19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Út af orðum hæstv. fjmrh. vil ég leyfa mér að minna á að það er viðurkennt og var viðurkennt í umr. um skattamálin í fjh.- og viðskn. og kemur glögglega fram í álitsgerðum Þjóðhagsstofnunar að verulegur hluti launafólks fær skattíþyngingu skv. þeim tillögum sem hér eru lagðar fram. Það er t. d. alveg gefið mál að fólk með meðaltekjur eða rúmar meðaltekjur fær yfirleitt allt saman skattþyngingu. Það hefur að vísu verið gerð tilraun til að koma til móts við lægra launaða fólkið vegna þess hversu illilega hefur verið að því vegið með kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. og það veldur því að meðaltalið í heild er sjálfsagt ekki fjarri því að vera á svipuðu róli og var á s. l. ári miðað við áætlaðar tekjur ársins, en verulegur hluti skattgreiðenda fær hærri skatta í ár.

Auk þess er rétt að minna á að útsvör alls þorra launamanna munu verða verulega miklu hærri í ár en var í fyrra. Það er því ljóst og ómótmælt og það vil ég að hæstv. ráðh. viti ef hann gerir sér ekki grein fyrir fyrir því nú þegar, að heildarskattbyrðin sem leggst á launamenn í landinu mun verulega aukast nú vegna þess að útsvörin munu mjög hækka og hjá verulegum hluta skattgreiðenda verður einnig um að ræða hækkun í tekjuskatti. Það er því engin furða þótt ýmsir stuðningsmenn núverandi stjórnar hrökkvi heldur betur við þegar þetta tækifæri er notað nú til að hækka skattana enn frekar. Þegar gerðir eru kjarasamningar sem eru ögn hagstæðari en hæstv. fjmrh. var búinn að ákveða að þeir ættu að vera er notað fyrsta tækifærið sem gefst til að reyna að ná þessum fjármunum til baka og þá í ríkiskassann.

Það er sannarlega hætt við að það séu fleiri en hv. þm. Ólafur Jóhannesson sem séu heldur fúlir yfir seinustu trakteringum ríkisstj. og hæstv. fjmrh.