19.03.1984
Efri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég mundi fagna því ef fram færu virkilegar umr. um fjármálapólitík, ekki bara þessarar ríkisstj. heldur fjármálapólitíkina í gegnum mörg ár aftur í tímann því að það er uppsafnaður vandi þeirra ára sem við erum að glíma við núna. Það var ekkert gaman að koma að lokuðum skólum, stöðvuðum skólabifreiðum, ekki til króna í neinu rn., 60% af þjóðarframleiðslu í erlendum skuldum og hátt á annað þús. millj. kr. yfirdráttur í Seðlabankanum. Svona mætti lengi telja. Það er ekkert gaman. Þegar sá vandi sem núna er ljós blasir við í staðinn fyrir að vera upplýstur, þegar hann er staðreynd í lok árs, það er allt annað en gaman.

En ég vil aðeins segja það til hv. 3. þm. Norðurl. v. að útsvarshækkanir mega ekki verða til þess að ríkið lækki endalaust sína skatta. Ríkið þarf sitt og engum ætti að vera það betur ljóst en þeim sem sat með lokaða skóla, stöðvaðar skólabifreiðar og tóma kassa í öllum ráðuneytum fyrir tæpu ári síðan. (RA: Hvaða skóla var lokað?)

En varðandi þá samþykkt eða ekki samþykkt sem var gerð í þingflokkum stjórnarinnar er það ekki rétt að Sjálfstfl. hafi samþykkt að hækka skatta. Ég tók það fram að hér er verið að færa aftur í það sama form, má segja, og fyrst var þegar fjárlög voru lögð fram. Verið er að færa skattstigann upp um tvö stig aftur til þess að halda þeirri skattprósentu sem var en ekki íþyngja. Það er ekki hv. 2. þm. Norðurl. e. sem fékk þær upplýsingar frá Framsfl. heldur var það ég sem ráðh. í ríkisstj. og ég óskaði eftir að það yrði sérstaklega bókað í ríkisstj . Mér er það ljúft að sýna virðulegum 9. þm. Reykv. þá bókun sem gerð var í ríkisstj., en það var forsrh. sem upplýsti að Framsfl. væri samþykkur þessari aðgerð þannig að það mál er upplýst. Virðulegur 9. þm. Reykv. tilheyrir í mínum huga þeim hópi í ríkisstj. sem kallaðir eru framsóknarmenn og tilheyra Framsfl. En um afstöðu einstakra þm. var ekki kunngert og þetta var í fyrsta sinn sem ég heyri afstöðu virðulegs 9. þm. Reykv. Ég held að ég hafi þá svarað þeirri spurningu sem virðulegur 2. þm. Norðurl. e. bar til formanns fjh.- og viðskn.