19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3802 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Virðulegi forseti. Þær umr. sem hér hafa orðið núna síðast, eftir að hv. 9. þm. Reykv. Ólafur Jóhannesson gaf sína yfirlýsingu, hafa svo sannarlega komið mér á óvart.

Það er hér til umr. að það hefur verið stefna ríkisstj. að hækka ekki skattbyrði af tekjusköttum á yfirstandandi ári frá því sem var í fyrra. Þá er átt við að skattar af greiddum launum á árinu 1984 hækki ekki sem hlutfall af greiddum launum. Þetta hefur verið stefna ríkisstj. og þetta hefur verið fjallað um í þingflokkum stjórnarliðsins og ég veit ekki betur en það hafi verið samþykkt þar og í ríkisstj. Í samræmi við þetta var skattstigum breytt þegar forsendur fjárlaganna breyttust um tekjuþróun á árinu í ár. Nú vita menn hver hún verður. Hún verður önnur en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þá eru menn að færa þetta til samræmis við yfirlýsta stefnu. Ríkisstj. hefur ekki treyst sér, eins og ég hef skilið það, til þess að fara í íþyngingu tekjuskatta miðað við þær aðstæður sem nú eru en hún hefur hugsað sér að halda þeirri skattalækkun sem framkvæmd var í fyrra og hún komi sannarlega til framkvæmda í ár.

Ég hef skilið þetta svo og ég vona að misskilningur sá verði á einhvern hátt leiðréttur sem komið hefur fram hjá síðustu ræðumönnum.