31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur, Kristínu S. Kvaran og Kristínu Halldórsdóttur að flytja frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópa. Meginmarkmið þessa frv., eins og fram kemur í 1. gr., er að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu.

Áður en ég geri nánari grein fyrir efni þessa frv. langar mig að fara nokkrum orðum um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.

Þróun tekjuskiptingarinnar og sá frumskógur sem öll launa- og kjaramál eru í þjóðfélaginu er orðið alvarlegt umhugsunarefni, ekki aðeins fyrir verkalýðshreyfinguna heldur ekki síður fyrir stjórnvöld. Öll umr. um þessi mál, bæði við gerð kjarasamninga og í aðgerðum stjórnvalda til að bæta sérstaklega hag þeirra verst settu, fer út og suður því að allar forsendur, sem menn byggja ákvarðanatöku sína á, eru næsta marklitlar og handahófskenndar. Menn ganga ráðvilltir um í því völundarhúsi sem þróun kjaramála og tekjuskiptingar hafa leitt þá í þegar verið er að leita raunhæfra aðgerða til að bæta kjör þeirra verst settu, enda virðast útgöngudyrnar fáar þegar kemur að ákvarðanatöku um að bæta hag þeirra verst settu. Og hver er árangurinn? Við sjáum hann fyrir okkur í þjóðfélaginu, í hrikalegri misskiptingu lífskjara og aðstöðu manna í þjóðfélaginu. Við sjáum fyrir okkur að þúsundir heimila í landinu geta ekki framfært sig og eiga ekki fyrir brýnustu nauðþurftum, jafnvel þótt tvær séu fyrirvinnurnar og unnið sé myrkranna á milli.

Við sjáum líka fyrir okkur á lífskjörum og lífsstíl margra, að hér getur ekki allt verið með felldu í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og ekki bara í tekjuskiptingunni, heldur spila hér inn í líka skattamálin og hvernig sumir sleppa alltaf undan að greiða sinn skerf til samfélagslegra þarfa. Skattamálin eru auðvitað kapítuli út af fyrir sig, sem full ástæða væri til að gera nánari skil þó ég fari ekki út í það nú, en við fengum smáumr. utan dagskrár um daginn varðandi skattamálin og hve nauðsynlegt er að taka á skattsvikum í þessu þjóðfélagi.

En varðandi tekjuskiptinguna sjálfa, þá er ekkert sem getur réttlætt svo mikinn mun á kjörum manna í þjóðfélaginu sem við sjáum endurspeglast í hinum geysilega mismun sem er á lífskjörum hinna ýmsu þjóðfélagshópa. Það er gjarnan talað um að það sé verðmætasköpunin sem skiptir máli, sem sé grundvöllur þess sem til skiptanna er í þjóðfélaginu. Jú, mikið rétt, en á hverjum hvílir þungi verðmætasköpunarinnar? Ég fullyrði að hann hvílir ekki síður á Iðjufólkinu, á konunum í Framsókn, og Sókn og verkamönnunum í Dagsbrún en atvinnurekendunum sjálfum eða þeim sem er uppi í píramídanum eða fílabeinsturninum í hverri atvinnugrein.

Við getum borið saman annars vegar lífskjör verkafólks almennt í þjóðfétaginu og stjórnenda atvinnurekstrar eða yfirmanna í hinum ýmsu starfsgreinum hins vegar. Hvað réttlætir þann mikla mismun sem er á kjörum þessa fólks? Ég fæ ekki séð það. Ég fæ ekki séð hvaða þjóðfélagslegt réttlæti er í því að fólk sem slítur sér út fyrir aldur fram með líkamlegri erfiðisvinnu og vinnuþrælkun við undirstöðuatvinnugreinarnar í þjóðfétaginu skuli samt ekki eiga fyrir nauðþurftum eða mat út mánuðinn meðan aðrir, sem ekki verður séð að leggi meira vinnuframlag til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu, lifa við kjör sem svo mikill munur er á sem raun ber vitni. Í raun er hann svo mikill að það er nánast eins og svart og hvítt í samanburði.

Við höfum það fyrir okkur víðs vegar í þjóðfélaginu, hve hrikalegur munur er á lífskjörum og fjárhagslegum aðstöðumun manna. Ég get nefnt dæmi af Dagsbrúnarmanninum sem kom að máli við forustumenn Dagsbrúnar og spurði þá hvort þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hvað væri að gerast í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og um leið hvernig þeir ætluðu Dagsbrúnarverkamanni að lifa af þessum 60 kr. á tímann sem þeir semdu um fyrir þá. Hann sagðist vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir allra brýnustu framfærslu heimilisins, en það dygði hvergi til, og svo mikill væri vinnuþrældómurinn að allt eðlilegt fjölskyldulíf færi forgörðum. Hann átti enga orku til að sinna börnum og heimili að loknu dagsverki. Hann tók samanburð og sagðist vinna þessa dagana við að koma upp vestur á Seltjarnarnesi nuddpotti sem vantaði við hlið sundlaugar sem fyrir var úti í garði hjá einum af mörgum velmegunarpostulum þessa þjóðfélags. Hann svimaði hreinlega þegar hann kom inn í híbýli þessa manns, þar sem allt var í marmara, krystal og harðviði. Hvernig er tekjuskiptingu þessa þjóðfélags eiginlega háttað? spurði hann. Hvað ætlið þið okkur verkamönnunum eiginlega með þessum sultarlaunum, sem þið semjið um fyrir okkur, sem hvorki duga til þess að við getum klætt né brauðfætt okkar fjölskyldu, þrátt fyrir mikinn vinnuþrældóm við að koma upp nuddpottum í görðum þeirra sem leyft geta sér slíkan munað vegna þess aðstöðumunar og þess fyrirkomulags tekjuskiptingar sem þjóðfélagið hefur búið þeim? Þessi maður var ekki að biðja um nuddpott. Hann var aðeins að biðja um að eiga fyrir framfærslu og nauðþurftum sinnar fjölskyldu.

Ég skal taka annað dæmi. Í dagblaði fyrir skömmu lýsti einstæð móðir með tvö börn því, hvernig væri að framfleyta sér af kaupi sem hún hefur, en hún vinnur eitt af þessum hefðbundnu kvennastörfum. Hún lýsir því hvernig hún vann á spítala allan daginn. Hún lýsir því hvernig hún þurfti að neita sér um ýmislegt sem telja verður til nauðþurfta í mat í þjóðfélaginu, svo sem kjöt og grænmeti. Þessi einstæða móðir sagði: Svo segja menn að við verðum að spara. Og hún spyr réttilega: Spara hvað? „Þetta var of mikið fyrir mig“, sagði hún, „taugarnar gáfu sig í vinnunni einn daginn. Það var trúlega heppni að ég vann á spítala því að ég var lögð beint inn og var þar í hálft ár.“ Hún lýsir kjörum sínum með eftirfarandi hætti: „Það sem ég verð að gera til að framfleyta börnunum er að standa í biðröð hjá Félagsmálastofnun og vera ein af þessum lýð sem rænir og ruplar fé af skattborgurunum. Maður getur ekki litið framan í fólk vitandi að maður sé að éta það út á gaddinn. Þessi biðröð er ekki skemmtileg og það eru margir sem brotna þar niður. Það gerði ég líka.“ Og hún heldur áfram og segir: „Þegar hið opinbera er komið með fólk á laun við það að benda konum eins og mér á að við verðum bara að gefa börnin því að við getum þetta ekki, þá er von að mann langi til að gubba þegar maður sér þessa karla sem lifa sældarlífi og segja manni að spara og spara. Ég var oft komin á fremsta hlunn með að fara heim til ókunnugs fólks, sem ég vissi að hafði nóg, og biðja það að selja t.d. einn af bílum sínum svo að ég þyrfti ekki að gefa börnin mín.“

Við skulum taka aðra reynslusögu af einstæðri móður, sem sagði eftirfarandi á ráðstefnu Sambands Alþýðuflokkskvenna um launamálin nýlega: „Erfiðleikarnir hrönnuðust upp meðan ég gekk með seinna barnið. Ég hef góða menntun til skrifstofustarfa og vann hjá einu stærsta útgerðarfélagi hér í borginni. Svo vill til að við vorum þrjú sem unnum þarna og vorum einstæðir foreldrar, tvær konur og einn karlmaður. Ef við stúlkurnar þurftum að vera heima vegna veikinda barna okkar vorum við spurðar hvort við ætluðum að vinna það af okkur eða taka launalaust leyfi. Slíkar spurningar voru aldrei lagðar fyrir karlmanninn undir sömu kringumstæðum. Og þegar ég varð að taka frí til að eignast stúlkuna, þá óskaði skrifstofustjórinn eftir því að ég kæmi ekki aftur. Stúlka með tvö börn væri ekki æskilegur starfskraftur. Því hófst þriggja mánaða leit að atvinnu þegar ég kom af fæðingardeildinni. Niðurstaðan varð alls staðar sú sama. Kona með tvö ungbörn var ekki sá starfskraftur sem þeir leituðu að. Og við bættist einnig að á miðju sumri var mér sagt upp húsnæði og þegar allt um þraut fékk ég inni hjá Félagi einstæðra foreldra í Skerjafirði.“

Þetta eru vissulega ekki fallegar sögur, en þetta eru reynslusögur úr hinu daglega lífi. Þetta er hinn blákaldi veruleiki, sem alltof margir verða að lifa við, enda hefur þunginn á Félagsmálastofnun Reykjavíkur til að mynda vaxið um 20% á þessu ári.

Það er talað um að þjóðartekjur okkar hafi vaxið mun meira en flestra annarra OECD-ríkja síðustu 2–3 áratugi og við séum í hópi 10 ríkustu þjóða heims. Bágborin staða margra heimila í landinu endurspeglar alls ekki þá staðreynd. Hún endurspeglar þvert á móti að gæðum og þjóðartekjum þessa lands sé misskipt og að aðstöðumunur sé hrikalegur og sú velmegun, sem gæði þessa lands þó hafa skilað okkur, sé langt frá því að geta endurspeglað sanngjarna eða réttláta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Ég sagði áðan að hægt væri að líkja frumskógi launakjara og tekjuskiptingar í þjóðfélaginu við völundarhús sem enginn fyndi útgöngudyr á. En af hverju er það? Það er vegna þess að stjórnvöld og verkalýðshreyfingin hafa verið sofandi fyrir þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Og hver er sú þróun? Jú, að kauptaxtarnir, sem ávallt er um deilt í öllum kjarasamningum, eru næsta marklausir. Þeir gefa rétta mynd af kjörum láglaunafólksins í þjóðfélaginu, sem lifa þarf af hungurtöxtum sem samið er um við atvinnurekendur. En er skipt þar öllu sem til skiptanna er? Nei, aldeilis ekki.

Stórum hluta þess sem til skiptanna er er skipt fram hjá öllum kjarasamningum. Í raun er það svo, að atvinnurekendur ráða einhliða eftir eigin geðþótta verulegum hluta tekjuskiptingarinnar með yfirborgunum, kaupaukum og fríðindum sem að stærstum hluta renna til þeirra betur settu. En við samningaborðið er alltaf sami söngurinn, að það sé ekkert til skiptanna.

En er það svo? Er því ekki skipt fram hjá samningum eftir geðþótta atvinnurekenda? Gert er ráð fyrir ákveðnu launaskriði fram hjá kjarasamningum í útreikningum um kaupmátt á næsta ári. Varla gengur það til hinna lægst launuðu. Og á hverju bitnar þessi þróun, sem að mestu hefur verið látin afskiptalaus af stjórnvöldum og verkalýðshreyfingu? Jú, auðvitað láglaunafólki. Ég tel að þessi þróun hljóti að vera orðin æðimikið umhugsunarefni fyrir verkalýðshreyfinguna og launþega almennt. Það er staðreynd, sem ég tel að verkalýðshreyfingin gefi alltof lítinn gaum, að atvinnurekendur komast upp með án teljandi mótþróa að ráða einhliða stærri og stærri hluta af tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Staðreyndin er raunar sú, að kjarasamningar, sem árlega er um deilt í hverjum kjarasamningum, sýna aðeins hluta tekjuskiptingarinnar í þjóðfélaginu, þ.e. raunverulega kjör þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Það er líka staðreynd, sem verkalýðshreyfingin verður að horfast í augu við, að hún er aðeins samningsaðili fyrir láglaunafólkið í þjóðfélaginu. Þeir sem við betri kjörin búa semja í raun um sín kjör sjálfir með duldum greiðslum, yfirborgunum eða á annan hátt. Aðeins sú staðreynd hlýtur að segja okkur að baráttuaðferðir verkalýðshreyfingarinnar eru orðnar fyrir löngu úreltar.

Lítum á það, að í einu samkrulli og samfloti setjast fulltrúar bæði hærra launuðu hópanna og þeirra tekjulægstu kannske árlega saman við samningaborðið, þar sem langur tími fer í að ræða um örfá prósentustig. Hin raunverulega tekjuskipting, hvað er raunverulega til skiptanna og hvað sé réttlát tekjuskipting með tilliti til hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar, er sjaldnast til umræðu. Tíminn fer í að semja um einhverja meðaltalsprósentu, sem allir fá og þegar upp er staðið skilar það í raun þeim tekjulægstu minnstu. Síðan eru það atvinnurekendurnir sem ákveða einhliða hvernig stórum hluta af kökunni er skipt til hinna betur launuðu í þjóðfélaginu. Tekjuskiptingin og öll kjarasamningagerð er orðinn einn skrípaleikur og komin í algera sjálfheldu, raunar á blindgötu sem ekki verður fundin leið út úr nema stjórnvöld grípi í taumana.

Ég er ekki með þessu að segja að stjórnvöld eigi að fara að skipta kökunni og skipta upp launakjörum í þjóðfélaginu, heldur tel ég að stjórnvöld geti höggvið á þann hnút og þá endaleysu sem kjaramálin eru komin í. Þessi þróun hefur fengið að viðgangast óáreitt, og ég vil leyfa mér að gagnrýna bæði stjórnvöld og verkalýðshreyfinguna fyrir sofandahátt í þessu máli. Afleiðing þessa er auðvitað sú, að aldrei hefur verið hægt að finna neinar vitrænar leiðir, hvorki í aðferðum stjórnvalda né við samningsborðið hjá aðilum vinnumarkaðarins, til að bæta sérstaklega og á raunhæfan hátt kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Ég tel að stjórnvöld geti höggvið á þann hnút sem fyrir hendi er með því að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu á launakjörum í þjóðfélaginu.

Ég geri mér grein fyrir að hér er ekkert einfalt mál á ferðinni, en undan því verður ekki vikist. Slík úttekt gæti síðan verið undirstaða til að einfalda frumskóg launataxta og ýmissa kjaraatriða, en á grundvelli slíkra upplýsinga er frekar hægt að ákvarða hvaða aðferðum sé hægt að beita til að auka laun og tekjur þeirra einstaklinga eða hópa sem verst eru settir og jafna á þann hátt tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.

Verkalýðshreyfingin verður að grafast fyrir um hvað liggur til grundvaltar því, að þeir sem hvað mest leggja á sig við vinnu í undirstöðuatvinnugreinum þjóðfélagsins bera minnst úr býtum og hvað liggur til grundvallar taxtauppbyggingunni og öðrum kjaraatriðum og duldum greiðslum og yfirborgunum sem þróað hafa óþolandi launamisrétti í þessu landi. Það er í raun orðið óþolandi hvernig ýmsir hópar hafa komist upp með að ná fram lífs- og launakjörum sem eru í engu samræmi við vinnuframlag þeirra eða eðli vinnunnar. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það er þungur dómur á verkalýðshreyfinguna og stjórnvöld sem ég hef hér sett fram, en það verður að hafa það. Það er ekki lengur hægt að horfa upp á að ekkert sé gert í þessu máli. Það er ekki lengur hægt að horfa upp á hvernig teknar eru handahófskenndar ákvarðanir, sem í raun bitna á þeim lakast settu því að allar forsendur vantar og þekkingu og yfirsýn yfir þann frumskóg sem kjaramálin og launakjörin almennt eru.

Á Alþingi hefur verið flutt tillaga um að þessi úttekt fari fram á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Það vantar ekki og það vantaði ekki heldur að hv. alþm. væru tilbúnir að stuðla að og samþykkja hér á hv. Alþingi að úttekt færi fram á raunverulegri tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. En það nægir bara ekki þegar ekkert er gert með slíka ályktun frá Alþingi.

Í apríl 1980 var samþykkt till. okkar Alþfl.-manna um að slík úttekt færi fram, en framkvæmdavaldið hefur ekkert gert með þá till. enn þá. Hún liggur sennilega í einhverri skúffu í rn., eins og margar tillögur sem samþykktar eru á hv. Alþingi. Það eru geðþóttaákvarðanir framkvæmdavaldsins sem ráða hvort vilji Alþingis, sem fram kemur í samþykktum tillögum héðan frá Alþingi, komist í framkvæmd eða ekki. Það er einnig umhugsunarefni þegar verið er að ræða stöðu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdavaldi.

Í því frv. sem hér er til umr. felst að lögbundið verði að þessi úttekt fari fram á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Margir verða eflaust til að segja að þar sem gert er ráð fyrir tímabundinni skipan nefndar, sem hafi þetta verkefni með höndum ásamt endurmati á störfum láglaunahópa, þá væri eðlilegra að flytja um það þáltill. En sú leið dugar einfaldlega ekki. Hún hefur verið reynd. Alþingi verður að taka af skarið í þessu efni með því að skylda framkvæmdavaldið með lögum til að svo verði gert. Svo einfalt er málið.

Herra forseti. Ég mun nú snúa mér að því að gera grein fyrir efni einstakra greina í frv.

Ég hef þegar lýst markmiði þess, sem er að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingunni. Í því skyni skal félmrh. skipa fimm manna nefnd sérfróðra aðila í vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati. Eins og fram kemur í 2. gr. frv. er ekki gert ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins eigi sæti í nefndinni, heldur skuli nefndin kveðja sér til ráðuneytis aðila vinnumarkaðarins eftir því sem þörf er á. Hér er ég sjálfsagt komin að viðkvæmum punkti, sem krefst nokkurrar umfjöllunar.

Fyrst er á það að líta, að eitt af meginverkefnum þessarar nefndar er að endurmeta störf láglaunahópanna og að skilgreina hvað er láglaunahópur og hverjir skipa slíka hópa. Í því sambandi er vert að benda á að áratugum saman hefur verið um það deilt hvaða hópar í þjóðfélaginu séu láglaunahópar og lágtekjuhópar. Hefði eining tekist um það milli aðila vinnumarkaðarins lægi sú skilgreining fyrir og þá væri auðveldara að ákveða hvaða aðferðum hægt væri að beita til að hækka laun og tekjur láglaunahópanna í þjóðfétaginu. Með tilliti til þess að það hefur ekki tekist eining um það hjá aðilum vinnumarkaðarins enn og engin niðurstaða er fengin í því máli, þá tel ég ekki miklar vonir til þess að aðilar geti komið sér saman um slíka skilgreiningu. Því er það skoðun flm. að slík rannsókn verði bæði fljótvirkari og síður hlutdræg ef hún er í höndum sérfróðra aðila sem betri aðstöðu hafa til að leggja hlutlægt mat á verkið. Væri slík nefnd skipuð aðilum vinnumarkaðarins er viss hætta á að hver færi að toga í sinn spotta og ekki fengjust hlutlægar niðurstöður úr slíkri rannsókn, ef niðurstaða fengist þá yfirleitt.

Á það ber einnig að líta í þessu sambandi, að ekki er á neinn hátt verið að ganga fram hjá aðilum vinnumarkaðarins, því að ætlast er til að þeir séu kallaðir til ráðuneytis um mátið án þess þó að eiga beina aðild að nefndinni. Auk þess má benda á að niðurstaða nefndarinnar er ekki bindandi fyrir aðila vinnumarkaðarins, heldur fremur leiðbeinandi og til þess gerð að auðvelda þeim alla ákvarðanatöku.

Í síðustu mgr. 2. gr. er lagt til að nefndin hafi heimild til að láta fara fram sérfræðilegar athuganir og nefndin hafi aðgang að gögnum opinberra stofnana sem nauðsynlegar eru að hennar mati. Vera má að einhver bendi á að eðlilegra sé að verkefni þessarar nefndar, eða a.m.k. hluti af verkefnum þessarar nefndar, skuli vera í höndum þeirra stofnana í þjóðfélaginu sem hafi með að gera kjararannsóknir. Í því sambandi má benda á verkefni sem láglaunanefnd er ætlað samkv. 3. gr. Þegar á þau er litið er ljóst að þau verkefni tengjast hvert öðru og nauðsynlegt að þetta sé allt á hendi þeirrar nefndar, sem hér er lagt til að verði sett á fót, og hún hafi heildaryfirsýn yfir allt verkið vegna þess að þetta tengist allt hvert öðru. Vissulega má benda á stofnanir, sem hafa ýmsar tölfræðilegar upplýsingar með höndum sem tengjast kjararannsóknum, eins og Þjóðhagsstofnun og Hagstofan og ekki síst kjararannsóknanefnd. Ég tel að miðað við verkefni þessarar nefndar sé ekki rétt eða eðlilegt að fela þessi verkefni slíkum stofnunum eða stíla verkefni nefndarinnar úr tengslum hvert við annað. Í því sambandi bendi ég á að meginverkefni þessarar nefndar er að hafa með höndum endurmat eða starfsmat á störfum láglaunahópanna, en slík verkefni hafa þessar stofnanir ekki haft með höndum. Auk þess má benda á að kjararannsóknanefnd er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins og starfsemi hennar ekki bundin í neinum lögum, en það er einmitt til þess ætlast, eins og ég benti á áðan í 2. gr., að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki þetta verkefni með höndum, sem hér er lagt til, af ástæðum sem ég greindi frá áðan.

Vissulega getur það verið svo, að hluti af þessum verkefnum gæti verið í höndum t.d. kjararannsóknanefndar, svo sem einhverjir upplýsingaþættir er snerta úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum, enda er til þess ættast að láglaunanefnd hafi samráð við þessa aðila, sem með einum eða öðrum hætti fjalla um það verkefni sem fela á nefndinni í frv., þ.e. kjararannsóknanefnd, Þjóðhagsstofnun, Hagstofan, Jafnréttisráð — og félagsvísindadeild Háskólans væri ekki óeðlilegt að nefna í þessu sambandi. Hins vegar er um það að ræða í 2. gr. frv. að nefndin hafi heimild til að láta fara fram sérfræðilegar athuganir og hafi aðgang að gögnum opinberra stofnana, sem nauðsynlegar eru að hennar mati, og þar gæti, eins og ég nefndi áðan, komið til að kjararannsóknanefnd hefði á hendi í samráði við nefndina ákveðna upplýsingaöflun í þessu sambandi, þó verkstjórn og öll samræming á störfum þeim sem í þessu frv. felast sé í höndum láglaunanefndar.

Eitt atriði vil ég einnig nefna, sem að kjararannsóknum lýtur. Ég tel að hægt væri að nota miklu meira til upplýsingaöflunar um raunverulega tekjuskiptingu en gert hefur verið, ef vilji væri fyrir hendi, upplýsingar sem hægt væri að fá fram um tekjur einstakra hópa og atvinnustétta í þjóðfélaginu í gegnum skattframtölin. Ég minni á að á tveim undanförnum þingum hef ég lagt fram frv. um breytingu á skattalögum þess efnis, að kjararannsóknanefnd fái aðgang að skattframtölum með sama hætti og Hagstofan og Þjóðhagsstofnun. Einnig var í því frv. lagt til að skattstjóri mundi í samráði við kjararannsóknanefnd ákveða með hvaða hætti sundurliðun launa á launamiðum skyldi skilað inn til skattstjóra, þannig að hægt væri að fá úr þeim ítarlegri upplýsingar um launakjör í þjóðfélaginu en nú er mögulegt.

Eins og nú er er einungis hægt að fá í skattframtölum upplýsingar um heildarlaunagreiðslur og vinnuvikur, sem er ófullnægjandi ef nota á þessi skattframtöl til kjararannsókna. Væri um að ræða að vinnutími yrði meira sundurliðaður, svo sem dagvinnutímar, eftir- og næturvinnutímar, þá opnuðust alveg nýir möguleikar á fljótvirkari leið til kjararannsókna en við höfum nú. Ég tel, herra forseti, rétt að benda á þessa leið nú þegar við fjöllum um þetta frv. sem felur í sér að framkvæmdar verði kjararannsóknir og úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu, og tel að sú leið sem við höfum í upplýsingaöflun um kjaramál gegnum skattframtöl hafi ekki verið nýtt sem skyldi.

Ég vil nú snúa mér að 3. gr. þessa frv., en í þeirri grein kemur fram hvaða verkefni láglaunanefndin á að hafa með höndum.

Það er í fyrsta lagi að upplýsa hvernig raunveruleg tekjuskipting og launakjör eru innan starfsgreina og milli þeirra. — Ég tel ekki, herra forseti, nauðsynlegt að fara út í það frekar en ég hef hér gert hve nauðsynlegt er að fá fram upplýsingar um raunverulega tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og þá um leið hlut láglaunahópanna í tekjuskiptingunni, en það er auðvitað undirstaða þess að hægt sé að meta hvort hlutdeild láglaunahópanna í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu er óeðlilega lág miðað við vinnuframlag, eins og eitt af verkefnum þessarar nefndar er.

Í annan stað á nefndin að skilgreina hvað er láglaunahópur og hverjir skipa slíka hópa. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að hér er um viðkvæmt og vandasamt verkefni að ræða. Engu að síður tel ég óumflýjanlegt að reynt verði að skilgreina það af sérfróðum aðilum í vinnumarkaðsmálum, vinnurannsóknum og starfsmati, sem færir eru um að leggja hlutlægt mat á verkið, en það hefur ekki verið áður gert svo að ég viti til.

Í þriðja lagi er lagt til að gerð verði á því könnun og það metið, hvort láglaunastörf, ekki síst hefðbundin kvennastörf, séu metin óeðlilega lágt til launa miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðinum. Samanburður skal annars vegar gerður á störfum faglærðra láglaunahópa og hins vegar ófaglærðra hópa. — Það er staðreynd, sem ég trúi ekki að nokkur mæli gegn, að flestöll hefðbundin kvennastörf eru metin til lægstu launa í þjóðfélaginu. Um það mætti nefna mörg dæmi. Ég get nefnt konurnar á Sóknartöxtunum inni á spítölunum, konurnar í þvottahúsinu, ég gæti nefnt konurnar í ræstingu, konur við barnagæslu, konur sem sinna uppeldismálum, konur á saumastofum og fleiri dæmi mætti taka. Þetta eru allt störf sem metin eru til lægstu launa í þjóðfélaginu.

Sama má reyndar segja um konurnar í frystihúsunum, en þær geta bætt sér upp sína taxta með miklum vinnuþrældóm í bónusvinnu. Kona í frystihúsi, sem fengin var til að lýsa störfum og kjörum kvenna í frystihúsi á ráðstefnu sambands Alþýðuflokkskvenna nýlega, sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég er viss um að ég get með góðri samvisku, án þess að vanmeta störf annarra verkakvenna, sagt að það sé leitandi að þeirri stétt launþega sem þarf að hafa eins mikið fyrir launum sínum og konan í frystihúsinu. En hversu lengi endist hún?“ sagði þessi kona.

Þrátt fyrir það, eins og fram kemur hjá þessari konu, að hér sé um raunverulega vinnuþrælkun að ræða, þá hafa konur í fiskvinnu viljað viðhalda þessu bónuskerfi, en bónusinn er þeirra leið til að bæta sér upp þann hungurtaxta sem þær hafa í fiskvinnslunni.

Það má vafalaust leita ýmissa skýringa á því og menn hafa sjálfsagt á því misjafnar skoðanir, hvers vegna hin hefðbundnu kvennastörf eru svo lágt metin í þjóðfélaginu sem raun ber vitni. En hvaða skýringu sem menn hafa á því, þá er ekkert sem réttlætir að þessi störf skuli metin til lægstu launa í þessu þjóðfélagi. Það mætti auðvitað tilgreina hér mörg dæmi frá vinnumarkaðinum, sem viðkemur þessum hefðbundnu kvennastörfum, sem sýndu í raun fram á óréttlætið í þessum málum. Ég vil t.d., með leyfi forseta, vitna í Ásgarð frá mars 1980, sem er rit opinberra starfsmanna, en þar kemur eftirfarandi fram í grein eftir Helgu Ólafsdóttur bókavörð:

„Sé litið í síðustu kjarasamninga Reykjavíkurborgar kemur margt fróðlegt í ljós. Í 5. launaflokki eru til að mynda aðstoðarstúlkur, kennarar við Fossvogsskóla og afgreiðslumenn í birgðastöðvum. Þær fyrrnefndu bera ábyrgð á börnum, en þeir síðarnefndu á sópum, kústum og perum. Í 6. launaflokki eru t.d. sjúkraliðar, sem hafa að baki a.m.k. tveggja ára nám í framhaldsskóla og eins árs sérnám. Í sama flokki og fjölmörgum hærri launaflokkum eru karlastörf þar sem engrar menntunar umfram skyldunám er krafist, nema e.t.v. stuttra námskeiða. Matráðskonur nokkurra minni sjúkrastofnana, sem bera ábyrgð á fæði sjúkra, eru í 9. launaflokki. Í sama flokki er til að mynda aðstoðaráhaldavarsla. Deildarljósmæður, sem bera ábyrgð á lífi ungbarna, eru í 12. launaflokki. Í sama flokki er verkstjórn við meindýraeyðingu. Vandlega skal tekið fram að engir í ofangreindum viðmiðunarhópum karla eru tíndir til af því að ég álíti að þessir menn séu oflaunaðir, heldur er hér nánast um tilviljunarkennt val að ræða.

Augljóst er af þessum dæmum, að í starfsmati skýtur töluvert skökku við. Ábyrgð, menntun eða fyrri reynsla eru smánarlega lítils metnir þættir þegar um dæmigerð kvennastörf er að ræða. Dæmigerð karlastörf eru aftur á móti metin til jafns við fyrrgreind störf, enda þótt menntunarkröfur séu litlar eða engar og ábyrgð bundin við dauða hluti. Konur fjölmenna í heilbrigðisstéttirnar oft og tíðum vegna reynslu við t.d. uppeldis- og húsmóðurstörf, e.t.v. vegna meðfæddrar tilhneigingar. Afleiðingin er sú, að þessi störf ásamt störfum að fóstrun og uppeldi barna eru lægst metin allra starfa. Af þessu leiðir að fólk með löngun og hæfileika fælist launanna vegna frá störfum þar sem mannslíf eru í veði og grunnur er lagður að framtíð barnanna okkar. Streymið í þessi störf einskorðast svo til eingöngu við annað kynið, sbr. unglingspiltinn sem hafði gott lag á börnum, en sagði: „Heldurðu að ég ætli að fara að vera á þínu framfæri alla ævi, mamma mín,“ þegar móðirin stakk upp á því að hann legði fyrir sig fósturstörf.“

Og í Ásgarði í okt. 1981 kemur eftirfarandi fram hjá Helgu Ólafsdóttur bókaverði, með leyfi forseta: „Skrifstofumenn og fulltrúar eru starfshópar sem stunda óskilgreind skrifstofustörf. Þegar ráðið er til þessara starfa er frekar krafist almennrar menntunar en sérhæfðrar þekkingar á einhverju sviði. Sannleikurinn er þó sá, að skrifstofumenn þurfa oft og tíðum að búa yfir góðri íslenskukunnáttu og jafnframt kunnáttu í öðrum tungumátum ásamt færni í vélritun og notkun annarra skrifstofuvéla. 65% kvenna í skrifstofustörfum eru skrifstofumenn og allur obbi þeirra er launaður í 10. launaflokk og lægra, en aðeins 13% karla eru skrifstofumenn. Aftur á móti eru aðeins 13% kvenna í störfum fulltrúa, en 39% karla. Þeir eru jafnframt yfirgnæfandi í enn þá æðri skrifstofustörfum, svo sem í stöðum deildarstjóra og skrifstofustjóra. Fulltrúar eru oftast næstu yfirmenn skrifstofumanna og sjálfsagt er töluvert almennt að skrifstofumenn hækki í fulltrúa, sérstaklega ef þeir eru karlar. Ekki þarf þó að vera mikill eðlismunur á þessum tveim störfum. Dæmi eru þess að skrifstofumaður, kona, og fulltrúi, karl, sitji saman á skrifstofu og vinni sömu störf fyrir ójöfn laun. Enginn vafi leikur á því, að hjá því opinbera starfar fjöldi kvenna við vandasöm verk sem þarfnast mikillar færni undir því óskilgreinda og víðfeðma starfsheiti skrifstofumaður og er gróflega haldið niðri í launum.“

Einnig má henda á annað atriði, sem fram kemur í sérkjarasamningum starfsmanna ríkisins, en þar má finna starfsheiti eins og aðstoðarmatráðskona, matráðskona, ráðskona í borðstofu, yfirsaumakona, aðstaðarkona. Spyrja má í því sambandi hvort virkilega sé ek6:i gert ráð fyrir að karlmenn stundi þessi störf eða hvort þeir gegni þeim undir öðrum starfsheitum.

Á ráðstefnu þeirri, sem ég vitnaði til áðan, sem Samband Alþýðuflokkskvenna hélt fyrir stuttu, þá gerði Kristinn Karlsson félagsfræðingur því nokkur skil hvers vegna hefðbundin kvennastörf væru metin til lægstu launa í þjóðfélaginu, en hann hefur staðið fyrir könnunum um jafnréttismál. Hann sagði að settar hefðu verið fram kenningar um tvöfaldan vinnumarkað og aðskilinn vinnumarkað. Kristinn sagði að sér vitanlega hefðu ekki farið fram rannsóknir á vinnumarkaðinum hér á landi þar sem aðskilnaður starfa eftir kyni hefði verið athugaður. Hann sagði þó óhætt að fullyrða að skipting starfa í karla- og kvennastörf væri almenn og skýr eins og í öðrum þróuðum iðnríkjum. Sagði hann m.a. að bandaríski hagfræðingurinn Mary Stevenson héldi því fram að í aðskilnaði starfa kynjanna á vinnumarkaðinum sé að leita stærstu skýringa á lágum launum kvenna. Stevenson beitir m.a., til þess að skýra hvernig þessi aðskilnaður starfa fer fram, tilgátu sem fram kom í Englandi á 3. áratug þessarar aldar. samkv. henni er því haldið fram, að aðalástæðan fyrir lágum launum kvenna sé að þeim sé beint í mjög takmarkaðan fjölda starfa og þeim sé í raun meinaður aðgangur að öllum öðrum störfum. Vegna þess að konur séu í samkeppni um þessi fáu störf sem þær eru taldar hæfar til að gegna sé launum þeirra haldið niðri. Mun fjölbreyttara úrval starfa tilheyrir körtum. Þeir eru verndaðir fyrir samkeppni um störf við vinnandi konur. Kristinn Karlsson sagði á ráðstefnunni, að Mary Stevenson segði að krafan um sömu laun fyrir sömu vinnu, þó hún sé mikilvæg, snerti ekki nema lítinn flöt á miklu stærra máli, sem er launamisrétti kynja í milli. Kynjaaðskilnaðurinn á vinnumarkaðinum er raunverulega vandamálið að baki hinum lágu launum kvenna. Það virðist sem hvenær sem hægt sé að einangra konur innan takmarkaðs fjölda starfa og atvinnugreina sé afleiðingin lág laun þeirra.

Þessi skoðun Mary Stevenson fær mig til að hugsa um það frv. sem ég lagði fram um breyt. á lögum um jafnrétti kvenna og karla, þar sem ég lagði til að þar sem staðreynd væri að kynbundin starfsskipting væri ríkjandi í mörgum atvinnugreinum væri nauðsynlegt að lögbinda tímabundið að ef konur sæktu um störf þar sem karlmenn hefðu verið svo til einráðir í áður skyldi ráða konuna, ef hún hefði til að bera sömu hæfni. menntun og hæfileika og karlmenn sem sæktu um starfið.

Ég þarf varla að rifja upp fyrir hv. þdm. hér og nú fordómana og gagnrýnina sem fylgdi í kjölfar þess að ég lagði fram frv., en það er samt ýmislegt sem bendir til þess að allir þessir fordómar séu á undanhaldi. Nú er á döfinni í ríkisstj. að leggja fram ekki ósvipaðar hugmyndir. Margir virðast því hafa skipt um skoðun og séu orðnir sammála þeirri hugmynd sem ég lagði fram og sjái að þetta sé eina leiðin til að ná fram launajafnrétti kynjanna og til að breyta þeim aðskilnaði sem er milli kynja á vinnumarkaðinum nú.

Það er staðreynd að konur hafa of lengi látið bjóða sár að hin hefðbundnu kvennastörf séu metin til fægstu launa í þessu þjóðfélagi. Það er kannske meginskýring þess hvað launin eru lág að karlmenn sækja ekki inn í hin hefðbundnu kvennastörf. Það er ein skýringin á hvers vegna vinnumarkaðurinn er kyngreindur í mörgum störfum.

Það er athyglisverð staðreynd, sem ég las líka nýlega, hvaða áhrif það hafði þegar sú þróun átti sér stað í Svíþjóð að karlmenn fóru að sækja meira inn í hin hefðbundnu kvennastörf. Þá breyttust launakjörin fljótlega til batnaðar. Talið var að skýringuna mætti rekja til þess að karlmenn hefðu fljótlega verið valdir inn í stjórnir félaganna og samninganefndir og hefðu þeir ekki látið bjóða sér þau kjör sem konur hefðu haft. Einnig sagði að þessu hefði verið þveröfugt farið í hefðbundnum karlastörfum, sem kvenfólk fór að sækja mikið inn í. Karlmenn hefðu þá í töluverðum mæli hætt störfum og um leið hefðu launakjörin versnað. Það rennir líka stoðum undir að konur séu alls staðar í heiminum notaðar sem ódýrt vinnuafl, þegar talið var á árinu 1980 að konur ynnu 75% allrar vinnu í heiminum, og þar er átt við launaða og ólaunaða vinnu, en þægju aðeins 10% allra launa og ættu aðeins 1% allra eigna.

Í c-lið 3. gr. þessa frv. er því sérstaklega lögð áhersla á, þegar láglaunastörfin eru metin, að sérstaklega verði athuguð þessi hefðbundnu kvennastörf, en lagt er til í 3. gr. að til grundvallar starfsmati verði lagðir þættir eins og ábyrgð á jafnt mannlegum sem efnislegum verðmætum, vinnuálag. áhætta (þar með talið vegna atvinnusjúkdóma, menntun, starfsþjálfun, starfsreynsla, hæfni, óþrifnaður erfiði og aðrir þættir sem áhrif hafa á kaup og kjör. Yrði þessum þáttum gefið eðlilegt vægi við flokkaröðun er ég sannfærð um að verðmætamat í störfum mundi breytast og þar með tekjuskiptingin í þjóðfélaginu.

Í 3. gr. er einnig lögð áhersla á það í c-lið, að við mat á láglaunastörfum skuli sérstaklega athuga hvort starfsreynsla við heimilisstörf sé eðlilega metin við röðun í launaflokka, þegar um skyld störf á vinnumarkaðinum er að ræða, svo sem ýmis störf er snerta umönnun, uppeldismál, matargerð, þvotta, ræstingu, þjónustu, fatasaum og þess háttar. Það vita allir, sem það vilja vita, að heimilisstörfin eru lítið metin til réttinda í þjóðfélaginu og það er því sem við viljum breyta með ákvæðum þessa frv., að heimilisstörfin fái eðlilega viðurkenningu við skyld störf á vinnumarkaðinum.

Hjá hinu opinfrera hafa heimilisstörfin fengið nokkra viðurkenningu og eru a.m.k. ákvæði um það í Sóknarsamningnum að heimilisstörf skuli metin til fjögurra ára starfsreynslu, en erfiðlega og treglega hefur gengið að fá þessi heimilisstörf viðurkennd á hinum almenna vinnumarkaði.

Svo ég vitni aftur til ráðstefnu Sambands Alþýðuflokkskvenna, þá var fulltrúi vinnuveitenda spurður að því hvort hann teldi ekki réttlætanlegt að meta húsmæðrastörfin meira á vinnumarkaðinum en gert væri. Ef svör þessa fulltrúa Vinnuveitendasambandsins endurspegla afstöðu vinnuveitenda almennt til heimilisstarfanna þarf engan að undra hvers vegna þau eru ekki metin meira heldur en raun ber vitni á vinnumarkaðinum, því að fulltrúi vinnuveitenda taldi sig þurfa að vita, til þess að geta svarað spurningunni um hvort réttlætanlegt væri að meta heimilisstörfin meira á vinnumarkaðinum, hversu myndarleg húsmóðirin væri. Hann þyrfti að sjá heimilið og hvernig hún hefði skilað því af sér. Og hann bætti við: „Sú kona sem verið hefur heima, vil ég segja í iðjuleysi, ein kona sem er að væflast á heimili, e.t.v. með öldung eða eitthvað slíkt ætli hún geri mikið“, sagði þessi fulltrúi vinnuveitenda og hann taldi að ekki ætti að meta mikils starfsreynslu sem lítið álag fylgdi.

Ég veit ekki hvort þessi rödd úr röðum Vinnuveitendasambandsins er dæmigerð fyrir þau sjónarmið sem ríkja í þjóðfélaginu til heimilisstarfa. Ég vona ekki, þó e.t.v. megi ætla að svo sé þegar litið er til þess hve treglega gengur að fá viðurkennd réttindi heimavinnandi í þjóðfélaginu, ekki bara á þessu sviði, að fá það metið við skyld störf úti í þjóðfélaginu, heldur má benda á lífeyrismál heimavinnandi fólks og fleira í því sambandi. En á þetta atriði í frv. leggjum við flm. mikla áherslu og ekki síst að fá fram breytt mat og viðurkenningu í raun á störfum kvenna í þjóðfélaginu.

Ef sú rödd, sem heyrðist úr röðum vinnuveitenda á ráðstefnunni um launamál kvenna á Seltjarnarnesi, er bergmál af því að þetta sjónarmið ráði á vinnumarkaðnum er ljóst að atvinnurekendur virðast meta lítið heimilisstörfin og telja það hinn mesta óþarfa að við skyld störf á vinnumarkaðnum séu heimilisstörfin metin við röðun í launaflokka. Þetta hlýtur auðvitað að endurspegla viðhorf þeirra til hinna hefðbundnu kvennastarfa úti í þjóðfélaginu og kannske skýringar þar að leita á því hvers vegna hin svokölluðu kvennastörf eru eins lágt metin og raun ber vitni á vinnumarkaðinum.

Á eitt ber líka að líta að því er heimilisstörfum viðkemur. Á ráðstefnunni kom fram hjá Hannesi Sigurðssyni, sem gerði grein fyrir niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Framkvæmdastofnunar fyrir 1981, að skýring á rúmlega 50% hærri launum karla en kvenna á því ári væri að vinnutími karla væri mun lengri en kvenna. Sagði hann að 27% af þessum 50% mismun mætti rekja til lengri vinnutíma karla. Í þessu sambandi er fróðlegt að líta á upplýsingar Kristins Karlssonar félagsfræðings á þessari sömu ráðstefnu hvað vinnutíma karla og kvenna varðar. Þar kemur fram að samanlagður vinnutími á heimili og í atvinnulífi á viku væri að 33.8% karla ynnu 61 klst. eða meira, en 38.3% kvenna ynnu 61 klst. eða meira. Konur hafa því vinninginn í samanlögðum vinnutíma á vinnumarkaði og við heimilisstörfin. Þetta er vissulega nokkuð til umhugsunar þegar launamismunur karla og kvenna er rökstuddur með lengri vinnutíma karla.

Í d-lið segir, með leyfi forseta:

„Meta á sama hátt hvort hlutdeild láglaunahópa í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu sé óeðlilega lág miðað við vinnuframlag. — Sérstakt tillit skal taka til hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar sem eðlilegt væri að leggja til grundvallar í starfsmati og launakjörum á vinnumarkaðinum.

Við þennan samanburð skal taka með yfirborganir og alla aðra kaupauka og kjaraþætti sem áhrif hafa í hverri starfsgrein á dagvinnutekjur annars vegar og heildarlaunatekjur hins vegar. Skal hlutur kvenna í tekjuskiptingunni sérstaklega athugaður.

e) Gera sérstakan samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almennum vinnumarkaði Hins vegar.“

Í 4. gr. frv. kemur fram að láglaunanefnd skuli hraða störfum sínum eins og kostur er og skila skýrslu um niðurstöður nefndarinnar til félmrh. innan tveggja ára frá gildistöku laganna.

Í 5. gr. er ákvæði um að félmrh. flytji á Alþingi skýrslu um niðurstöður láglaunanefndar og að lokinni umfjöllun Alþingis um niðurstöður nefndarinnar skuli Alþingi taka ákvörðun um hvort nefndin haldi áfram störfum eða verkefni á sviði kjararannsókna verði aukin á annan hátt.

Eins og fram kemur í þessari grein yrði hér einungis um tímabundið starf þessarar nefndar að ræða og gert ráð fyrir að að loknu starfi nefndarinnar muni Alþingi taka afstöðu til þess hvort auka beri rannsóknir af hálfu framkvæmdavaldsins á sviði vinnu- og kjararannsókna. Hér er því í raun gerð tilraun með skipulagðar vinnu- og kjararannsóknir af hálfu framkvæmdavaldsins, sem mér er ekki kunnugt um að hafi verið gerðar áður. Benda má á í því sambandi, að eitt af verksviðum félmrn., sem fer með vinnumarkaðsmál, er að hafa á hendi kjararannsóknir samkvæmt reglugerð um stjórnarráð nr. 96/1969. Það er skoðun mín að slíkar vinnu- og kjararannsóknir eigi að vera stöðugt í gangi af hálfu framkvæmdavaldsins og gætu störf þessarar nefndar vísað veginn í því efni í hvaða farveg kjararannsóknarstörfum af hálfu framkvæmdavaldsins skuli skipað í framtíðinni. Ákveði Alþingi að loknum störfum þessarar nefndar að hún skuli ekki halda áfram störfum, t.a.m. með auknum verkefnum á sviði kjararannsókna, er gert ráð fyrir að Alþingi nemi lög þessi úr gildi.

Í 6. gr. kemur fram að kostnaður við störf láglaunanefndar skuli greiðast úr ríkissjóði með þeim hætti að ríkissjóður greiði 60% af kostnaðinum, en 40% skuli greidd af aðilum vinnumarkaðarins samkv. nánari ákvörðun félmrn. Telja verður eðlilegt að ætla aðilum vinnumarkaðarins að bera nokkurn kostnað af þessari rannsókn, því að ætla verður að aðilum vinnumarkaðarins sé mikill fengur að aukinni vitneskju og öllum hagnýtum upplýsingum og staðreyndum sem stuðlað geta að sanngjarnri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Auðvitað er erfitt að áætla hve mikill kostnaður er samfara samþykkt þessa frv., en ég trúi því að hann sé óverulegur í samanburði við mikilvægi starfa þessarar láglaunanefndar og verður að vænta þess að þegar ákvæði þessa frv. eru að fullu komin til framkvæmda geti það að verulegu leyti grisjað þann frumskóg sem kjara- og launamálin eru og greitt að verulegu leyti fyrir því að fá fram sanngjarna tekjuskiptingu í þessu þjóðfélagi, sem bætt geti á raunhæfan hátt kjör hinna verst settu í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og óska eftir að þessu frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.