19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Nokkur orð til þess að leiðrétta misskilning sem virtist vera á ferðinni hjá hæstv. fjmrh. Það er kannske skiljanlegt af því að hann var kallaður snögglega inn til að hlýða á þessar umr.

Ég var ekki að hafa á móti sparnaði í ríkisrekstri þvert á móti. Ég var að benda á að ég sæi þess mjög fá merki enn þá að einhver sparnaður í ríkisrekstri hefði átt sér stað eða sé raunverulega á ferðinni, burtséð frá yfirlýsingum.

Ég vil líka benda á notkun hæstv. fjmrh. á sögnum og hjálparsögnum að því leyti að hann telur, hann heldur, hann lítur á. Það er mjög sjaldan sem hann notar beint sögnina að vera, það að einhverjir hlutir séu eða verði ekki. Það er vegna þess að hann veit atveg jafnt og aðrir sem að þessu máli standa að þó að hægt sé að tala um að skattbyrði aukist ekki milli ára og telji það til afreka mun gjaldabyrði fólks aukast. Ef menn virkilega hefðu áhuga á að kynna sér þá hluti þurfa þeir ekki annað en gera úttekt á þeim seðlum sem farið hafa út til fólks núna í jan. og febr. og bera þá saman við þá seðla sem fóru til sama fólks í des. til að átta sig á því að þarna eru á ferðinni þó nokkuð auknar gjaldtökur. Það fer ekkert milli mála að fólk tekur eftir því, það er alveg staðreynd. Ég hef ekki þá aðstöðu að gera neina úttekt á þessum málum ítarlega, en fjmrh. hefur alla aðstöðu til þess og væri kannske réttara að hann gerði það til þess að átta sig á því hvort hann vitandi eða óafvitandi er að standa við sín orð eða ekki.