19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég stend að því minnihlutaáliti, sem hér hefur verið kynnt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur gert ítarlega grein fyrir hér, og ég ætla ekki að endurtaka neitt af því sem hann sagði. Hins vegar finnst mér ástæða til að fagna þeirri yfirlýsingu sem hv. 9. þm. Reykv. gaf hér varðandi afstöðu sína gagnvart þeirri skattahækkun sem hér er til umr. Það verður að segjast eins og er að þetta er ekki aðeins, eins og hann orðaði það, óviðfelldið, heldur er þetta eins og kjaftshögg framan í launþega sem nýbúnir eru að gera samninga og er síðan tilkynnt hér af hæstv. ríkisstj. að þar sem þessir samningar hafi orðið launþegum nokkru hagstæðari en reiknað hafði verið með í öllum forsendum skuli skattar hækkaðir sem því nemur þannig að menn séu jafnilla staddir eftir sem áður. Þetta er kjarni málsins. Þess vegna höfum við í minni hl. flutt tillögur um að þessar prósentur verði óbreyttar. Þetta er auðvitað það sem máli skiptir. Menn náðu hagstæðari samningum en reiknað hafði verið með, þó ekkert tiltakanlega hagstæðum, og á þeirri forsendu á nú að seilast lengra og dýpra ofan í vasa skattborgaranna en áður hafði verið fyrirhugað. Það eru meginatriði málsins.

Það er líka hverju orði sannara og réttmætt að heldur óviðfelldið er að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur þessa umr., en svo sem fram hefur komið mun hann vera í ræðustól í Nd. eða a. m. k. hafa verið áðan. Það hefði verið fullkomin ástæða til þess að doka lítillega við með þessa umr. og fá að heyra svör hæstv. fjmrh. og hvað hann um það segir að nú skuli hækkaðir skattar. Hann er, eins og hér hefur réttilega verið bent á, margbúinn að gefa þær upplýsingar að hann muni ekki standa að neinum skattahækkunum. Sömuleiðis hefur hann spurt sem svo í fjölmiðlum, og ég held að ég muni það orðrétt og vitna til þess, með leyfi forseta, þegar hann var spurður um hvort hann hygðist standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði gefið um að hann mundi segja af sér frekar en standa að skattahækkunum: Hefur þú nokkurn tíma vitað til þess að ég stæði ekki við það sem ég hef sagt? Það er eiginlega tími til kominn að einhver taki sig til og safni saman þeim yfirlýsingum sem hæstv. fjmrh. hefur gefið á Alþingi og í fjölmiðlum frá því að hann tók við sínu virðulega embætti á vordögum á s. l. ári. Það yrði sannarlega fróðleg lesning. Þar rekur sig ekki aðeins eitt heldur rekur sig allt á annars horn, ef þannig má til orða taka.

Ég vil mælast til þess við virðulegan forseta þessarar deildar að þessari umr. verði nú ekki lokið fyrr en við höfum heyrt hverju fjmrh. svarar þeim spurningum sem hér hefur verið til hans beint og mætti þá doka við með þessa umr. þangað til hann losnar frá sínum yfirlýsingalestri í ræðustól hv. Nd.