuafslættinum að halda og í raun og veru furðulegt (LJ: að þetta skuli ekki hafa verið framkvæmt í tíð fyrrv. ríkisstj.) að þetta skuli ekki hafa verið framkvæmt fyrr, í tíð fyrrv. fjmrh. eða enn fyrr, því að hér er um augljóst réttlætisatriði að ræða. En vegna ábendinga hv. þm. Lárusar Jónssonar vil ég taka það fram að fullt samkomulag var um það að stíga þar nokkra áfanga í réttlætisátt í tíð seinustu ríkisstj. Upphaflega var það svo að persónuafslátturinn var eingöngu nýttur til þess að lækka tekjuskattinn og það var t. d. stigið það spor í tíð síðustu ríkisstj., og það mun vera seinasta breyting sem á þessu var gerð, að það mátti nýta persónuafsláttinn til lækkunar á eignarskatti. Þetta var gert með sérstöku tilliti til þess að margt aldrað fólk á íbúðir og greiðir því hugsanlega eignarskatt. Það á skuldlausar eignir en hefur engar tekjur. Það var því sanngirnismál að þetta fólk nyti persónuafsláttarins til þess að greiða niður eignarskattinn, enda hefur þetta fólk yfirleitt engar tekjur til þess.

Hér er hins vegar lagt inn á nýja braut, sem ekki var út af fyrir sig samkomulag um í tíð seinustu ríkisstj. í þessu formi, en var þó framkvæmt í öðru formi. Hérna er í raun og veru um að ræða einhvers konar neikvæðan tekjuskatt. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Lárus Jónsson, sem hér kom með smáábendingu, minnist þess að í tíð seinustu ríkisstj. voru teknar upp launabætur, greiðslur úr ríkissjóði til þeirra sem höfðu lágar tekjur. Það má því segja að þar hafi verið stigið mjög hliðstætt spor eins og við leggjum til að verði stigið með þessu, þ. e. að tekinn sé upp neikvæður tekjuskattur sem ríkið greiðir út vissum hópi skattgreiðenda sem hafa svo lágar tekjur að þeir nýta ekki persónuafsláttinn. Ég vil þó taka það fram að hér er gerð till. um að þessi útgreiðsla næði að hámarki til hálfs persónuafsláttar og einungis til þeirra sem væru yfir tvítugt og störfuðu ekki við eigin atvinnurekstur skv. nánari skilgreiningu, en áætlað er að sú fjárhæð sem hér um ræðir sé um 220 millj. kr. Ég vil að öðru leyti vísa til brtt. sem er sú 3. á þskj. 463.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera hér frekari grein fyrir till. minni hl. fjh.- og viðskn. Segja má að meginstefnan í þeim öllum sé sú að ríkisvaldið komi til móts við þá þegna þjóðfélagsins sem lágar tekjur hafa og á hinn bóginn að fyrirtæki og atvinnurekstur greiði hærri skatt en gert er ráð fyrir í tillögum meiri hl.

Í Nd. urðu nokkrar umr. um útgáfu skattskrár. Minni hl. fjh.- og viðskn. flutti í Nd. till. þar sem tekin voru af öll tvímæli um að útgáfa skattskrár væri bæði heimil eftir að álagning hefði farið fram og eins eftir að endanlega hefði verið gengið frá skattaálagningu, kærur teknar til meðferðar, úrskurðaðar og endanlegur skattur þar með á lagður. Mér er sagt að talsmenn ríkisstj. hafi haldið því fram að sú lagagr. sem samþykkt var í Nd. væri að efni til þess eðlis. En hún er þannig, með leyfi forseta:

„Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“

Með hliðsjón af þeim yfirlýsingum, að það orðalag sem hér um ræðir útiloki ekki að gefin sé út skattskrá strax og álagning hefur farið fram, sáum við ekki ástæðu til að endurtaka þann tillöguflutning. En ég vil nota þetta tækifæri persónulega til þess að lýsa yfir þeirri skoðun minni að það beri og það eigi að.birta opinberlega upplýsingar um álagningu skatta strax og álagning hefur farið fram, því að það er tómt mál að tala um það, að birting skattskrár kannske hálfu eða einu ári eftir að álagning fer fram veki nokkurn áhuga almennings eða umr. eins og skattskrá á að gera og þarf að gera. Við þurfum á því að halda að almenningur hafi vakandi auga með því hvernig skattaálagning á sér stað og láti í ljós tilfinningu sína fyrir því hvort álagningin hafi verið réttlát eða ranglát. Allar tilraunir til að koma í veg fyrir það að almenningsálitið geti látið í sér heyra eftir að hafa kannað skattálagninguna eru fráleitar. Alþingi ber alveg hiklaust að tryggja það að útgáfa skattskrár eigi sér stað strax eftir að álagning fer fram. Það er von mín að þessi skilningur sé almennur hér á Alþingi og að ríkisstj. hafi í huga að framkvæma það ákvæði sem hér um ræðir á þennan veg.